Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Stýrði fundi samstarfsráðherra Norðurlanda – Ísland með formennsku

Guðmundur Ingi Guðbrandsson og aðrir samstarfsráðherrar Norðurlanda auk framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, Karen Ellemann. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, stýrði í dag fundi norrænu samstarfsráðherranna en hann fór fram í Kaupmannahöfn. Um var að ræða fyrsta fund ráðherranna í formennskutíð Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Ísland tók við formennsku í byrjun árs og gegnir henni út árið.

Ráðherrarnir ræddu meðal annars um vinnu við gerð næstu framkvæmdaáætlunar sem byggir á grunni framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar til ársins 2030. Framtíðarsýnin var samþykkt í síðustu formennskutíð Íslands, árið 2019, og er leiðarljós nefndarinnar og stofnana hennar í öllum þeirra verkefnum. Vinna við nýja framkvæmdaáætlun stendur nú fyrir dyrum og stefnt er að góðu samráði við Norðurlandaráð, norrænar stofnanir og félagasamtök.

„Við samstarfsráðherrarnir leggjum ríka áherslu á að kalla eftir sjónarmiðum og hugmyndum frá sem flestum því norræn samvinna er sameiginlegt verkefni okkar allra,“ sagði Guðmundur Ingi á fundinum.

Ráðherrarnir ræddu einnig fjárhagsáætlun ársins 2024, auk þess sem Guðmundur Ingi kynnti formennskuáætlun Íslands. Áætlunin byggir á grunni áðurnefndar framtíðarsýnar til 2030 þar sem yfirmarkmiðið er að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Yfirskrift íslensku formennskunnar er Norðurlönd – afl til friðar og verður sérstök áhersla lögð á frið.

„Norðurlöndin eru eitt friðsælasta svæði heims og okkur á að renna blóðið til skyldunnar að lyfta upp mikilvægi friðar. Friður er undirstaða mannréttinda, velferðar, kvenfrelsis og umhverfis- og loftslagsverndar sem eru einkenni sameiginlegra gilda okkar á Norðurlöndunum,“ sagði Guðmundur Ingi á fundinum í dag.

Hann tilkynnti ráðherrunum að í takti við áherslur Íslands yrði haldin alþjóðleg friðarráðstefna í Reykjavík þann 10. október 2023.

„Með slíkum stórum, alþjóðlegum viðburði gefst okkur ómetanlegt tækifæri til að koma skilaboðum á framfæri um mikilvægi friðar,“ sagði Guðmundur Ingi.

Ráðherra átti einnig í dag tvíhliða fundi með Mette Kierkegaard, öldrunarmálaráðherra Danmerkur, og Bjarna Kárasyni Petersen, samstarfsráðherra Færeyja.

Á morgun á ráðherra meðal annars tvíhliða fund með Louise Schack Elholm, samstarfsráðherra Danmerkur, auk þess sem hann fundar með starfsfólki á skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn, þar á meðal framkvæmdastjóranum Karen Ellemann sem hóf störf í byrjun árs.

Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023 og mun leiða samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“.

Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta