Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. febrúar 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp Svandísar Svavarsdóttur á málþingi um kyn og loftslagsbreytingar

 

Góðir áheyrendur,

Það er mér mikil ánægja að ávarpa þetta málþing, sem fjallar um loftslagsmálin út frá sjónarhóli jafnréttismála og kynjasjónarmiða.

Hvers vegna að ræða um kyn og loftslagsbreytingar? Svarið við því er ekki flókið. Loftslagsmálin varða framtíð mannkyns, allra þjóða, beggja kynja, borinna sem óborinna. Loftslagsbreytingar og aðgerðir gegn þeim hafa áhrif á umhverfi okkar, lífsskilyrði, efnahag og lífshætti. Þau eru ekki tæknilegt viðfangsefni sem við getum falið nokkrum sérfræðingum að leysa, heldur þurfum við öll að leggjast á árarnar ef við ætlum að ná árangri í glímunni við loftslagsbreytingar en skila afkomendum okkar ekki vistfræðilegu þrotabúi. Konur, einkum í fátækari hluta heimsins, munu almennt verða verr fyrir barðinu á afleiðingum loftslagsbreytinga en karlar. Konur koma hins vegar ekki jafn mikið að ákvarðanatöku í loftslagsmálum og karlar. Við þurfum á virkri þátttöku kvenna að halda á öllum stigum umræðu, ákvarðana og aðgerða. Við þurfum að tryggja að kynjasjónarmið séu í heiðri höfð við úthlutun fjármagns til verkefna til að draga úr gróðurhúsaáhrifum. Þess vegna er mikil umræða á heimsvísu um að efla aðkomu kvenna að ákvörðunum í loftslagsmálum. Þess vegna er þetta málþing haldið og ég fagna því.

Fyrst: Örfá orð um loftslagsvandann. Í hverju er hann fólginn? Vísindin segja okkur að það hafi hlýnað ört á jörðinni á undanförnum áratugum og að náttúrulegar sveiflur skýri þá þróun ekki, heldur sé losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum klárlega helsti orsakavaldurinn. Þessi losun stendur ekki í stað, heldur fer hún hraðvaxandi. Það gæti þýtt hlýnun um 2-5 gráður á þessari öld. Það hljómar kannski ekki mikið, en það hefur miklu meiri og sneggri breytingar í för með sér á hinu náttúrulega umhverfi en mannkynið hefur séð á sögulegum tímum og þó leitað væri margfalt lengur aftur. Tvær gráður þýða gífurlega miklar breytingar: Veðurfar breytist, úrkoma eykst sums staðar en minnkar annars staðar, vistkerfi riðlast, skilyrði til landbúnaðar og búsetu breytast, öll lífsskilyrði mannkyns breytast. Fjórar eða fimm gráður í hlýnun eru svipuð stærðargráða í breytingum og frá síðustu ísöld til dagsins í dag. Slíkt hefði í för með sér gífurlega röskun á náttúru og lífsskilyrðum og margar ófyrirsjáanlegar og óafturkræfar breytingar, sem vistkerfi og samfélög manna geta ekki lagað sig að á skömmum tíma.

Loftslagsmál eru að stórum hluta siðferðilegt viðfangsefni. Þolendurnir eru flestir kornungir eða ófæddir og fyrst um sinn kannski frá okkur séð í fjarlægum deildum jarðar: Þurrkasvæðum Afríku, þéttbýlum óshólmum stórfljóta eða á láglendum smáeyjum eins og Maldív-eyjum - þar sem í alvöru er farið að ræða um hvert sé hægt að flytja íbúana burt ef sjávarborð hækkar til muna. Gerendurnir erum við, einkum í hinum ríkari hluta heims, í dag. Hvernig tryggjum við langtímahagsmuni alls mannkyns í heimi sem miðar ákvarðanir gjarnan við kjörtímabil stjórnmálamanna eða hámarks skammtímagróða fjárfesta?

Sjónarmið kvenna vega þungt í þessari umræðu. Konur eiga meiri hættu á að verða þolendur afleiðinga loftslagsbreytinga. Þær þurfa að þekkja yfirvofandi breytingar og mögulegar aðgerðir til að mæta þeim, svo sem breytta landnotkun vegna þurrka eða gerð rýmingaráætlana vegna aukinnar flóðahættu. Konur þurfa á aukinni þekkingu að halda og auknum áhrifum til að búa fjölskyldur og þjóðir undir breytt skilyrði og stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda og þróun samfélagsins. Því hefur verið haldið fram að aukin völd og menntun kvenna sé besta leiðin til bætts umhverfis og það má finna sterk rök til að styðja þá fullyrðingu.

Konur eru þolendur, en konur eru ekki síður gerendur. Þær eru það sannarlega nú, en rödd þeirra og styrkur þarf að fá meira rými í allri umræðu og ákvarðanatöku. “Konur sem afl til breytinga” var heiti á málstofu sem ég fékk þann heiður að stýra á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn í lok síðasta árs. Þar skynjaði ég vel þungann í umræðunni um mikilvægi jafnréttis í loftslagsmálunum. Það var fullt út úr dyrum og þar töluðu meðal annars skeleggir fulltrúar Afríkuríkja, þar sem loftslagsvandinn er bráðari en hér á landi, um nauðsyn þess að virkja kraft kvenna í sínum heimshluta. Þær vita hvað þær eru að tala um. Í Kenýa tók kona að nafni Wangari Maathai sig til og skipulagði trjáplöntun í heimalandi sínu, sem bindur jarðveg og bætir ræktunarskilyrði og dregur kolefni úr andrúmsloftinu. Hún gerði það fyrst og fremst með því að virkja konur og samtakamátt þeirra. Maathai fékk friðarverðlaun Nóbels fyrir starf sitt, sem hefur orðið mörgum fyrirmynd í starfi að umhverfisvernd og jafnréttismálum.

Það var ánægjulegt að taka við viðurkenningu á málstofunni í Kaupmannahöfn fyrir Íslands hönd vegna þess að Ísland hefur haldið jafnréttissjónarmiðum á lofti í samningaviðræðum um loftslagsmál og náð að fá samþykkt ákvæði þar að lútandi inn í samningstexta. Það er jákvætt og mikilvægt að Ísland haldi fána jafnréttis á lofti í alþjóðlegum viðræðum um jafn mikilvæg mál og loftslagsmálin og ánægjulegt að sjá að aðrir taka eftir því og kunna að meta okkar framlag.

En okkar framlag og áherslur á jafnrétti á ekki heima bara á alþjóðlegum ráðstefnum og í þróunaraðstoð. Loftslagsmál varða Íslendinga jafnt sem íbúa Bangladesh og kóraleyja í Kyrrahafinu. Súrnun hafsins vegna losunar koldíoxíðs getur haft alvarlegar afleiðingar á lífríki hafsins á komandi áratugum. Of hraðar og stjórnlausar loftslagsbreytingar munu skaða hag Íslendinga til lengri tíma litið eins og annarra. Og kynjasjónarmið og jafnrétti þarf að vera í fyrirrúmi hér, þótt við teljum því betur borgið í okkar norræna samfélagi en mörgum öðrum.

Konur halda að miklu leyti um budduna í neyslu heimilanna og hún hefur aftur áhrif á umhverfið og loftslagið. Konur velja oft aðra samgöngumáta en karlar. Loftslagsmál eru hluti af heimilisbókhaldinu og lífstíl. Konur þurfa að vera virkir þátttakendur í umræðunni um loftslagsmál á Íslandi – eins og karlar. Við þurfum á aðkomu beggja kynja að halda.

Um fjórir af hverjum fimm sem tóku til máls á ráðherrafundinum um loftslagsmál í Kaupmannahöfn voru karlar. Ekki ætla ég að halda því fram að sú tölfræði skýri að einhverju leyti að niðurstaðan þar varð rýrari en margir vonuðu. Við þurfum hins vegar greinilega á ferskum kröftum að halda ef við ætlum að ná raunverulegum árangri. Til þess þurfum við að virkja konur jafnt sem karla. Ég fagna þeirri umræðu sem hér er sett af stað með þessari málstofu, þakka þeim sem að henni standa og óska þess að hún verði til þess að kveikja áhuga fleiri á að taka virkan þátt í að leysa stærsta aðsteðjandi vandamál mannkyns.

Ég þakka fyrir.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta