Menningarátakið Nordic Bridges hefst í dag
Norræna menningarátakið Nordic Bridges hefst í dag í Kanada. Þar er kastljósinu beint að norrænni menningu og listum. Á árinu 2022 munu samstarfsaðilar vítt og breitt um Kanada bjóða upp á spennandi listviðburði og umræður með norrænum listamönnum og hugsuðum þar sem málefni á borð við þrautseigju og nýsköpun í listum verða í deiglunni.
„Loksins getum við hleypt Nordic Bridges af stokkunum í Kanada! Það er afar gleðilegt og dagskrá Nordic Bridges er metnaðarfull, fjölbreytt og fræðandi. Með verkefnum eins og þessum minnum við á norræna samtímamenningu og byggjum brýr og styrkjum tengslin. Ég hlakka til að fylgjast með hátíðinni,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, menningar- og viðskiptaráðherra.
Norræna ráðherranefndin um menningarmál átti frumkvæði að þessu árslanga átaki, sem menningarstofnunin Harbourfront Centre í Toronto stýrir. Menningarátakið er það umfangsmesta sem Norðurlönd hafa staðið fyrir á erlendri grund og það er norrænu ráðherrunum sönn ánægja að geta nú hleypt því úr vör eftir að hafa þurft að fresta því í ár vegna faraldursins.
Nordic Lights, Design Matters og Nordic Talks
Fyrstu viðburðirnir verða utandyra eða á netinu, til samræmis við núgildandi sóttvarnareglur, en stærri viðburðir, svo sem hátíðir og sviðsviðburðir, fylgja í kjölfarið síðar á árinu 2022. Hjá Harbourfront Centre, einni helstu lista- og menningarstofnun Kanada, ríkir mikil tilhlökkun. Iris Nemani, aðaldagskrárstjóri við Harbourfront Centre og aðalframkvæmdastjóri Nordic Bridges, segir:
„Við höfum unnið að undirbúningi Nordic Bridges ásamt hundruðum norrænna og kanadískra listamanna í á þriðja ár og við erum mjög spennt fyrir því að geta boðið upp á sköpunarverk þeirra um land allt út árið 2022. Þetta er einstakt tækifæri til að leiða saman listamenn, frumkvöðla og hugsuði svo þeir geti miðlað því sem þeir telja mikilvægt í menningarorðræðu samtímans, auk þess sem við bjóðum almenningi að upplifa framúrskarandi listviðburði af öllum gerðum, allt frá dansi og leikhúsi til myndlistar.“
Á meðal þess sem kanadískir samstarfsaðilar á borð við alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Toronto, BreakOut West og National Arts Centre bjóða upp á er sviðslistir, myndlist og stafræn list, handverk og hönnun, bókmenntir, matargerðarlist, rökræður um samfélagsmál og blaðamennska.
Norrænir listamenn og hagsmunaaðilar frá öllum Norðurlöndum starfa og koma fram með kanadískum listamönnum á listahátíðum, í listastofnunum og á söfnum víðsvegar um landið.
Dagskrá Nordic Bridges og þetta samstarf listamanna, frumkvöðla og hugsuða hvílir á fjórum meginstöðum: nýsköpun í listum, aðgengi og þátttöku, sjónarmiðum frumbyggja og þrautseigu og sjálfbærni. Þetta eru afar brýn málefni í bæði Kanada og á Norðurlöndum.
Frekari upplýsingar um Nordic Bridges má fá með því að fara á NordicBridges.ca eða fylgjast með @NordicBridges og #NordicBridges á samfélagsmiðlum.