Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. október 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Grein umhverfisráðherra í Fréttablaðinu - Mælikvarði lífsgæða og velferðar

Eftirfarandi grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra birtist í Fréttablaðinu 20. október 2010.

Umhverfismál eru mál 21. aldarinnar, mál framtíðar og komandi kynslóða. Mannkynið stendur á tímamótum hvað varðar samskipti sín við náttúru og umhverfi. Við göngum hratt á óendurnýjanlegar auðlindir, fjölgun mannkyns er hömlulaus og áhrif okkar á umhverfið virðast takmarkalaus. Okkur Íslendingum hættir til að álykta að við séum stikkfrí þegar kemur að umhverfismálum og séum heimsbyggðinni til mikillar fyrirmyndar. En það er öðru nær ef marka má niðurstöður Sigurðar Eybergs Jóhannessonar og dr. Brynhildur Davíðsdóttir, dósents við Háskóla Íslands, á vistspori Íslendinga, en sá mælikvarði hefur aldrei áður verið lagður á íslenskt samfélag.

21 Jörð

Niðurstöður útreikninga á vistspori Íslendinga eru sláandi. Það þyrfti 21 Jörð ef allt mannkynið lifði við sömu kjör og við. Við sláum öll fyrri met hvað þetta varðar. Fræðimönnunum sem gerðu útreikningana leist nú ekki betur en svo á niðurstöðuna að þeir prófuðu að taka fiskveiðar út úr jöfnunni. Þá varð niðurstaðan sú að mannkynið þyrfti sex Jarðir ef allir nýttu náttúruauðlindir af sama kappi og íslenska þjóðin. Auðvitað eru útreikningar sem þessir umdeilanlegir en þeir gefa okkur engu að síðu ákveðna hugmynd um það hver staða okkar er í heiminum, hversu rík við erum af náttúruauðlindum og hversu langt við höfum gengið nú þegar í því að nýta þær. Lykiltölur Alþjóða orkumálastofnunarinnar 2010 staðfesta þetta. Samkvæmt skýrslunni er Qatar eina ríkið sem er orkufrekara en Ísland miðað við höfðatölu.

Þrátt fyrir þetta heyrast háværar raddir sem vilja meira, miklu meira. Að mínu mati þurfum við að temja okkur meiri hófsemd og meiri aga. Við þurfum ekki að gleypa allt sem á vegi okkar verður, eins og Andri Snær Magnason minnti okkur svo eftirminnilega á í greininni Í landi hinna klikkuðu karlmanna: „Við erum nú þegar með allt sem nútímasamfélag þarfnast. Það þarf bara að sinna því sem við höfum þegar byggt upp, fá arð af því sem þegar hefur verið virkjað og fara betur með það sem þegar hefur fiskast.“ Það er hárrétt hjá Andra, við þurfum ekki alltaf að virkja meira og veiða meira, en það sem okkur vantar raunverulega meira af eru gæði, gæði í nýtingu, gæði í framleiðslu, gæði í stjórnsýslu og síðast en ekki síst lífsgæði.

Nýir mælikvarðar

Því er haldið á lofti að lífsgæði almennings verði ekki aukin nema með auknum hagvexti. En ef marka má Stöðuskýrslu Félagsvísindastofnunar og hagfræðistofnunar Íslands frá árinu 2009 er ekki beint orsakasamhengi á milli aukinna lífsgæða og aukins hagvaxtar. Á árunum fyrir hrun var mikill hagvöxtur hér á landi en á sama tíma jókst ójöfnuður í landinu. Ójöfnuðurinn jókst hraðar hér en í öðrum löndum og hann einkenndist af því að ráðstöfunartekjur tekjuhæstu hópa hækkuðu langt umfram aðra hópa í samfélaginu. Þá vekur það athygli að í öllum hagvextinum og meintri hagsæld jókst notkun geðlyfja og var notkun þeirra mun tíðari hér á landi en í hinum OECD löndunum. Þá benda niðurstöður umræddrar skýrslu til að áherslur áranna fyrir hrun hafi ekki aukið lífsánægju Íslendinga. Við hljótum því að spyrja okkur hvort réttir mælikvarðar séu notaðir þegar hagsæld þjóðarinnar er metin. Það er ein mikilvægasta spurningin sem við þurfum að svara við endurreisn samfélagsins.

Svandís Svavarsdóttir
umhverfisráðherra

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta