Guðlaugur Þór beitti sér gegn reglugerð ESB um hömlur á bóluefnisútflutningi
Viðbrögð við nýrri reglugerð Evrópusambandsins um útflutningshömlur á bóluefni voru ofarlega á baugi fjarfundar utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í dag sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók þátt í.
Fyrr í vikunni fór Guðlaugur Þór þess á leit við alla ráðherrana að þeir aðstoðuðu við að tryggja að reglugerðin hefði ekki áhrif á afhendingu bóluefna til Íslands . Auk þess hafði hann bent þeim á að reglugerðin samræmdist ekki EES-samningnum.
Í nýrri reglugerð Evrópusambandsins um útflutning á bóluefnum gegn kórónuveirunni eru EFTA-ríkin, þar á meðal Ísland, ekki lengur á lista yfir þau ríki sem ríkjum ESB er heimilt að flytja bóluefni til án sérstaks útflutningsleyfis. Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt nýju reglunum harðlega og meðal annars bent á að þær brjóti gegn ákvæðum 12. gr. EES-samningsins að gera kröfu um útflutningsleyfi vegna útflutnings frá ríkjum ESB til EES EFTA-ríkjanna.
„Þessar nánu vinaþjóðir standa þétt saman og Evrópusambandsríkjunum í hópnum er fyllilega ljóst hversu alvarlegt það er fyrir framkvæmd EES-samningsins ef reglugerðir sambandsins mismuna EES-ríkjunum með þessum hætti, sem verður að teljast skýrt brot á samningnum,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fundinn í dag.
Á fundinum var enn fremur rætt um alvarlega stöðu faraldursins í sumum ríkjanna, stöðu bólusetninga og horfur á efnahagslegum og samfélagslegum bata, takist að ná stjórn á útbreiðslu veirunnar á næstu vikum eftir því sem bólusetningu vindur fram. Þá ræddu utanríkisráðherrarnir venju samkvæmt um samstarf ríkjanna í utanríkismálum og helstu áskoranir á alþjóðavettvangi. Samskipti stórveldanna, staða mannréttinda og áframhaldandi spenna í nágrenni Evrópu voru þar efst á baugi.
Fyrir fundinn í dag hafði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra rætt við kollega í Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Eistlandi, Lettlandi og Litáen og mótmælt nýjum reglum ESB um bóluefnaútflutning. Jafnframt átti hann samráð við utanríkisráðherra Noregs vegna málsins. Þá var staðgengill sendiherra ESB kallaður í utanríkisráðuneytið í fyrradag og sendiherrar Íslands í öllum ESB-ríkjum hafa átt fundi með stjórnvöldum í gistiríkjum þar sem mótmælum Íslands var komið á framfæri. Ennfremur var málið tekið upp á sérstökum fundi í sameiginlegu EES-nefndinni í morgun sem haldinn var að frumkvæði íslensku formennskunnar í nefndinni. Þá hefur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra komið mótmælum á framfæri við Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB.
„Þau viðbrögð sem borist hafa frá forsvarsmönnum sambandsins eru þau að reglurnar muni hvorki hafa áhrif á bóluefnasamstarf ESB og Íslands né afhendingu bóluefna til Íslands á grundvelli þess samstarfs. Engu að síður er reglugerðin skýrt brot á EES-samningnum og mun ég og utanríkisþjónustan í heild sinni halda áfram að knýja á um að henni verði breytt þannig að EES-ríkin í EFTA verði undanþegin gildissviði hennar með öllu,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.