Fyrsta sameiginlega heimsókn norrænna utanríkisráðherra til Afríku
Alþjóðaöryggismál, viðskipti, fjölþjóðlegt samstarf og grænar lausnir voru til umræðu í fyrstu sameiginlegu heimsókn utanríkisráðherra Norðurlanda til Afríku dagana 12. – 14. ágúst. Í ferðinni heimsóttu ráðherrarnir Nígeríu og Gana en ferðin er liður í áherslu Norðurlandanna á að efla samvinnu og viðskipti við ríki í Afríku.
„Nígería og Gana hafa verið mikilvægir bandamenn á alþjóðavettvangi og talað fyrir alþjóðalögum, þar með talið alþjóðlegum mannúðarlögum, og eru þau lykilsamstarfsríki þegar kemur að því að styrkja fjölþjóðasamvinnu og takast á við sameiginlegar áskoranir á borð við lofslagsbreytingar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Samhljómur var um að auka þurfi vægi Afríkuríkja innan alþjóðastofnana, og hafa Norðurlöndin lagt áherslu á að efla samstarf að sameiginlegum áherslumálum á vettvangi þeirra, meðal annars á vettvangi mannréttindaráðsins. „Við áttum hreinskiptin samtöl um hvar áherslur okkar og hagsmunir eiga samleið, meðal annars þegar kemur að mikilvægi alþjóðakerfisins, sameiginlegum áskorunum á borð við erlend afskipti af lýðræðisferlum og hryðjuverkaógnina sem hefur búið um sig í Vestur-Afríku og hefur víðtæk áhrif á öryggi á heimsvísu,” segir Þórdís Kolbrún ennfremur. „Við erum sammála um að byggja brýr og auka samstarfið á vettvangi alþjóðastofnana, en við þurfum líka að vera hreinskiptin þegar okkur greinir á svo hægt sé að leita lausna um það sem mestu skiptir.“ Gana og Noregur sátu nýlega samtímis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og í byrjun árs tók Gana sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna þar sem Ísland sækist eftir setu frá næstu áramótum.
Ráðherrarnir funduðu meðal annars með Yusuf Maitama Tuggar utanríkisráðherra Nígeríu, Nana Akufo-Addo forseta Gana og Shirley Ayorkor Botchwey utanríkisráðherra Gana. Þá funduðu ráðherrarnir með varaforseta ECOWAS, samtaka ríkja í Vestur-Afríku, fulltrúum frjálsra félagasamtaka í bæði Nígeríu og Gana með áherslu á mannréttindi og lýðræði, tóku þátt í hringborðsumræðum um öryggi hjá friðargæslustofnun Kofi Annan og pallborðsumræðum um ungt fólk, frumkvöðlastarf og viðskiptatengsl Norðurlanda og Gana.
„Tækifærin til þess að efla viðskipti og fjárfestingar milli Norðurlandanna og Afríkuríkja eru fjölmörg, til dæmis á sviði tækni, nýsköpunar og grænna lausna. Ísland á auðvitað sterk og langvarandi tvíhliða viðskiptatengsl við Nígeríu sem undanfarin ár hefur verið að meðaltali fimmtándi stærsti vöruútflutningsmarkaður Íslands, fyrst og fremst í formi sjávarafurða, en tækifærin eru miklu fleiri fyrir íslensk fyrirtæki og íslenskt hugvit að horfa í báðum þessum löndum,“ segir Þórdís Kolbrún.