Sigurður Ingi fundaði með samgönguráðherrum Norðurlanda
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, átti fundi í gær og í dag með norrænum samgönguráðherrum í Fredrikstad í Noregi. Norðmenn voru gestgjafar að þessu sinni en þeir gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár. Auk Sigurðar Inga voru ráðherrar frá Noregi, Svíþjóð og Finnlandi voru á staðnum en ekki frá Danmörku en kosningar þar eru nýlega afstaðnar.
Á fundinum var meðal annars rætt um öryggi innviða, réttindi verkafólks á sviði samgangna, sjálfbærar samgöngur á lofti, láði og legi og samvinnu Norðurlandanna á þessum sviðum. Þá kynnti Sigurður Ingi formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á næsta ári. Norrænu samgönguráðherrarnir gáfu út sameiginlega yfirlýsingu að fundi loknum um að efla og styrkja samstarf um samgöngur og innviði í takt við framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndinnar um að Norðurlöndin eigi að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims á árunum fram til 2030.
Skoðuðu jarðgöng og rafknúna flutningaferju
Ráðherrarnir nýttu vel heimsóknina til Noregs. Þeir heimsóttu m.a. Blix-jarðgöngin sem eru í smíðum og opna í lok ársins. Göngin eru um 20 km löng og eru hluti af stóru járnbrautaverkefni (Follobanen) sem tengir höfuðborgina Osló og bæinn Ski. Um er að ræða stærsta innviðaverkefni sem Noregur hefur ráðist í. Þá heimsóttu raðherrarnir höfnina í Moss og skoðuðu rafknúna flutningaferju.
- Yfirlýsing norrænu samgönguráðherranna (8. nóv. 2022)