Árás Rússlands á Úkraínu fordæmd á vettvangi ÖSE og NORDEFCO
Hernaður Rússlands gegn Úkraínu var umfjöllunarefni funda sem fram fóru í dag á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og norræna varnarsamstarfsins NORDEFCO. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra lagði áherslu á að árásirnar væru brot á alþjóðalögum um leið og hún áréttaði samstöðu með úkraínsku þjóðinni.
Boðað var til sérstaks fastaráðsfundar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í dag vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. Ráðherrar fjölda ríkja tóku þátt í fundinum þar sem 57 aðildarríki ÖSE komu saman til að ræða þá alverlegu stöðu sem upp er komin og er veruleg ógn við frið og öryggi í víðu samhengi. Rússland er eitt af aðildarríkjum ÖSE.
Þórdís Kolbrún lagði áherslu á að um skýrt brot á alþjóðalögum væri að ræða. „Þrátt fyrir að leið friðsamlegra lausna hafi staðið opin þá hefur Pútín valið slóð stríðs, eyðileggingar og þjáningar“. Þórdís Kolbrún krafðist þess að Rússar láti umsvifalaust af hernaðaraðgerðum sínum gagnvart Úkraínu.
Innrás Rússlands í Úkraínu var jafnframt meginefni fjarfundar varnarmálaráðherra Norðurlandanna síðdegis á vettvangi norræna varnarsamstarfsins (NORDEFCO). Sameiginleg yfirlýsing var gefin út í kjölfar fundarins þar sem fordæming Norðurlandanna á hernaðaraðgerðum Rússlands gegn Úkraínu er ítrekuð og kallað eftir því að Rússland dragi herlið sitt úr landinu. Í yfirlýsingunni er samstaða með Úkraínu undirstrikuð og stuðningur við fullveldi og friðhelgi landamæra Úkraínu.
„Norðurlöndin hafa átt náið samstarf um stöðu og þróun mála í og við Úkraínu að undanförnu og eru sammála um að árás Rússlands á landið skapi verulega ógn fyrir öll ríki Evrópu. Sú staða sem upp er komin er mjög alvarleg og kallar á hörð viðbrögð alþjóðasamfélagsins,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.
Yfirlýsing norrænu varnarmálaráðherranna
Ræða utanríkisráðherra á fundi ÖSE