Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2019 Utanríkisráðuneytið

Kraftur í norrænu samstarfi í formennsku Íslands

Norrænn sérfræðingahópur um heimsmarkmiðin og sjálfbæra þróun fundaði á Íslandi í vikunni. - myndUtanríkisráðuneytið

Norrænt samstarf er veigamikill hluti af utanríkismálum Íslands og öll ráðuneyti eiga í virku samstarfi við önnur Norðurlönd á ýmsum sviðum. Síðasta vika var annasöm í þessu tilliti og gefur ágæta mynd af umfangi og dýpt samstarfsins, ekki síst núna á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

Í vikunni fór fram fjöldi norrænna funda og viðburða, þ. á m. fundir norrænna menntamálaráðherra og umhverfisráðherra í Reykjavík, en þeir ráðherrafundir komu í kjölfar funda norrænna ráðherra vinnumarkaðar og heilbrigðismála fyrr í mánuðinum og stórri norrænni ráðstefnu um framtíð vinnunnar.

Ráðstefna Norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbæran lífsstíl var fjölsótt, en þar kom saman í Hörpu ungt fólk á Norðurlöndunum og fulltrúar nýsköpunarfyrirtækja, atvinnulífs og stjórnvalda. Menntamálaráðherra opnaði ráðstefnuna og forsætisráðherra Íslands hélt lokaávarp, auk þess sem umhverfisráðherrar Norðurlandanna tóku þátt í umræðum með fulltrúum ungs fólks. 

 Heilbrigðisráðherra tók þátt í þemaþingi Norðurlandaráðs sem fram fór í Kaupmannahöfn í byrjun vikunnar en þar var einnig kynnt ný skýrsla um norrænt samstarf á sviði friðarumleitana. Loks komu ólíkir hópar norrænna embættismanna og sérfræðinga saman í Reykjavík og ræddu um málefni á borð við stafræna væðingu, afvopnunarmál og heimsmarkmið SÞ, auk þess sem stýrihópur Stjórnarráðsins um norrænt samstarf fundaði í utanríkisráðuneytinu í dag.

Hápunktur vikunnar var þó sennilega þátttaka sænsku baráttumanneskjunnar Gretu Thunberg í ráðstefnunni í Hörpu á miðvikudag þar sem hún ávarpaði ráðstefnuna á myndbandi og hvatti ungt fólk - og stjórnvöld - til dáða í loftslagsmálum. Alls hafa rúmlega 40 þúsund manns horft á ávarp hennar á samfélagsmiðlum. 

Ísland veitir Norrænu ráðherranefndinni formennsku á þessu ári. Formennskuáætlun Íslands má finna hér en á formennskuárinu fara fram hátt í 200 fundir og viðburðir. Um viðburði sem þegar hafa farið fram má lesa á vef samstarfsráðherra Norðurlanda. 

  • Kraftur í norrænu samstarfi í formennsku Íslands  - mynd úr myndasafni númer 1
  • Menntamálaráðherrar Norðurlandanna ásamt framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar. - mynd
  • Norrænir umhverfisráðherrar ásamt framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar. - mynd
  • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði ráðstefnuna. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 17 Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta