Opið samráð um samstarfsáætlanir Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir tímabilið 2025-2030
Vakin er athygli á að frestur til að skila inn athugasemdum við drög að nýjum samstarfsáætlunum Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir tímabilið 2025–2030 rennur út 26. apríl nk. Áhugafólk um norrænt samstarf er hvatt til að kynna sér málið og koma sjónarmiðum sínum á framfæri með því að fylla út og senda inn eyðublað á vefsíðu norræna samstarfsins.
Nánari upplýsingar og hlekki má finna á vefsíðu Norrænu ráðherranefndarinnar: Samráð um samstarfsáætlanir Norrænu ráðherranefndarinnarSamstarfsáætlanirnar fyrir 14 ráðherranefndir á mismunandi fagsviðum í formlega norræna ríkisstjórnarsamstarfinu lýsa pólitískum áherslum og markmiðum einstakra ráðherranefnda fyrir næsta sex ára tímabil og þeim er ætlað að stýra starfi þeirra við að uppfylla „Framtíðarsýn okkar fyrir 2030.“ Allar ráðherranefndirnar 14 samþykktu í febrúar 2024 lokadrög að þeirra eigin samstarfsáætlunum. Þær munu verða samþykktar endanlega fyrir lok ársins og taka gildi 1. janúar 2025. Yfirlit yfir allar samstarfsáætlanirnar má finna hér að neðan.
Vinnunni var ýtt úr vör í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á síðasta ári, 2023. Við gerð samstarfsáætlananna var lögð áhersla á opið ferli við mótun og gerð þeirra með aðkomu annarra samstarfs- og hagaðila í norrænu samstarfi, s.s. þingmanna í Norðurlandaráði, frjálsra félagasamtaka, atvinnulífs, o.fl. Norðurlandaráð og samstarfsnet frjálsra félagasamtaka, Nordic Civ, hafa tekið virkan þátt og skilað inn skriflegu innleggi um samstarfsáætlanirnar við mótun þeirra. Þetta er dýrmætt framlag sem hefur verið tekið til greina við gerð samstarfsáætlananna.Nánar um framtíðarsýn Norðurlanda 2030:
Framtíðarsýn Norðurlanda er að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030. Allt samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar á að þjóna því markmiði. Norræna ráðherranefndin vinnur fram að árinu 2030 samkvæmt þremur stefnumarkandi áherslum til að uppfylla þessa framtíðarsýn:
Græn Norðurlönd – saman ætlum við að greiða fyrir grænum umskiptum í samfélögum okkar og vinna að kolefnishlutleysi og sjálfbæru hringrásarhagkerfi og lífhagkerfi.
Samkeppnishæf Norðurlönd – saman ætlum við að efla grænan hagvöxt á Norðurlöndum, byggðan á þekkingu, nýsköpun, hreyfanleika og stafrænni samþættingu.
Félagslega sjálfbær Norðurlönd – saman ætlum við að efla samfellt svæði án aðgreiningar þar sem jafnrétti ríkir og sem byggist á sameiginlegum gildum og enn öflugri menningarsamskiptum og velferð.
Yfirlit yfir samstarfsáætlanir sem eru í umsagnarferli:
- Norræn samstarfsáætlun samstarfsráðherra Norðurlanda (MR-SAM) 2025-2030
- Norræn samstarfsáætlun um vinnumarkað og vinnuumhverfi 2025–2030
- Norræn samstarfsáætlun um sjálfbæran hagvöxt 2025-2030
- Norræn samstarfsáætlun um umhverfis- og loftslagsmál 2025–2030
- Norræn samstarfsáætlun um efnahags- og fjármál 2025–2030
- Norræn samstarfsáætlun um jafnrétti og hinsegin málefni 2025-2030
- Norræn samstarfsáætlun um menningarmál 2025-2030
- Norræn samstarfsáætlun um atvinnustefnu 2025–2030
- Norræn samstarfsáætlun um menntun, rannsóknir og tungumál 2025-2030
- Norræn samstarfsáætlun um félags- og heilbrigðismál 2025–2030
- Norræn samstarfsáætlun um dómsmálasamstarf 2025-2030
- Norræn samstarfsáætlun um fiskveiðar og fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt 2025–2030
- Norræn samstarfsáætlun um byggðaþróun og skipulagsmál 2025–2030
- Norræn samstarfsáætlun um stafvæðingu 2025-2030