Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2023 Utanríkisráðuneytið

Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs og málefni Úkraínu í brennidepli á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda

Frá Norðurlandaráðsþingi í Osló. - mynd

Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, málefni Úkraínu og öryggi mikilvægra neðansjávarinnviða voru til umræðu á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í Osló í gær. Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra stýrði fundinum en Ísland fer með formennsku í norrænu samstarfi utanríkisráðherranna í ár. Fundurinn var haldinn í tengslum við Norðurlandaráðsþing sem nú stendur yfir. 

„Alvarleg staða mannúðarmála á Gaza hefur verið til umræðu á öllum fundum mínum hér í Osló,“ segir Bjarni. „Norðurlöndin eru samstíga í afstöðu sinni og hafa öll lagt áherslu á að undantekningalaust sé farið að alþjóða- og mannúðarlögum í átökunum sem nú geisa og kallað eftir mannúðarhléi til að auðvelda aðgengi fyrir nauðsynlega og lífsbjargandi mannúðaraðstoð. Þá erum við einnig sammála um mikilvægi þess að veita áframhaldandi stuðning við Úkraínu, sérstaklega nú þegar vetur gengur í garð.“

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, var sérstakur gestur Norðurlandaráðsþingsins að þessu sinni og flutti ávarp við þingsetninguna á miðvikudag. Síðar sama dag átti utanríkisráðherra tvíhliða fund með Stoltenberg þar sem til umræðu voru öryggis- og varnarmál, áframhaldandi stuðningur við Úkraínu, áhrif átakanna í Miðausturlöndum, aðild Svíþjóðar að bandalaginu og leiðtogafundur NATO í Washington á næsta ári. 

Í gær flutti utanríkisráðherra greinargerð fyrir Norðurlandaráði í norska Stórþinginu um formennsku Íslands í norræna utanríkissamstarfinu á árinu og tók þátt í umræðu norrænu varnarmálaráðherranna á þinginu. 

Ráðherra stýrði sínum fyrsta norræna utanríkisráðherrafundi þar sem Úkraína, Mið-Austurlönd, norræn samvinna á alþjóðavettvangi og nýlegir atburðir varðandi neðansjávarinnviði í Eystrasalti voru til umræðu. Ráðherrarnir voru samstíga í öllum þessum málum, jafnvel þótt atkvæði hafi ekki fallið með sama hætti í allsherjarþinginu. Áhersla er áfram lögð á virðingu fyrir alþjóðalögum sem eru grundvallarhagsmunir fyrir ríkin öll. Norðurlöndin leitast til að vinna þétt saman á vettvangi alþjóðastofnana og eiga samráð við önnur ríki alþjóðasamfélagsins. 

Þá sat ráðherra sameiginlegan fund norrænu utanríkisráðherranna með forsætisnefnd Norðurlandaráðs þar sem ráðherrar og meðlimir forsætisnefndar eiga óformlegar umræður um utanríkis- og öryggismál sem varða Norðurlönd. Samvinna Norðurlandanna til varnar fjölþjóðakerfinu, og hvernig þau geta unnið saman gegn sundrung á alþjóðavettvangi, stuðningur þeirra við Úkraínu, og fyrirspurn Norðurlandaráðs um hvernig Norðurlönd geti stutt námsfólk í Belarús, voru á dagskrá fundarins. 

Þá átti ráðherra tvíhliða fundi með Elinu Valtonen, utanríkisráðherra Finnlands, Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar og Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs. Á öllum fundunum var farið yfir helstu málefni líðandi stundar, mikilvægi norræns samstarfs og samheldni bandalagsríkja. Á fundinum með utanríkisráðherra Noregs var sérstaklega rætt um áframhaldandi mikilvægi EES-samstarfsins og afmæli samningsins á næsta ári. Fyrr í dag átti ráðherra svo fund með Bjørn Arild Gram, varnarmálaráðherra Noregs þar sem góð samvinna þjóðanna á sviði varnarmála var til umræðu ásamt samstarfi innan Atlantshafsbandalagsins og á norrænum vettvangi.

Opinbert samstarf norrænu þjóðanna fer fram innan vébanda Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs, þar sem Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð, auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands, eru aðilar. Norðurlandaráð er vettvangur þingmanna í samstarfinu, sem stofnað var til árið 1952 og er skipað 87 þingmönnum frá fyrrgreindum löndum. Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár og Noregur gegnir formennsku í Norðurlandaráði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta