Hoppa yfir valmynd
2. maí 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mennta- og barnamálaráðherra Færeyja kynnir sér stefnu íslenskra stjórnvalda

Mennta- og barnamálaráðherrar Færeyja og Íslands: Djóni N. Joensen og Ásmundur Einar Daðason - mynd

Mennta- og barnamálaráðherra Færeyja, Djóni N. Joensen, heimsótti mennta- og barnamálaráðuneytið í dag til að kynna sér stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum barna. Mennta- og barnamálaráðuneyti Færeyja er nýtt ráðuneyti þar í landi sem byggir m.a. á sömu nálgun og íslenska mennta- og barnamálaráðuneytið.

Joensen er staddur á Íslandi til að taka þátt í fundi norrænna ráðherra menntamála og vísinda á morgun. Auk tvíhliða fundar ráðherranna fékk Joensen kynningu á innleiðingu farsældarlaga, snemmtækum og þrepaskiptum stuðningi, ásamt efnahagslegum og samfélagslegum ávinningi. Þá var skólaþróun og samþætting þjónustu og kerfa til umræðu ásamt yfirferð yfir tölfræði um farsæld barna.

Aðgerðir íslenskra stjórnvalda til samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna voru umfjöllunarefni á fyrsta fundi stýrinefndar Evrópuráðsins um réttindi barna utan Strassborgar sem haldinn var í Reykjavík í mars síðastliðnum. Þá undirritaði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, samstarfssamning við Sameinuðu þjóðirnar í febrúar um þróun á samþættu verklagi og úrræðum til verndar börnum gegn ofbeldi samhliða þróun nýrrar aðferðafræði sem greinir og kortleggur arðsemi samfélaga af því að fjárfesta í þjónustu við börn.

„Það er ánægjulegt að sjá áhuga erlendra yfirvalda á þeirri vinnu sem er að eiga sér stað á Íslandi um þverfaglegan, samþættan og þrepaskiptan stuðning í þágu farsældar barna. Gagnkvæm upplýsingagjöf skiptir sköpum við að auka þekkingu og víkka sýn á umfjöllunarefnið. Kjarninn er þó ávallt hinn sami, að fjárfesting í börnum skilar sér margfalt til baka til samfélagsins.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta