Hoppa yfir valmynd
29. október 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Norðurlöndin komi tvíefld út úr heimsfaraldrinum

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra fundaði í dag með norrænum fjármálaráðherrum í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Helsta umræðuefni fundarins var hvernig tryggja megi að Norðurlöndin komist sem fyrst og með sem farsælustum hætti út úr þeim vanda sem leiðir af heimsfaraldri kórónuveiru.

Ráðherrarnir telja skipta miklu máli að Norðurlöndin komi tvíefld út úr því ástandi sem nú ríkir. Því hefur áhersla verið lögð á að halda atvinnustigi í löndunum sem hæstu, að finna leiðir til þess að koma í veg fyrir neikvæðar afleiðingar heimsfaraldursins á atvinnulífið og aðgerðir til að örva hagkerfi landanna.

„Þessar aðgerðir skipta sköpum við að tryggja að heimilin og fyrirtækin í landinu nái viðspyrnu í kjölfar faraldursins. Eins og sakir standa erum við í miðri á og okkar mikilvægasta verkefni núna er að standa vörð um mannslíf, á sama tíma og við hugum að því að standa vörð um efnahaginn og samfélagið,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

„Það er um leið mikilvægt að finna grænar og sjálfbærar lausnir til framtíðar. Ég er ekki í vafa um að efling stafrænna innviða, sem við leggjum nú mikla áherslu á, verði lykilþáttur í að leggja grunn að samkeppnishæfara samfélagi eftir faraldurinn,“ sagði ráðherra ennfremur.

Á fundi norrænu ráðherranna var jafnframt rætt hvernig takast megi á við stafræna hagkerfið og þær áskoranir sem eru vegna skattlagningar yfir landamæri. Kjarni þeirra álitaefna sem um ræðir varðar þann vilja ríkja til að skattleggja stafræna þjónustu sem veitt er yfir landamæri í því ríki þar sem þjónustan er nýtt hverju sinni. Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) vinnur að því að finna leiðir fyrir þessa skattlagningu og eru norrænu ríkin þátttakendur í því starfi. Vonir standa til þess að takist að finna lausn ekki síðar en um mitt næsta ár.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta