Hátíðarhöld í Berlín í tilefni af 25 ára afmæli norrænu sendiráðanna
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sótti hátíðarhöld í tilefni af 25 ára afmæli norrænu sendiráðanna Í Berlín í vikunni ásamt þjóðhöfðingjum og utanríkisráðherrum Norðurlandanna.
Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, var heiðursgestur á afmælishátíðinni, en auk hans mættu Friðrik tíundi Danakonungur, Alexander Stubb forseti Finnlands, Hákon krónprins Noregs og Viktoría krónprinsessa Svíþjóðar til hátíðarhaldanna. Þá tóku norrænu utanríkisráðherrarnir og Annalena Baerbock utanríkisráðherra Þýskalands einnig þátt, auk Joe Chialo menningarmálaráðherra Berlínar, Petru Pau varaforseta þýska sambandsþingsins og Karenar Elleman framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar.
Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins var viðstaddur afmælishátíðina í fjarveru Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og tók þátt í fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Þýskalands. Meðal umræðuefna þeirra var árásarstríð Rússlands gegn Úkraínu, öryggisáskoranir í Evrópu og átökin fyrir botni Miðjarðarhafs.
Náið samstarf Norðurlandanna í Berlín er einstakt á heimsvísu. Sendiráðin eru öll samankomin á einu svæði og deila sameiginlegu viðburðar- og menningarhúsi. Þá varpar afmælið ljósi á hin sterku tengsl Norðurlandanna við Þýskaland á sviðum menningar, viðskipta og mennta og ekki síður á alþjóðavettvangi til að styðja við fjölþjóðlega samvinnu, mannréttindi, lýðræði og frið.