Forsætisráðherra fundar með Mary Robinson
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fundaði með Mary Robinson, fyrrverandi forseta Írlands, sem einnig hefur verið erindreki Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttindamála og baráttukona fyrir loftslagsréttlæti.
Þær ræddu um stöðuna í loftslagsmálum og þá brýnu nauðsyn að ríki heims taki höndum saman um aðgerðir til að stöðva þá uggvænlegu þróun sem stefnir í ef ekki tekst að ná tökum á hlýnun jarðar.
Mary afhenti forsætisráðherra bréf frá yfir tuttugu alþjóðlegum leiðtogum úr viðskiptum, verkalýðshreyfingu og þriðja geiranum því til stuðnings að Norðurlöndin taki aukið forystuhlutverk í baráttunni við hamfarahlýnun og lýsi yfir neyðarástandi, en loftslagsmál eru eitt af aðalefnum fundarins að frumkvæði Íslands, sem fer nú með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.