Norðurlöndin verði samþættasta svæði heims
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, fundaði í dag með Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar sem stödd er hér á landi. Norræna ráðherranefndin er samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna.
Ráðherra og Lehtomäki ræddu saman um mikilvægi norræns samstarfs og komandi fundi norrænna ráðherra, en vonir standa til að hægt verði að snúa aftur til hefðbundinna fundahalda sem fyrst eftir heimsfaraldurinn.
Á vettvangi ráðherranefndarinnar hefur verið lögð fram sú framtíðarsýn að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og best samþætta svæði heims árið 2030. Samstarfið í Norrænu ráðherranefndinni á að þjóna því markmiði og fóru ráðherra og Lehtomäki yfir það hvernig vinnunni miðar.
Málefni Norræna hússins komu einnig til tals, en menningarstofnunin er rekin af Norrænu ráðherranefndinni. Þá báru einnig málefni Úkraínu á góma en mikil umræða á sér nú stað í Svíþjóð og Finnlandi um aðild að Atlantshafsbandalaginu.
,,Norrænt samstarf og samstaða hefur aldrei verið jafn mikilvæg og nú. Þau gildi og samfélagsgerð sem einkennir Norðurlöndin er eftirsótt á heimsvísu. Við eigum að halda ótrauð áfram að dýpka samstarf okkar á vettvangi Norðurlandanna og auka hróður þeirra sem víðast,” sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.