Hoppa yfir valmynd
23. júní 2020 Innviðaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Samstarfsráðherrar ræddu jafnréttismál og þátttöku ungmenna að framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, tók þátt í fjarfundi samstarfsráðherra Norðurlandanna í dag. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, tók í dag þátt í fjarfundi samstarfsráðherra Norðurlandanna undir stjórn danska samstarfsráðherrans en Danir gegna nú formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Meginumræðuefni fundarins var aðgerðaáætlun á grunni framtíðarsýnar norræns samstarfs fyrir tímabilið 2021-2024, um að gera Norðurlöndin að sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.

Ráðherrarnir voru sammála að leggja sérstaka áherslu á jafnrétti og réttindi barna og sjónarmiða ungmenna í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar til að efla vinnu við sjálfbæra þróun. Unnið hefur verið að þessum málefnum m.a. á grundvelli alþjóðlegra skuldbindinga, þar með talið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, og Norðurlöndin verði þannig leiðandi í mótun samfélags þar sem þessi sjónarmið eru virt.

Mikilvægir samherjar á sérstæðum tímum

Þá var rætt um Covid-19 heimsfaraldurinn sem nú gengur yfir heimsbyggðina og viðbrögð við honum. Á þessum sérstæðu tímum hafi sýnt sig hversu mikilvægt það væri að eiga vini og samherja á Norðurlöndunum, sem hægt er að leita til um álit og samstarf. Ráðherrarnir voru einhuga um að samstarf um borgaraþjónustu í tengslum við heimsfaraldurinn hafi tekist einstaklega vel. Eftir sem áður þurfi áfram að glíma við ýmis verkefni og draga lærdóm af því sem betur mætti fara. Löndin væru náin og geti því lært ótalmargt af reynslu hvers annars. Mikilvægt væri að löndin stæðu þétt saman á þessum óvissutímum.

Samráðherrarnir ræddu einnig um áherslur Norðurlanda í alþjóðlegu samstarfi með tilliti til framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar til ársins 2030 og áhrifa sem heimsfaraldurinn hefur haft.

Ráðstefna um Covid-19 í Færeyjum

Á fundinum var tilkynnt að Færeyingar hafi boðað til ráðstefnu í nóvember þar sem fjallað verður um Covid-19 og Norðurlöndin frá ýmsum hliðum og farið yfir reynslu norrænu þjóðanna og samstarf þeirra. Til fundarins verða boðaðir samstarfsráðherrar Norðurlanda, fræðimenn og sérfræðingar á þessu sviði.

Fjarfundurinn í dag var reglulegur sumarfundur samstarfsráðherra Norðurlanda en fyrirhugað var að halda hann í Þórshöfn í Færeyjum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta