Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. nóvember 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra á Norðurslóðardeginum 2010

Hafdís Gísladóttir aðstoðarmaður umhverfisráðherra flutti ávarp ráðherra á Norðurslóðardeginum sem haldinn var í Norræna húsinu 10. nóvember 2010.

Það er mér sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag á fyrsta Norðurslóðadeginum. Ég tel mjög við hæfi að tengja daginn við fæðingardag Vilhjálms Stefánssonar landkönnuðar en hann var fæddur 3. nóvember 1879.

Með frásögnum sínum af „heimskautalöndunum unaðslegu” átti Vilhjálmur drjúgan þátt í að breyta ímynd Norðurslóða gagnvart umheiminum frá því að vera hrjóstrugt eyðiland, þakið ísbreiðum og jökulruðningum í svæði með stórbrotna náttúru þar sem býr fólk sem í aldanna rás hefur lært að lifa á þeim gögnum og gæðum sem náttúran á þessum slóðum hefur að bjóða.

Á síðustu árum hafa augu manna í auknum mæli beinst að Norðurslóðum, ekki síst vegna þeirra breytinga á umhverfi og lífsskilyrðum sem þar má greina.

Á skömmum tíma hafa þjóðfélög á heimskautaslóðum þurft að aðlagast gjörbreyttum aðstæðum þegar veiðimannasamfélög hafa - nauðug eða viljug - tekið upp menningu og lifnaðarhætti Vesturlandabúa. Sú aðlögun hefur ekki verið sársaukalaus og leitt til alvarlegra þjóðfélagsvandamála, en einnig til aukinnar vitundar heimamanna um nauðsyn þess að taka þátt í pólitísku starfi á alþjóðavettvangi. Meginviðfangsefni slíkrar viðleitni hefur verið rétturinn til að rækta og viðhalda eigin menningu, rétturinn til landsins og að fá að nýta náttúruauðlindir á sjálfbæran hátt í samræmi við eigin þarfir og gildismat.

Það er staðreynd að hlýnun jarðar er hröðust á heimskautasvæðunum. Loftslagsbreytingarnar munu hafa mikil áhrif ekki bara á náttúru og vistkerfi heldur einnig á félagslega og hagræna þætti sem munu hafa keðjuverkandi áhrif langt út fyrir svæðið. Einnig er ljóst að heimskautasvæðin eru endastöð fyrir ýmis hættuleg efni svo sem þungmálma og þrávirk lífræn efni sem geta haft mikil áhrif á umhverfi og heilsu manna og dýra. Hvort sem við horfum til mengunar af völdum hættulegra efna eða örrar hlýnunar loftslags er ljóst að það eru fyrst og fremst athafnir manna sunnar á hnettinum sem valda.

Miklar breytingar á náttúrufari Norðurslóða geta haft áhrif um allan heim.

Ef Grænlandsjökull fer að bráðna ört þá er það ógn við íbúa láglendra hitabeltiseyja og íbúa við ósa Nílar og Ganges-fljóta. Ef siglingaleiðir opnast norðan Rússlands og Kanada, þá getur það haft djúpstæð efnahagsleg og pólitísk áhrif víða um heim.

Við sem búum hér á norðlægum slóðum gegnum mikilvægu hlutverki við að miðla upplýsingum og þekkingu um það sem er að gerast og hvaða afleiðingar það getur haft.

Í því tilliti gegna rannsóknir og vöktun lykilhlutverki. Það er því mjög ánægjulegt að sjá þá grósku sem er að finna hér á landi í vísindastarfi um málefni norðursins. Sú gróska birtist meðal annars í þeim fjölmörgu áhugaverðu erindum sem verða flutt hér í dag.Það er líka ánægjulegt að fylgjast með hvernig stofnanir um málefni Norðurslóða hafa skotið rótum í frjóum jarðvegi hér á landi og njóta viðurkenningar í alþjóðasamfélaginu.

Sem dæmi vil ég nefna Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Eitt af meginverkefnum hennar á liðnum áratug var að taka saman yfirlitsskýrslu um mannlíf á Norðurslóðum fyrir Norðurskautsráðið. Það verkefni varð flaggskipið í formennsku Íslands í Ráðinu 2002-2004. Skemmst er frá því að segja að skýrslan markaði nokkur tímamót og er í dag notuð sem kennsluefni í Háskóla Norðurslóða og viðurkennt af Sameinuðu þjóðunum sem svæðisskýrsla, sem styður árlega hnattræna úttekt stofnunarinnar um ástand og þróun ríkja heims

Þá má nefna Háskólann á Akureyri sem m.a. býður upp á alþjóðlegt nám í lögfræði með áherslu á Norðurslóðir, hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Og með samstarfi sínu við Háskóla Norðurslóða leggur Háskólinn á Akureyri sitt af mörkum til að glæða áhuga ungs fólks og möguleika á að stunda nám og vísindastörf um málefni Norðursins. Það tel ég afar mikilvægan þátt í því að tryggja framtíð svæðisins.

Loks má minna á að Ísland hýsir skrifstofur tveggja vinnuhópa Norðurskautsráðsins og eru þær staðsettar á Akureyri. Annars vegar PAME sem fjallar um verndun hafsvæða í norðri og hins vegar CAFF sem vinnur að verndun náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni á Norðurslóðum.

Góðir gestir,

Á komandi árum munu augu manna áfram beinast að Norðurslóðum. Við sjáum þegar merki um áhuga nágrannaríkja á réttinum til að nýta auðlindir sem verða aðgengilegar þegar ísinn hopar. Þar bíða bæði ógnir og tækifæri.

Verkefnin sem við blasa eru af vistrænum og félagslegum toga. Þau eru þess eðlis að þau verða vart leyst nema með þverfaglegu samstarfi vísindagreina í fjölþjóðlegri samvinnu og í samráði við íbúa Norðurslóða.

Hagsmunir okkar Íslendinga felast ekki síst í því að vinna gegn umhverfismengun og rányrkju auðlinda og að vinna að því að skapa skilning og viðurkenningu á rétti Norðurslóðabúa til að nýta lífríkið á sjálfbæran hátt.

Í þeirri viðleitni er ötult vísindastarf og gott tengslanet við fræðimenn í öðrum löndum forsenda fyrir að skapa þá þekkingu sem stefnumótun um málefni Norðurslóða þarf að byggja á.

Virk þátttaka íslenskra vísindamanna í samstarfi á Norðurslóðum hefur stuðlað að því að þekking þeirra á þeim vandamálum og tækifærum sem fólk á Norðurslóðum fæst við er orðin afar eftirsótt ekki aðeins á Norðurslóðum heldur einnig víða um heim. Það er ósk mín að svo megi verða áfram.

Ég vil loks þakka Samvinnunefnd um málefni Norðurslóða fyrir að efna til þessarar ráðstefnu hér í dag. Það er von mín að við munum í framtíðinni minnast Vilhjálms Stefánssonar á ári hverju með viðburði sem þessum þar sem sjónum er beint að „heimskautalöndunum unaðslegu” sem áttu hug hans allan.

Takk fyrir.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta