Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. ágúst 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands 2010

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands sem haldinn var á Hótel Selfossi 27.-28. ágúst 2010.

Góðan daginn,

Fyrrverandi forseti Íslands frú Vigdís Finnbogadóttir
Formenn Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarfélags Árnesinga
Ágætu aðalfundarfulltrúar, góðir gestir

Kære Johan C. Løken styreleder i det Norske Skogselskap, jeg önsker dig varmt velkommen til Island. Jeg vet att det har vært langt og tæt samarbete imellom Det Islandske og Det Norske Skogselskap som har bidraget stort till att fremja skogssaken her i Island. Jeg vil derför bruke tilfellet og takka Det Norske Skogselskap för allt dess stötte og samarbete med Det Islandske Skogselskap og skogssaken generellt her i Island igenom åren.

Kæru gestir,

Það er mér sérstök ánægja að fá að ávarpa þennan 75. aðalfund Skógræktarfélags Íslands, sem haldinn er hér í hinum gróna bæ Selfossi í boði Skógræktarfélags Árnesinga.

Skógræktarfélag Íslands fagnar í ár áttatíu ára afmæli sínu. Ég óska félaginu innilega til hamingju með áfangann. Þetta er hár aldur hjá félagasamtökum og Skógræktarfélag Íslands er sannarlega öflug hreyfing áhugafólks um betra Ísland. Jafnframt óska ég Skógræktarfélagi Árnesinga, einu öflugasta aðildarfélaginu, til hamingju með þeirra afmæli, en félagið er sjötíu ára í ár, stofnað árið 1940.

Það er ekki hægt að segja annað en bæði félögin hafi fengið einmunablíðu í afmælisgjöf. Þetta sumar er búið að vera einstakt gróðrarsumar, ekki síst hér sunnanlands og vestan með hita og logni og er gróskan eftir því.

En þessi mikla gróðursæld er ekki bara vegna góðs tíðarfars – árangur hins mikla gróðuráhuga og átaks undanfarinna áratuga er auðvitað betur og betur að koma í ljós. Það eru tré, sem einhver hefur sýnt þá fyrirhyggju að gróðursetja og hlú að, sem eru að vaxa vel núna í blíðviðrinu. Þar hafa Skógræktarfélag Ísland og áhugafólk innan þess vébanda verið í fararbroddi.

Það hlýtur því að vera góð tilfinning fyrir hið áttræða afmælisbarn - Skógræktarfélag Íslands að virða fyrir sér hinn mikla árangur í skóg- og trjárækt í landinu. Mér fannst Tryggva Ólafssyni myndlistamanni mælast vel, í viðtali í Morgunblaðinu í fyrra haust, þar sem hann lýsir þeim breytingum sem hann upplifir við heimkomuna til Íslands eftir nærri 50 ára dvöl í Kaupmannahöfn, en hann flutti út 21 árs og heim aftur 68 ára í miðja kreppuna – Tryggvi segir orðrétt “Þetta er voðalega þreytt lýðveldi. Það sem hefur batnað er hvað Reykjavík og Ísland eru orðin græn. Ég held að fáir menn hafi séð annan eins árangur ævi sinnar og Sigurður Blöndal og aðrir skógræktarmenn. Þeir hafa gert kraftaverk”.

En þó við tökum heilshugar undir orð Tryggva að kraftaverk hafi gerst hér í skógrækt er hins vegar enn mikið verk að vinna.

Ásýnd landsins og umgengni okkar við gæði þess er fjarri því að vera hnökralaus. Ísland er það land Evrópu sem hefur tapað mestri skógarþekju og gróðurhulu og jarðvegseyðing er enn mikil. Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem aðgerðir við uppgræðslu lands hafa loks farið að halda í við gróður og jarðvegseyðinguna.

Gróður- og jarðvegsauðlindir landsins eru enn alltof rýrar sakir ósjálfbærrar nýtingar og mikið verkefni framundan við uppbyggingu þeirra. Skógar þekja einungis rúm 1% af flatarmáli landsins.

Baráttan við gróður og jarðvegseyðinguna heldur því áfram að vera eitt af stóru viðfangsefnum umhverfismála á Íslandi.

Í sumar kynnti skógræktarstjóri fyrir mér drög að stefnumótun í skógrækt í landinu sem hópur undir hans stjórn hefur unnið að undanfarið. Ég hef verulegar væntingar til þeirrar vinnu og geri ráð fyrir að fá þá stefnumótun formlega í hendur í haust til umfjöllunar í ráðuneytinu eftir að hún hefur farið í almenna kynningu. Heildstæð stefnumótun um skóga og skógrækt í landinu er ekki til og vantar fyrir þennan mikilvæga málaflokk. Það má jafnframt nefna að það fer vel á að hafa stefnumótun í skógrækt til umfjöllunar nú í vetur því á árinu 2011, sem verður alþjóðlegt ár skóga hjá Sameinuðu þjóðunum má gera ráð fyrir aukinni umfjöllun um skóga og skógrækt á alþjóðlegum vettvangi.

Góðir félagsmenn,

Í vor átti sér stað heilmikil orðræða í fjölmiðlum um þá ákvörðun mína að móta reglur um notkun alaskalúpínu. Ég tel því rétt og upplýsandi að víkja að því hér á þessum vettvangi.

Alaskalúpína hefur reynst góður bandamaður í uppgræðslu landsins. Plantan bindur köfnunarefni úr andrúmsloftinu og hefur sýnt af sér góða aðlögunarhæfni á nánast öllu láglendi landsins. Henni hefur víða verið sáð og með minnkandi beit og hlýnandi loftslagi breiðist hún út víða og er orðin áberandi í flestum landshlutum.

Sums staðar er þetta fagnaðarefni. Á öðrum svæðum hefur ágengni lúpínunnar hins vegar orðið til þess að ganga gegn öðrum sjónarmiðum landnýtingar, svo og sjónarmiðum náttúruverndar. Útbreiðsla lúpínu er orðin slík, að mikilvægt er að fyrir liggi skýr stefna umhverfisyfirvalda hvar og hvernig stjórnvöld hyggist sá plöntunni, og jafnframt að gefa út leiðbeiningar til annarra þess efnis. Það koma ýmis sjónarmið til, svo sem eldhætta á útivistarsvæðum af lúpínusinu, eða að hún sái sér og spilli berjalöndum eða raski einkennandi gróðurlendum. Ágengni lúpínunnar er jafnframt áhyggjuefni gróðurvistfræðinga sem telja að hún leiði af sér einsleitni í gróðurfari sem geti haft óæskileg áhrif á lífríkið.

Deilur um notkun lúpínu hafa verið árviss viðburður undanfarin ár.

Ég ákvað því í vetur að fela tveimur stofnunum umhverfisráðuneytisins, Landgræðslu ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands að vinna tillögur að meðferð lúpínu til framtíðar. Landgræðslan er sú stofnun sem notar lúpínuna mest og hefur hvað bestu þekkingu á eiginleikum hennar og Náttúrufræðistofnun stundar rannsóknir og vöktun á náttúru landsins.

Nú liggja fyrir tillögur stofnananna. Þar er lagt til að lúpínu skuli ekki sáð á friðlýstum svæðum landsins og landslagsgerðum sem njóta sérstakrar verndar skv. náttúruverndarlögum. Jafnframt skuli henni ekki sáð á miðhálendi landsins, en þar eru ýmis skipulagsmál, eignarhald og framtíðarnýting enn víða óráðin. Einnig er lagt til að stefna skuli að því að fjarlægja lúpínu af þessum svæðum. Ég tel að tillögur hópsins séu góður grunnur til að byggja á og hef falið starfshóp á vegum stofnananna tveggja að útfæra aðgerðir á grundvelli þeirra.

Jafnframt hef ég óskað eftir því við Landgræðslu ríkisins að hún vinni í samstarfi við Skógrækt ríkisins leiðbeiningar fyrir hönd stjórnvalda hvar og við hvaða aðstæður lúpínu skuli sáð til uppgræðslu og undirbúnings skógræktar.

Ég tel það verði til að efla starfið við uppgræðslu landsins ef fyrir liggja slíkar leiðbeiningar um hvernig þessu öfluga tæki, lúpínunni, sé best beitt af hálfu stjórnvalda.

Náttúra og ásýnd landsins eru eðlilega mikið tilfinningamál. Það er hins vegar hlutverk stjórnvalda í lýðræðisþjóðfélagi að samþætta sjónarmið og setja reglur. Það er í sjálfu sér ekki erfitt verk í þessu tilfelli. Það er fráleitt að stilla náttúruvernd og uppgræðslu lands upp sem andstæðum. Lúpínan hefur orðið tákn ólíkra sjónarmiða um þau mál, þar sem umræða verður fljótt tilfinningahlaðin og jafnvel hatrömm.

Stefna stjórnvalda er hins vegar skýr: Haldið verður áfram af fullum krafti að græða upp landið, en þær aðgerðir þarf auðvitað að skipuleggja og samræma öðrum þáttum landnýtingar þannig að ekki sé gengið á önnur gæði. Lúpína er ekki góð eða vond í eðli sínu, heldur öflugt tæki til landgræðslu og undirbúnings skógræktar, sem hentar hins vegar ekki alls staðar.

Ég vonast að þetta upplýsi hvert markmið þessarar vinnu er.

Góðir skógræktarfélagar,

Það er ár síðan við hittumst á aðalfundi ykkar á Höfn í Hornafirði á eftirminnilegri kvöldvöku í félagsheimilinu Mánagarði. Það var afar skemmtileg stund og gaf mér, þá nýjum umhverfisráðherra, innsýn í starf og þankagang skógræktarfélagshreyfingarinnar.

Ég hef því miður ekki tækifæri til að vera með ykkur annað kvöld hér á Selfossi en veit nú af reynslunni frá því í fyrra að þar missi ég af góðri skemmtun og félagsskap.

Ég vil að lokum nota tækifærið og brýna ykkur áhugafólk um skógrækt og gróðurvernd til dáða. Það hefur margt verið mótdrægt í þjóðfélaginu frá efnahagshruninu og ég veit að samdrátturinn hefur haft mikil áhrif á framkvæmdagetu margra skógræktarfélaga. En ég minni á að það er farið að glitta i ljósið fyrir enda ganganna. Öflugur félagsskapur eins og ykkar, þar sem fólk er tilbúið að leggja fram allt þetta óeigingjarna starf er ómetanlegt framlag til umhverfismála sem stjórnvöld meta afar mikils.

Skógræktar- og landgræðslustarfið voru fyrstu sprotar náttúrverndar hér á landi, sem síðan hefur orðið sameiginlegt áhugamál og viðfangsefni stórs hluta þjóðarinnar.

Eftir áttatíu ára starf Skógræktarfélags Íslands er sú mikla viðhorfsbreyting kannski einn mikilvægasti árangurinn.

Aldamótaskáldin um aldamótin 1900ortu um að hefja hér skógrækt og landgræðslu, um landið viði vaxið í framtíðinni líkt og það áður var. Upp úr þeim jarðvegi spratt auðvitað Skógræktarfélag Íslands.

Allir hér inni þekkja aldamótaljóð Hannesar Hafstein:

Sú kemur tíð, er sárin foldar gróa,
sveitirnar fyllast, akrar hylja móa,
brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa,
menningin vex í lundi nýrra skóg.

Aldamótaskáldin um aldamótin 2000 yrkja hins vegar öðru vísi um skóg, þau yrkja um skóg sem þau þekkja og umgangast, skóg sem er kominn í landið. Menningin er sannarlega farin að vaxa í lundum nýrra skóga. Í bókinni Indíánasumri árið 1996 yrkir Gyrðir Elíasson svona í ljóðinu Dagur í Heiðmörk

Upp af stígnum sem bugðast
milli furutrjánna tek ég ormétið
laufblað og ber að sólinni; þetta
er einsog fíngert víravirki úr
áföllnu silfri, dularfullt og
undurfallegt mynstur sem
lauformarnir hafa nagað
þessar haustnætur

Hliðstætt því hljóða undri
þegar gömul kona prjónar
rósavettlinga í ruggustól
í litlu húsi
í fámennum dal

Bara glamrið í áföllnum
silfurprjónum, bara
skrjáfið í myndskornum
laufblöðum

Að lokum endurtek ég árnaðaróskir mínar til Skógræktarfélags Íslands í tilefni áttatíu ára afmælisins og til Skógræktarfélags Árnesinga í tilefni sjötíu ára afmælisins. Ég óska ykkur velfarnaðar í aðalfundarstörfunum hér á Selfossi og veit að Skógræktarfélag Árnesinga mun annast gestgjafahlutverkið af myndugleika.

Takk fyrir,

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta