Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Norrænir umhverfis- og loftslagsráðherrar þrýsta á um árangur í Glasgow

Umhverfis- og loftslagsráðherrar Norðurlandanna. - myndJohannes Jansson/norden.org

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP26, var á dagskrá umhverfis- og loftslagsráðherra Norðurlanda en ráðherrarnir funduðu í Kaupmannahöfn í dag, í tengslum við þing Norðurlandaráðs.

Ráðherrarnir ræddu stöðu samningaviðræðna á COP26 í Glasgow og hvernig samstarf Norðurlandanna geti stuðlað að sem farsælastri niðurstöðu. Eru þeir sammála um að í sameiningu geti Norðurlöndin þrýst á um árangur af samningaviðræðum loftslagsráðstefnunnar.

Á fundinum greindi Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, frá því að  Ísland hafi lagt fram langtímasýn um kolefnishlutleysi í aðdraganda COP26, en ríki eru hvött til að móta slíka sýn skv. ákvæðum Parísarsamningsins. Þá kom fram að íslensk stjórnvöld hafi fyrr á þessu ári lögfest markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 og að auki uppfært markmið sín um samdrátt í losun til 2030 í 55% í samstarfi við Noreg og ESB, en uppfærsla markmiða er meginviðfangsefni COP26.

„Norðurlöndin geta haft mikil áhrif á þróun loftslagsmála langt umfram það sem losun þeirra á gróðurhúsalofttegundum segir til um,” segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Með því að draga úr losun án þess að skerða gæði samfélaganna og tryggja samtímis réttlát umskipti yfir í lágkolefnishagkerfi, geta Norðurlönd verið öðrum fyrirmynd.”

Áhersla á þátttöku ungs fólks í norræna skálanum

Norræna ráðherranefndin er með norrænan skála á fundinum í Glasgow og miðstöð í Helsinki. Þar verða kynnt fjölmörg verkefni sem unnin eru í norrænu samstarfi og er áhersla lögð á þátttöku ungs fólks. Hægt verður að fylgjast með dagskránni í skálanum á netinu.

Norðurlöndin hafa í sameiningu unnið að því af krafti að gert verði samkomulag um nýjan alþjóðlegan samning til þess að takast á við vaxandi plastmengun. Ráðherrarnir ítrekuðu fyrri áherslur sínar á fundinum með samþykkt yfirlýsingar um mikilvægi þess að tekin verði ákvörðun um það á fimmta umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna, sem haldið verður á næsta ári, að hefja samningaviðræður um gerð alþjóðlegs samning um plastmengun. Ísland nýtti formennsku sína í Norðurskautsráðinu til þess að vekja athygli á málinu með alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var fyrr á þessu ári.

Þá ræddu ráðherrarnir um þátttöku ungs fólks í stefnumarkandi vinnu. Var m.a. rætt um þátttöku ungmenna á fundi umhverfis- og loftslagsráðherra sem verður haldinn í Stokkhólmi á næsta ári.

 
  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. - mynd
  • Norrænir umhverfis- og loftslagsráðherrar þrýsta á um árangur í Glasgow - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta