Hoppa yfir valmynd
26. júní 2023 Forsætisráðuneytið

Fundi forsætisráðherra Norðurlandanna og Kanada lokið

Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands, Veronica Thörnroos, formaður landsstjórnar Álandseyja, Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Múte B. Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, Aksel V. Johannesen, lögmaður Færeyja, Jonas Gahr Störe, forsætisráðherra Noregs, og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. - mynd

Formlegum fundi forsætisráðherra Norðurlandanna og Kanada sem fram fór í Vestmannaeyjum er lokið. Í yfirlýsingu fundarins ítreka ráðherrarnir mikilvægi samstarfs ríkjanna og heita því að efla það enn frekar, ekki síst á sviði öryggis- og varnarmála.

Í yfirlýsingunni segir einnig að aukið alþjóðasamstarf sé svarið við stórum hnattrænum áskorunum á borð við loftslagsbreytingar, ójafnrétti í heiminum og ógnir sem steðja að lýðræðinu. Þá hyggjast löndin auka samstarf sitt á sviði jafnréttismála og varðandi réttindi hinsegin fólks auk þess að leggja aukna áherslu á norrænt um viðnámsþol gegn upplýsingaóreiðu og falsfréttum.

Norðurlöndin og Kanada ítreka áframhaldandi stuðning við Úkraínu eins lengi og þörf krefur. Friðaráætlun Úkraínu sé mikilvægur grunnur að réttlátum friði sem byggir á alþjóðalögum. Þá lýsa ráðherrarnir yfir stuðningi við tjónaskrána sem komið var á fót á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík í maí sl. og að Rússar verði dregnir til ábyrgðar fyrir glæpi sína í Úkraínu.

Í yfirlýsingunni er einnig fjallað um aukið samstarf á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Er þar sérstaklega horft til málefna hafsins.

Á fundi ráðherranna var líka rætt um viðnámsþrótt samfélaga og ítreka í yfirlýsingunni að slíkt viðnámsþol byggist ekki síst á sterku velferðarkerfi og samfélagslegu trausti, sem einkennir norræn samfélög.

Fyrr í dag færðu fulltrúar Vestmannaeyjabæjar norrænu forsætisráðherrunum þakkarvott fyrir ómetanlega aðstoð þeirra við uppbygginguna í kjölfar eldgossins í Heimaey fyrir 50 árum.

Forsætisráðherrar Íslands, Danmerkur, Finnlands, Kanada, Noregs og Svíþjóðar hittust einnig á vinnufundi í dag þar sem rætt var um öryggis- og varnarmál, samstarf ríkjanna á því sviði og leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins sem haldinn verður í Vilníus síðar í sumar.

Dagskrá forsætisráðherra í kringum fundinn heldur áfram með heimsókn hennar og forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, í kolefnisförgunarfyrirtækið Carbfix. Þá munu forsætisráðherra og forsætisráðherra Noregs, Jonas Gahr Støre eiga tvíhliðafund síðar í dag, auk þess að funda með hópi norrænna forstjóra sem hafa látið sig sjálfbærnimál varða. Dagskrá Katrínar Jakobsdóttur lýkur með óformlegum kvöldverði forsætisráðherra Íslands, Noregs og Kanada.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta