Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Fyrsti fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna undir formennsku Íslands

Fyrsti fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna undir formennsku Íslands - myndJohannes Jansson/norden.org

Stuðningur við Úkraínu, norrænt samstarf og ástand og horfur á Vestur-Balkanskaga og í Afganistan voru helstu umræðuefnin á fjarfundi utanríkisráðherra Norðurlanda í dag. Fundur ráðherranna var sá fyrsti í yfirstandandi formennsku Íslands í norrænni samvinnu.

Afleiðingar innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu og stuðningur Norðurlanda við úkraínsku þjóðina voru í brennidepli á fundinum. Greindi Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra meðal annars frá því að Ísland myndi á næstu vikum og mánuðum auka stuðning sinn við Úkraínu með vísan til samþykktra fjárlaga. Þá ræddu þau um stöðu Rússlands í alþjóðlegu samhengi og einangrun  rússneskra stjórnvalda.

„Norðurlöndin eru okkar nánustu vinaríki og reglubundið samráð okkar norrænu utanríkisráðherranna hefur ávallt haft mikla þýðingu. Mikilvægi þessa samstarfs hefur aukist enn frekar á umliðnum mánuðum vegna þeirra óvissu sem ríkir í okkar heimshluta í kjölfar innrásar Rúslands í Úkraínu. Á milli okkar ríkir fágætt trúnaðartraust og samstarfsvilji sem skilar sér í allri okkar alþjóðasamvinnu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra

Ráðherrarnir ræddu jafnframt um ástandið í Afganistan eftir valdatöku talibana fyrir hálfu öðru ári. Þar hafa mannréttindi farið hríðversnandi og hefur það einkum bitnað á konum og stúlkum í landinu. Talið er að um 70 prósent þjóðarinnar þurfi á mannúðaraðstoð að halda á árinu.

„Afganistan hefur verið áhersluland í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands undanfarin ár, bæði hvað varðar þróunaraðstoð og mannúðaraðstoð. Eftir valdatöku talibana hefur áherslan verið lögð á mannúðaraðstoð í gegnum samstarfsaðila Sameinuðu þjóðanna og stuðning við grunnþjónustu í gegnum sérstakan styrktarsjóð Sameinuðu þjóðanna fyrir Afganistan,“ segir utanríkisráðherra.

Þá ræddu ráðherrarnir ástand og horfur á Vestur-Balkanskaga. Vaxandi áhersla er lögð á að styðja samfélagsuppbyggingu þar vegna innrásarinnar í Úkraínu. Málefni Balkanskaga koma meðal annars til kasta Evrópuráðsins sem Ísland leiðir um þessar mundir.

Auk Þórdísar Kolbrúnar tóku þátt í fundinum þau Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur og Johanna Sumuvuori, aðstoðarutanríkisráðherra Finnlands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta