Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. desember 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra á afmælishátíð Veðurstofu Íslands

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp við upphaf afmælisfundar sem haldinn var 14. desember 2010 í tilefni af 90 afmæli Veðurstofu Íslands.

Góðir gestir,

Veðurathuganir eru jafn gamlar Íslandssögunni. Vífill, þræll Ingólfs, hafði þann sið að fara daglega upp á fellið sem kennt er við hann til að gá til veðurs fyrir fiskiróðra. Þetta sýnir glöggt hversu mikið var fyrir því haft að fá góðar spár í landi þar sem allra veðra er von, en vafasamt er að nokkur Íslendingur fyrr eða síðar hafi verið minna sporlatur en Vífill – sé sagan sönn, sem verður ekki dregið í efa hér.

Rúmu árþúsundi eftir Vífils tíð var sett á fót Veðurfræðideild í Löggildingarstofunni, sem þá hét. Veðurstofan miðar upphaf sitt við þann áfanga árið 1920, en nokkru síðar varð hún sérstök stofnun með núverandi nafni.

Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir að hlutverk Veðurstofunnar er mun víðtækara en nafnið segir til um. Veðurstofan hefur lengi vaktað jarðskjálfta og stundað jarðeðlisfræðilegar athuganir. Í kjölfar hinna hörmulegu snjóflóða á Súðavík og Flateyri árið 1995 fékk Veðurstofan aukið hlutverk varðandi ofanflóðamál.

Það varð svo mikil breyting árið 2007 þegar sameinaðar voru tvær stofnanir, Veðurstofan hin eldri og Vatnamælingar Orkustofnunar. Vatnamælingar urðu sérstök deild á Orkustofnun árið 1967, en með sameiningunni varð til öflug vísinda- og vöktunarstofnun með aukna burði og víðfeðmara verksvið. Veðurstofan er því í senn virðulegur öldungur og þróttmikill teinungur með mikla vaxtarmöguleika.

Það má skilgreina Veðurstofuna út frá vísindalegu verksviði hennar; hún vaktar jarðhræringar, vatnafar, veður, jökla, hafís og náttúruvá hvers konar – alla helstu eðlisþætti jarðar og ólífræna náttúru. Yfirráðasvæði hennar er víðara en gengur og gerist hjá hérlendum stofnunum, það nær yfir landið og miðin og geysistóra lofthelgi að auki, en Veðurstofan hefur í yfir 60 ár sinnt flugveðurþjónustu á stórum hluta Norður-Atlantshafssvæðisins samkvæmt samningi við Alþjóða flugmálastofnunina, ICAO.

Í huga almennings er Veðurstofan þó fyrst og fremst mikilvæg þjónustustofnun. Þjóðin sameinaðist áður fyrr yfir útvarpstækjum og hlustaði andaktug á fréttir um að ládautt væri á Stórhöfða – svo tekið sé reyndar fremur ósennilegt dæmi – og suðsuðaustan fjórir, fallandi loftvog og skyggni ágætt hjá Veðurskipinu Bravó, sem statt var á einhverjum dularfullum lengdar- og breiddargráðum. Með sjónvarpi urðu veðurfræðingar heimilisvinir landsmanna og Veðurstofan hefur ekki klikkað í nútímavæðingu sinni: Veður punktur is er einn alvinsælasti vefur landsins og slær jafnvel heitustu slúðurveitum við.

Veðurstofan er ekki síður öryggisstofnun. Það er raunar erfitt að vanmeta öryggishlutverk Veðurstofunnar. Saga okkar Íslendinga er að mörgu leyti saga baráttu við óblíð náttúruöfl, sem hafa krafist mikilla mannfórna. Ísland er sá staður á jörðinni þar sem eldvirkni er hvað mest og veðurfar er óblítt og illútreiknanlegt, jafnvel á tíma gervitungla og ofurtölva. Öflug vöktun, góðar spár og skýrt og fumlaust viðbragðsferli frá vísindamönnum til almannavarna eru mikil verðmæti í slíku landi.

Það hefur heldur betur reynt á þetta hlutverk Veðurstofunnar á þessu ári. Gosið í Eyjafjallajökli kæmist kannski ekki hátt á lista yfir skelfilegustu gos Íslandssögunnar, en varð frægt að endemum um gjörvalla heimsbyggðina fyrir að lama flugsamgöngur meir og lengur en þekkst hefur. Starfsmenn Veðurstofunnar vöktuðu gosið allt frá kvikuhreyfingum í jarðskorpunni til dreifingar fínösku í háloftunum og voru undir gífurlegri pressu að miðla upplýsingum til stofnana og fjölmiðla erlendis fljótt og vel. Veðurstofan stóð sig frábærlega í þessum atburðum og það hafa reyndar opnast ýmsar dyr að nýjum rannsóknar- og vöktunarverkefnum í kjölfar gossins, sem við heyrum meira um í dag.

Það er líka vel til fundið að fjalla um loftslagsbreytingar á þessum afmælisfundi, en þar hefur Veðurstofan mikilvægu hlutverki að gegna. Umhverfisráðuneytið hefur falið Veðurstofunni að leiða vinnu við að taka saman skýrslur um áhrif loftslagsbreytinga á Ísland og að vera tengiliður við IPCC, Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Vatnamælingar og Veðurstofan hin eldri unnu að rannsóknum á sviði loftslagsmála, sem eru veganesti að efldu starfi stofnunarinnar í þeim efnum. Loftslagsbreytingar munu að líkindum hafa víðtæk áhrif á veðurfar, jökla og lífríki á landi og sjó á komandi áratugum hér á Íslandi og við þurfum að byrja að laga okkur að breyttu umhverfi jafnframt því sem við ráðumst að rót vandans með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Jöklar landsins hafa nú verið kortlagðir nákvæmlega, en breytingar á þeim í framtíðinni verða líklega sýnilegasta birtingarmynd hlýnunar loftslags á Íslandi.

Góðir gestir,

Það eru harðindi á Íslandi þessa dagana, ekki vegna eldgosa eða hafísa, heldur afleiðinga fjármálahruns.

Á sama tíma og verkefni Veðurstofunnar eru vaxandi er harkalegur niðurskurður í ríkisrekstri, sem bitnar á öllum þáttum hans. Við megum þó ekki láta slíkt stöðva alveg góð verk. Tvískipt húsnæði er óhentugt fyrir Veðurstofuna og umhverfisráðuneytið vinnur að því í samstarfi við stofnunina og fjármálaráðuneytið að finna framtíðarlausn á þeim vanda.

Frostkaflinn nú er vonandi tímabundinn og ég tel víst að starf Veðurstofunnar muni bara eflast í komandi leysingum. Veðurstofan er sterk stofnun með mikilsvert hlutverk í íslensku samfélagi. Það eru krefjandi og spennandi verkefni framundan fyrir Veðurstofuna og ég skynja mikinn metnað hjá starfsfólki og stjórnendum hennar að takast á við þau. Ég vona að þið eigið öll ánægjulega stund hér á þessum fundi og óska Veðurstofunni til hamingju með áfangann og velfarnaðar og meðvinds í framtíðinni.

Takk fyrir,

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta