Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. mars 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp á ráðstefnu um minkaveiðiátak

Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnu sem haldin var á Grand hóteli 14. mars 2011 og fjallaði um minkaveiðiátak Sigríður Auður Arnardóttir skrifstofustjóri flutti ávarpið f.h. ráðherra. 

Ágætu gestir,

Það er mér ánægja að ávarpa þessa ráðstefnu, sem ég vona að verði vettvangur góðrar umræðu og skoðanaskipta um hvernig við getum haldið niður mink á Íslandi eða útrýmt honum.

Minkurinn kom til Íslands fyrir um 80 árum fyrir tilverknað mannsins og hefur breiðst út um allt land eftir að hann slapp úr búrum. Hann veldur búsifjum víða um land, svo sem í æðarvörpum og við veiðiár. Þá hefur hann veruleg áhrif á lífríki landsins. Það gildir um einstakar tegundir á borð við teistu og keldusvín – sem er horfið úr tölu íslenskra varpfugla, að hluta til af hans völdum – og á hegðun dýra, en þétt fuglavarp, meðal annars í mörgum eyjum, er víða fyrir bí eftir tilkomu minksins. Það ríkir nokkuð almenn sátt um það markmið að best væri að losna við minkinn úr náttúru Íslands.

Það verkefni hefur reynst þrautin þyngri. Ríki og sveitarfélög hafa lagt til yfir einn milljarð króna til minkaveiða á liðnum áratugum, en minkurinn hefur náð að breiðast um allt land og festa sig í sessi. Því fer fjarri að hægt sé að segja að vinnu og fjármunum til minkaveiða hafi verið kastað á glæ, því víða hefur tekist að draga úr tjóni af hans völdum með veiðum og halda stofninum í skefjum að minnsta kosti staðbundið. Því er samt ekki að neita að við hljótum að spyrja okkur hvort við getum gert betur, hvort mögulegt sé að útrýma mink á Íslandi með samstilltu átaki, eða í það minnsta að nýta fjármuni á markvissari hátt – hámarka árangur veiða og lágmarka skaðann sem minkurinn veldur.

Tilraunaverkefni um staðbundna útrýmingu minks á Snæfellsnesi og í Eyjafirði er nú að ljúka og við erum að fá mynd af árangri þess. Ráðstefnan hér í dag mun kynna árangur þessa verkefnis og leitast við að draga fram lærdóma af því, þótt ekki sé búið að greina allar niðurstöður á vísindalegan hátt og ganga frá lokaskýrslu um þann þátt. Mér sýnist þó að við stöndum nægilega vel að vígi til að velta upp næsta skrefi, sem er að skoða hvort stjórnvöld – bæði ríki og sveitarfélög – eigi að breyta á einhvern hátt fyrirkomulagi minkaveiða. Við munum varla fá einhlíta niðurstöðu í þeim efnum hér í dag. Við munum væntanlega heldur ekki fá nákvæmt svar um hvort við getum útrýmt mink á Íslandi og hvað það muni kosta nákvæmlega. Þessi ráðstefna markar vatnaskil í átaksverkefninu og er hluti af lokafasa þess, en hún er líka upphaf endurnýjaðrar umræðu um fyrirkomulag minkaveiða.

Ég mun biðja umsjónarnefnd átaksverkefnisins að koma með tillögur að næstu skrefum í þeirri umræðu jafnframt því sem hún skilar af sér niðurstöðum verkefnisins og mati á árangri þess. Pallborðið á eftir, sem á að velta fyrir sér framtíðinni, er því jafn mikilvægt fyrir markmið þessarar ráðstefnu eins og kynningarnar á átaksverkefninu og niðurstöðum þess. Það er mikilvægt að heyra sjónarmið allra sem koma að þessum málum – veiðimanna, vísindamanna, stofnana, sveitarfélaga og hagsmunaaðila.

Það er mikilvægt að fá rýni og gagnrýni, en við megum ekki missa sjónar af því markmiði sem við eigum öll sameiginlegt: Að lágmarka tjón af völdum minks og skoða möguleika á útrýmingu hans staðbundið og helst á landsvísu. Gildi verkefnisins er ekki einungis fólgið í niðurstöðum þess og árangri veiðanna, heldur líka í því að það var og er vettvangur til að stilla saman strengi í hertri sókn gegn minknum.

Saga minksins sýnir okkur gildi þess að sýna forsjá með kappi og gæta varúðar í umhverfismálum. Ég vil styrkja ákvæði náttúruverndarlaga sem miða að því að koma í veg fyrir innflutning á ágengum framandi tegundum, sem geta valdið usla í vistkerfinu og skaða fyrir okkur sem byggjum og nytjum landið. Aukin krafa um umhverfisvernd er oft kynnt í umræðunni á Íslandi sem hindrun í vegi framfara. Ég lít svo á að hún snúist fyrst og fremst um að gera hlutina vel og með fyrirhyggju, sem komi bæði framkvæmendum og samfélaginu til góða til lengri tíma.

Hvað minkinn varðar, þá spólum við ekki til baka um 80 ár, heldur þurfum að skoða hvernig við getum unnið best úr þeirri stöðu sem við erum í nú. Mér sýnist fljótt á litið að árangur átaksins ætti að vekja okkur bjartsýni. Það hefur tvímælalaust náðst verulegur árangur á svæðunum tveimur við að fækka mink og jafnvel nær útrýma honum í Eyjafirði. Við höfum betri þekkingu nú en fyrir átakið, bætt kerfi skráningar, aukna reynslu veiðimanna sem tóku þátt í átakinu og betri forsendur fyrir nánu samstarfi þeirra sem koma að rannsóknum og veiðum á mink. Ég hlakka til að fá fullmótaðar niðurstöður verkefnisins í mínar hendur í kjölfar þessarar ráðstefnu, en ítreka að við þurfum ekki að bíða eftir því til að ræða næstu skref og að hér gefst tækifæri til að velta upp hugmyndum að bættu fyrirkomulagi minkaveiða í framtíðinni.

Takk fyrir,

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta