Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. mars 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp ráðherra á málstofu um sjófugla

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp við upphaf málstofu um sjófugla sem haldið var á Hótel Sögu 31. mars 2011.

Góðir gestir,

Líflegt sjófuglalíf er einn af mikilvægum mælikvörðum á sjálfbærni í umhverfinu. Fækkun sjófugla er vísbending um að eitthvað hefur farið úrskeiðis í náttúrunni og því mikilvægt að bregðast við þegar að við verðum þess áskynja.

Undanfarin ár hafa komið fram upplýsingar um afkomubresti hjá ýmsum tegundum sjófugla. Varp virðist hafa dregist saman, færri ungar hafa komist á legg og af og til fréttist af dauðum fugli á sjónum. Tölur um veiði á sjófugli endurspegla þetta ástand og hefur veiði minnkað verulega, einkum á lunda og langvíu. Undanfarin 2-3 ár hefur dregið verulega úr veiðisókn í lundaveiði í Vestmannaeyjum vegna hruns stofnsins fyrir suður og Vesturlandi, en þrátt fyrir minnkandi veiði virðist fækkunin halda áfram.

Mikilvægt er að rannsaka hvað veldur þessum breytingum svo hægt sé að bregðast við með réttum hætti.

Tilgangur þessa málþings er að varpa ljósi á það sem er að gerast í náttúrunni og í hafinu kringum landið og skoða hlutina í samhengi, s.s. loftslagsbreytingar, breytingar í hafinu, strauma, lífríki hafsins, og fuglastofnana og leita skýringa á þeim breytingum sem orðið hafa á veðurfari, í hafinu lífríkinu og þar á meðal í sjófuglastofnum við landið.

Umhverfisráðuneytið hefur undanfarin ár veitt styrki úr veiðikortasjóðnum til rannsókna á sjófuglum. Bæði hefur verið veitt styrkjum til rannsókna á lundastofninum og til þess að gera úttekt á stöðu bjargfuglastofna hér á landi. Þetta hefur meðal annars verið gert til þess að efla þekkingu á þessum tegundum og styrkja veiðistjórnun, sjálfbæra nýtingu fuglastofna og verndun þeirra. Það er grundvallaratriði fyrir umhverfisráðuneytið og stofnanir þess að hafa skýra mynd af þróun og ástandi fuglastofna til þess að mögulegt sé að grípa til viðeigandi ráðstafna ef veiðar eða aðrar athafnir mannsins leiða til þess að nýting er orðin ósjálfbær eða stofnar hrynja.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur unnið að því að bæta mat á stærð fuglastofna landsins en eldra mat er orðið 20 ára gamalt.

Það gefur auga leið, að miðað við þróunina undanfarin ár er 20 ára gamalt stofnstærðarmat engan veginn nógu gott þegar meta á sjáfbærni veiða og verndargildi stofnanna. Þetta er einkar mikilvægt fyrir þær fuglategundir sem Íslands ber sérstaka ábyrgð á vegna útbreiðslunnar, eins og lunda, álku, langvíu og ritu.

Góðir gestir,

Til þessa málþings er m.a. boðað með það fyrir augum að leita leiða til þess að bæta ástand fuglastofnanna hvort sem það er með bættri stjórnun fuglaveiða eða með öðrum aðgerðum.

Í skýrslunni „Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi“ sem gefin var úr árið 2008 og unnin af vísindanefnd um loftslagsbreytingar kemur fram að varpfuglum í sjófuglabyggðum við norðanvert Atlantshaf hafi fækkað. Þá virðist sem flestir sjófuglastofnar hafi farið minnkandi frá síðustu aldamótum. Ástæða fækkunar stuttnefju fyrir aldamótin hefur verið rakin til víðtækra umhverfisbreytinga í hafinu við landið eins og fækkun í vörpum tegunda lunda, langvíu, álku, og fýls á þessari öld. Einnig kemur fram að líkleg fækkun í sjófuglabyggðum við suður og vestur ströndina stafi af lægð sandsílastofnsins 2004-2006.

Það er því mikilvægt að hafa góðar upplýsingar um ástand fæðu fuglastofnanna þannig að hægt sé að leggja mat á hlut fæðunnar í þessum stofnstærðarbreytingum.

Við höfum á að skipa fjölda stofnana og sérfróðra og reyndra vísindamanna sem vinna að rannsóknum á náttúru landsins og áhrifum loftslagsbreytinga. Kraftar þeirra og þekking voru sameinaðir með góðum árangri í vinnu við skýrsluna um áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á Ísland. Ég tel slíka samvinnu mikilvæga og æskilegt að taka hana upp á fleiri sviðum. Til dæmis í tengslum við mat á ástandi og verndun og sjálfbærri nýtingu náttúrunnar í samræmi við þá vistkerfisnálgun sem aðildarríki samnings um líffræðilega fjölbreytni hafa samþykkt. Í henni felst m.a. að allir áhrifaþættir verði skoðaðir og að hagsmunaaðilar komi að málinu. Þannig mætti vega saman hagsmuni tengdum verndun og nýtingu sjófugla og fiskistofna og samspili við ferðamennsku og aðra nýtingu. Þessi aðferðafræði hefur verið útfærð sérstaklega á vegum Sjávarútvegs- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna FAO fyrir fiskveiðar og er notuð í einhverju mæli hér á landi en ég tel ástæðu til þess að beita þessari aðferðafræði á ítarlegri hátt og taka inn heildstæðara mat á áhrifum breytinga og ástandi lífríkisins og náttúrunnar.

Við þurfum einnig að skoða þessi mál í víðara samhengi eins og gert var í fyrra þegar haldinn var Norrænn fundur á vegum nefnda Norrænu ráðherranefndarinnar um sjófuglastofnana í Atlantshafinu og nýta slíka vinnu til þess að efla okkar þekkingu og aðgerðir.

Góðir gestir,

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka framsögumönnum hér í dag fyrir þeirra framlag. Það er von mín að þetta málþing verði til þess að fram komi hugmyndir og tillögur um það hvernig við getum brugðist við þessum breytingum til þess að tryggja viðgang, verndun og nýtingu sjófuglastofnanna við landið til frambúðar.

Takk fyrir.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta