Hoppa yfir valmynd
19. júní 2019 Utanríkisráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi

Af fundi samstarfsráðherra Norðurlandanna sem fram fór á Hellu - mynd
Sigurður Ingi Jóhannsson stýrði fundi samstarfsráðherra Norðurlandanna sem fram fór á Hellu í dag. Á fundinum var ný framtíðarsýn fyrir Norrænu ráðherranefndina samþykkt en hún felur í sér vilja til stóraukinnar samvinnu á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar í loftslags- og umhverfismálum, og eflingu innra samstarfs til að íbúar Norðurlandanna geti áfram ferðast óhindrað milli landa, stundað nám eða stofnað fyrirtæki hver hjá öðrum. Framtíðarsýnin felur í sér að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi.

„Ég er stoltur af því samstaða náðist um þessa stefnumótun í formennsku Íslands og sannfærður um að við munum sjá árangur á næstu árum. Norðurlöndin eru sterk samfélög. Nú viljum við nýta innri styrkleika okkar til að bregðast við loftslagsbreytingum sem eru langstærsta mál samtímans. Góðu fréttirnar eru að lausnirnar eru til, þær eru beint fyrir framan okkur. 

Norrænt samstarf er í eðli sínu breitt og nær yfir mörg svið. Þessi nýja framtíðarsýn vísar veginn og skerpir á forgangsröðun í þágu eins sameiginlegs markmiðs. Með því verða sjálfbærasta svæði í heimi senda Norðurlöndin þau skilaboð að græn umbreyting er möguleg. Norrænar lausnir í loftslags- og umhverfismálum eru líka mikilvæg útflutningsvara og uppspretta atvinnu og velferðar,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlandanna.

Sett eru fram þrjú forgangsmarkmið sem Norræna ráðherranefndin mun vinna eftir en það eru markmiðin um græn, samkeppnishæf og samþætt Norðurlönd. Öllum ráðherranefndum Norðurlandanna, en þær eru alls ellefu talsins, er ætlað að stórauka samstarf sitt á þessum sviðum. Eftir þrjú ár munu forsætisráðherrar Norðurlandanna fá skýrslu um aðgerðir.  

Til að ná markmiðinu um græn Norðurlönd mun norrænt samstarf í auknum mæli beina sjónum að aðgerðum til að ná fram kolefnishlutleysi, bæta nýtingu og endurvinnslu (hringrásarhagkerfið) og styðja lífhagkerfið. Í framtíðarsýninni kemur fram að áhersla á umhverfismál hefur jákvæð áhrif á efnahag og atvinnu, og þannig vilja Norðurlöndin áfram byggja samkeppnishæfni sína á þekkingu og nýsköpun, og nýta stafræna tækni í þágu íbúa og umhverfis. Markmiðið um samþætt Norðurlönd byggir á því að standa vörð um innri styrkleika Norðurlandanna. Þannig muni norrænt samstarf áfram snúast um velferðarmál, jafnrétti og verkefni sem styrkja samstöðu, samleitni og grundvallargildi. 

Framtíðarsýnin og forgangsmálin verða nú send forsætisráðherrum Norðurlandanna, og svo er gert ráð fyrir að þau verði kynnt á þingi Norðurlandaráðs í lok október. Á fundinum var einnig fjallað um fjárveitingar til norræns samstarfs á næsta ári og áframhald samstarfsverkefnis Norðurlandanna um norrænar lausnir við hnattrænum áskorunum. Þema fundarins á Hellu var sjálfbær ferðamennska í norðri en það er ein af þremur áherslum í formennskuáætlun Íslands. Ráðherrarnir heimsóttu ferðaþjónustufyrirtæki á Suðurlandi og fengu kynningar frá heimamönnum, auk þess sem Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, sagði frá þróun og mikilvægi ferðaþjónustu á Íslandi. 

Fréttatilkynning Norrænu ráðherranefndarinnar um fundinn á Hellu

Formennskuáætlun Íslands í formennsku Norrænu ráðherranefndinni er aðgengileg á Norden.org. Nálgast má upplýsingar um störf samstarfsráðherra Norðurlanda á Stjórnarráðsvefnum

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta