Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. febrúar 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnu um umhverfismengun á Íslandi

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp við upphaf ráðstefnu sem haldin var í Öskju 25. febrúar 2011 og fjallaði um umhverfismengun á Íslandi.

Ágætu gestir,

Það er mér sönn ánægja að ávarpa þessa ráðstefnu um umhverfismengun, sem er bæði metnaðarfull, þörf og tímabær.

Mengun umhverfisins er sú ógn sem átti hvað mestan þátt í að hrinda af stað vakningu í umhverfismálum víða um heim eftir miðja síðustu öld. Þegar óvenju dimmt mengunarský lagðist yfir London í desember 1952 og olli dauða þúsunda manna í kjölfarið var hafist handa þar í landi við að stemmu stigu við kolamenguninni, sem hafði verið talin jafn sjálfsögð og peningalykt í íslensku sjávarplássi.

Þegar Rachel Carson skrifaði tímamótaverk sitt – Raddir vorsins þagna – árið 1962 opnuðust augu manna fyrir afleiðingum víðtækrar notkunar skordýraeiturs og skyldra efna. Þegar þúsundir manna veiktust og börn fæddust afmynduð í bænum Minamata í Japan röktu menn það að endingu til kvikasilfursmengunar frá einni verksmiðju. Eitrið barst í hafið og í sjávarfang sem heimamenn neyttu. Menn sáu að hafið var ekki hægt að nýta bæði sem ruslakistu og uppsprettu fæðu. Öll þessi atvik og önnur til sýndu okkur að við gætum kafnað í eigin mengun ef ekki yrði rönd við reist.

Þessi vakning náði til Íslands og varð m.a. til þess að fyrir 40 árum var haldin stór ráðstefna um mengun á Íslandi, sem markaði tímamót í umhverfisumræðunni hér. Síðan hefur mikið vatn og mishreint runnið til sjávar og hér verið byggðir upp innviðir laga og stofnana sem vakta mengun, takmarka losun og grípa til aðgerða þegar nauðsyn ber til.

Önnur bylgja vitundarvakningar um mengun varð í kjölfar skýrslu Brundtland-nefndarinnar árið 1987 og Ríó-fundarins 1992. Þá var kastljósinu m.a. beint að mengun sem berst langar leiðir, ekki síst þrávirkra lífrænna efna, sem safnast upp í lífkeðjunni, oft óralangt frá uppsprettum. Við Íslendingar teljum okkur hafa lagt lóð á vogarskál þeirrar umræðu með áherslu á málflutning um mengun hafsins. Við sjáum ávöxtinn af því starfi m.a. í samþykkt Stokkhólms-samningsins um þrávirk lífræn efni og aðgerðaáætlun Sameinuðu þjóðanna sem tekur á mengun hafs frá landi. Á vettvangi OSPAR-samningsins um vernd NA-Atlantshafsins höfum við náð því fram að losun geislavirkra efna í Atlantshafið hefur snarminnkað.

Það hefur því margt áunnist á heimsvísu og heimavelli á þessum 40 árum. Við höfum þó aldrei lagt sömu áherslu á mengunarvarnir og nágrannaríki okkar og teljum okkur iðulega til tekna hversu hreint loftið og vatnið og umhverfið allt sé. Það er vissulegt margt til í því,

en sú spurning vaknar hvort við höfum e.t.v. orðið of værukær í þessum efnum og hvort ekki megi betur gera.

Á síðustu árum höfum við séð að svifryk er heilbrigðisvandamál m.a. á höfuðborgarsvæðinu og Eyjafjarðarsvæðinu. Mengun af völdum brennisteinsvetnis er nýlegt vandamál, sem er lítt þekkt í heiminum utan jarðhitasvæða og kallar á rannsóknir, vöktun og varnir. Náttúran gerði okkur grikk með öskugosinu í Eyjafjallajökli, sem við höfum ekki séð fyrir endann á. Nýleg umræða um díoxínmengun frá sorpbrennslum hefur vakið upp spurningar um reglusetningu, vöktun og upplýsingagjöf, sem ég hef óskað eftir úttekt á.

Þörfin á rannsóknum og vöktun á mengun er líka til staðar og þar viljum við standa okkur vel. Íslenska vatnið er hið besta í gjörvöllum heiminum og við getum jafnvel teygað það að meinalausu úr Elliðaánum í miðri borg – eða þessu höldum við gjarnan fram við útlendinga, sem myndu seint vilja leggja sér Rín eða Níl til munns. Hvað þá Dóná, þar sem 165 milljónir manna skola niður úrgangi sínum, eða Ganges-fljótið, þar sem 2 milljónir manna baða sig dag hvern og kólí-bakteríur munu vera um þrjúþúsund-falt yfir heilbrigðismörkum.

Við getum prísað okkur sæl með okkar blátæru fjallalæki í slíkum samanburði, en getum við verið viss um að vatnið okkar sé alls staðar og alltaf ómengað? Við verðum að geta sýnt fram á allar staðhæfingar um hreinleika og mengunarstyrk með óyggjandi hætti. Við verðum að búa að reglulegri vöktun og góðum og aðgengilegum upplýsingum um alla helstu þætti sem lagðir eru til grundvallar í alþjóðlegum samanburði. Við seljum útlendingum hreint sjávarfang og lambakjöt án aukefna. Við seljum ferðamönnum tært loft. Við tengjum ímynd hreinleika við margar okkar helstu útflutningsafurðir. Góð vöktun á mengun í lofti, láði og legi, hvort sem hún er augljóst vandamál eða ekki, er skynsamleg fjárfesting, hvort sem litið er til heilsu fólks, náttúrunnar, eða bara pyngjunnar, þegar allt er talið með í reikninginn.

Góðir gestir,

Umhverfisráðuneytið vinnur að ýmsum málum sem tengjast mengunarvörnum og sum þeirra í samvinnu við önnur ráðuneyti, enda kemur málaflokkurinn mörgum við.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um stjórn vatnamála, þar sem markmiðið er að kveða á um verndun vatns, hindra að vatnsgæði rýrni og tryggja að vatn njóti heilstæðrar verndar.

Ég vil einnig nefna nefnd um loftmengun og lýðheilsu sem umhverfisráðherra og velferðarráðherra settu á fót og mun skila niðurstöðum á þessu ári. Ég bind miklar vonir við að það starf gefi okkur heildstæða mynd af loftmengun – jafnt utandyra sem innanhúss – sem verði grundvöllur forgangsröðunar og aðgerða til að bæta heilsu fólks, ekki síst barna.

Ég velti því líka fyrir mér hvort ekki sé þörf á að skoða vöktun og upplýsingagjöf varðandi mengun á heildstæðan hátt og skerpa á stefnu og forgangsröðun hvað það varðar. Ég sé fyrir mér að þessi ráðstefna geti markað skref til að efla samstarf helstu ráðuneyta og stofnana hvað það varðar. Verkefni um vöktun á mengun hafsins hefur nokkuð liðið fyrir fjárskort, ekki síst nú þegar hart er í búi. Svo er um fleiri verkefni, enda eru mælingar á mörgum efnum dýrar.

Fjárskortur á ekki og má ekki koma í veg fyrir að við veltum fyrir okkur úrbótum. Þvert á móti. Vaxtarbroddar í íslensku atvinnulífi tengjast ófáir ímynd hreinleika og umhverfisverndar. Sú ímynd verður að vera byggð á staðreyndum. Umhverfisráðuneytið hefur á síðustu misserum skerpt á stefnumótun í loftslagsmálum, náttúruvernd og líffræðilegri fjölbreytni, svo dæmi séu tekin. Ég tel að ástæða sé til að gera svipaða skoðun varðandi mengun og vöktun á henni og ekki síst á góðri og notendavænni miðlun upplýsinga til almennings.

Ég vil að lokum þakka aðstandendum ráðstefnunnar fyrir mikið og gott starf við undirbúning hennar. Við stöndum að sönnu betur en fyrir 40 árum hvað lög og reglur og upplýsingar og innviði varðar, en við þurfum að efla samstarf og skerpa á stefnu. Ráðstefnan er ekki bara rós í hnappagat þeirra sem að henni standa og flytja hér fróðlega fyrirlestra, heldur hvatning til að gera enn betur í baráttunni gegn mengun umhverfisins.

Takk fyrir,

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta