Skýrsla um stöðu Norðurlanda eftir heimsfaraldurinn
Skýrsla Nordregio um stöðu Norðurlanda (State of the Nordic Region 2022) var birt í dag á degi Norðurlandanna. Í ár er kastljósinu einkum beint að heimsfaraldrinum og áhrifum hans. Í skýrslunni eru fram mælikvarðar um norræna samfélagslíkanið og samanburðartölur um efnahagslegan bata eftir faraldurinn.
Nordregio er rannsóknastofnun um byggðaþróun, sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina. Stofnunin gefur skýrsluna út á tveggja ára fresti en þar er púlsinn tekinn á efnahagsmálum, vinnumarkaðnum og íbúaþróun í öllum norrænum sveitarfélögum og landshlutum.
Í frétt Norrænu ráðherranefndarinnar um skýrsluna segir að í henni sé „dregin upp mynd af Norðurlöndum sem standa í raun ekki lengur undir orðspori sínu fyrir almenna velferð og félagslegan jöfnuð en þoldu þó býsna vel almennu niðursveifluna í alþjóðahagkerfinu og voru fljót að ná sér á strik.“
Í skýrslunni kemur m.a. fram að þegar á heildina er litið hafi efnahagsleg niðursveifla á Norðurlöndum verið minni en t.d. í löndum Evrópusambandsins. Verg landsframleiðsla dróst saman um 3% á Norðurlöndum miðað við 5,9% í ESB. Sökum þess hve Íslendingar eru háðir ferðaþjónustu voru áhrifin mest á Íslandi árið 2020, þar sem verg landsframleiðsla dróst saman um 7,1%.
- Skoða skýrsluna State of the Nordic Region 2022
- Frétt um skýrsluna á vef Norrænu ráðherranefndarinnar
- Dagskrá 100 ára afmælishátíðar Norræna félagsins 23. mars í Norræna húsinu