Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2022 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Frakklands ræddu stríðið í Úkraínu

Úkraína var í brennidepli á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og á sameiginlegum fundi þeirra með utanríkisráðherra Frakklands sem fram fór í Berlín í dag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þátt í fundunum með fjarfundarbúnaði. 

Norrænu utanríkisráðherrarnir ræddu sín á milli um stríðið í Úkraínu, áhrif á öryggi á svæðinu, mannúðarástandið og viðbrögð alþjóðasamfélagsins auk þess sem staða réttarríkisins í Evrópu var til umræðu. Utanríkisráðherra Frakklands, Jean-Yves Le Drian, tók þátt í umræðunum um Úkraínu og deildi sýn franskra stjórnvalda á stríðið. 
„Nýjustu fregnir af hroðaverkum sem Rússar hafa framið í Úkraínu settu svip sinn á fundinn enda kalla þau á skýr viðbrögð af okkar hálfu,“ sagði Þórdís Kolbrún. 

Á fundinum kom jafnframt til tals með hvaða hætti hægt væri að styðja frekar við úkraínsk stjórnvöld með pólitískum hætti, til dæmis með heimsókn til Kænugarðs. „Slík heimsókn kæmi samt þá og því aðeins til álita af minni hálfu ef hún væri talin gagnleg fyrir úkraínsku þjôðina og stjórnvöld þar,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Fundurinn var haldinn í tengslum við framlagaráðstefnu til styrktar Moldóvu sem haldin var í Berlín í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta