Stuðningur við Úkraínu í brennidepli á fjarfundi utanríkisráðherra Norðurlanda
Utanríkisráðherrar Norðurlanda hittust á fjarfundi í dag undir stjórn Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra sem fer með formennsku í norræna hópnum í ár. Ráðherrarnir funduðu síðast á Ísafirði í júní. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og staðan í Úkraínu, Afganistan og Vestur-Afríku voru efst á baugi.
„Stuðningur Norðurlandanna við Úkraínu í varnarbaráttu þeirra er til umræðu á öllum okkar fundum og þessi var engin undantekning. Nú er mikilvægt að Norðurlöndin móti sér langtímasýn í stuðningi sínum og samskiptum við Úkraínu enda ekki útlit fyrir að stríðinu ljúki í bráð,“ segir Þórdís Kolbrún.
Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, heimsótti Svíþjóð og Danmörku um nýliðna helgi þar sem bæði ríki tilkynntu um verulegan hernaðarstuðning við Úkraínu. Þá hafa Norðurlöndin öll tekið undir yfirlýsingu G-7 ríkjanna frá leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Vilníus í júlí um áframhaldandi einarðan stuðning við Úkraínu, eins lengi og þarf.
Ráðherrarnir ræddu einnig ástandið í Níger í kjölfar valdaráns herforingjastjórnar landsins í síðasta mánuði og málefni Afganistan þar sem verulega hefur verið þrengt að réttindum borgara, einkum stúlkna og kvenna, frá því talíbanar náðu völdum fyrir tveimur árum. Þá var undirbúningur ríkjanna fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í næsta mánuði til umræðu á fundinum.
Auk Þórdísar Kolbrúnar tóku Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, Elina Valtonen, utanríkisráðherra Finnlands, Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, og Anders Tang Friborg, yfirmaður pólitískra málefna í danska utanríkisráðuneytinu, þátt í fundinum.