Hoppa yfir valmynd
10. september 2020 Innviðaráðuneytið

Norrænt samstarf mikilvægara en nokkru sinni fyrr að mati samstarfsráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, í ræðustól á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í október 2019. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, sat í dag fjarfund með norrænum kollegum sínum þar sem fjallað var um viðbrögð við heimsfaraldri kórónuveiru og samstarf Norðurlandanna á því sviði. 

Samstarfsráðherrarnir ræddu á fundinum við Bertel Haarder, fv. ráðherra í Danmörku og formann norræna stjórnsýsluhindranaráðsins, um störf Norræna ráðherranefndarinnar í ljósi heimsfaraldursins og áhrif hans á hreyfanleika fólks milli Norðurlandanna. 

Samstarfsráðherrarnir voru sammála um að norrænt samstarf væri mikilvægara en nokkru sinni fyrr í ljósi faraldursins. „Við áttum umræðu um mikilvægi þess að nýta reynslu Norðurlandanna á uppbyggilegan og jákvæðan hátt til framtíðar þegar glíma þarf við nýjar áskoranir eða krísur,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra.

Á fundinum var einnig fjallað um fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir næsta ár, sem hljóða upp á 967.547 milljónir DKK, sem er óbreytt frá fyrra ári, ásamt fjárhagsáætlun fyrir árin 2022-2024. Loks funduðu samstarfsráðherrarnir með Lone Strøm, ríkisendurskoðanda Dana, til að ræða framkvæmd á innleiðingu á nýju fjárhagskerfi ráðherranefndarinnar, sem hófst vorið 2019. 

Danir hafa á hendi formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á yfirstandandi ári, auk Grænlands og Færeyja, með yfirskriftinni „Samtaka um framtíðarlausnir”. Yfirskriftin lýsir því keppikefli að hrinda í framkvæmd framtíðarsýn landanna fyrir 2030 um að Norðurlöndin eiga að vera sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta