Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. apríl 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfsráðherra við opnun á „Sagnagarði“ Landgræðslunnar í Gunnarsholti

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, flutti eftirfarandi ávarp við opnun á Sagnagarði, fræðslu- og kynningarsetri Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti 28. apríl 2011. 

Landgræðslustjóri, góðir gestir,

Það er mér mikill heiður að fá að opna hér nýjan þátt í starfi Landgræðslunnar - Sagnagarð hér í Gunnarsholti.

Það er jafnframt ánægjulegt að koma hingað í gróandann austur á Rangárvelli, nú þegar loksins virðist vera raunverulegt vor í lofti eftir hryssingslega tíð. Á þessum tíma í fyrra gekk hins vegar mikið á hér á þessum slóðum, en þá voru í algleymingi hamfarirnar í nágranna ykkar hér í austri, Eyjafjallajökli. Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur hjá Landgræðslunni fyrir ykkar þátt í viðbrögðunum við náttúruhamförunum, sem skiptu afar miklu máli.

Það er stundum sagt að með skilningi á fortíðinni sé fólginn lykill að framtíðinni. Sagnagarðurinn, sem hér er opnaður í dag, er að einhverju leiti slíkur lykill.

Sú ósjálfbæra landnýting sem hér var stunduð um aldir leiddi af sé gróður- og jarðvegseyðingu, sem á sér ekki líka um allt norðurhvel jarðar. Með lagasetningu árið 1907 og síðan stofnun Landgræðslu ríkisins var mótuð sú stefna stjórnvalda að takast á við eyðingaröflin og að byggja upp gróður- og jarðvegsauðlindir landsins. Barátta sem stendur enn.

Saga landgræðslu á Íslandi er saga baráttu við vantrú og allt að því óyfirstíganlega erfiðleika, en jafnframt glæstra sigra við erfiðar aðstæður sem nú eru að koma betur og betur í ljós.

Landgræðsla ríkisins er sú stofnun stjórnvalda sem leiðir þetta starf. Gerir hún það meðal annars með verkefnum sem hvetja og stuðla að landbótaaðgerðum, skipulagningu á grasrótarstarfi á sviði landbóta, aflar upplýsinga um landkosti, og miðlar til allra þeirra fjölmörgu Íslendinga sem vilja leggja græna hönd á plóginn við að endurreisa landkosti. Hefur þetta starf verið afar árangursríkt. Landgræðslan starfar hins vegar eftir gamalli löggjöf sem endurspeglar ekki nægjanlega vel þessi nýju viðhorf, en lengi hefur verið kallað eftir endurnýjun á landgræðslulöggjöfinni. Það er því viðeigandi að segja frá því hér, að ég hef ákveðið að setja að stað vinnu við endurskoðun landgræðslulaganna, með það að markmiðið að styrkja landgræðslustarfið til framtíðar. Hefur þegar verið skipaður starfshópur til þess mikillvæga verkefnis.

Góðir gestir,

Opnun þessarar glæsilegu aðstöðu hér í Sagnagarði er mikilvæg til að miðla reynslu og þekkingu til þjóðarinnar og erlendra gesta, um landsgræðslustarfið í landinu. Með þessu hefur Landgræðslan tekið stórt skref til að kynna gestum og gangandi orsakir og afleiðingar af eyðingu og endurreisn þessara auðlinda landsins. Það er jafnframt sérstaklega brýnt að miða fræðslu, eins og hér er gert, fyrir yngri kynslóðirnar sem erfa landið.

Árlega sækja þúsundir gesta Landgræðsluna í Gunnarsholti heim og hér í Sagnagarði mun því væntanlega heimsókn þeirra hefjast. Héðan hafa verið skipulagðir göngustígar á marga áhugaverða staði, sem sýna hið einstæða afrek að endurheimta þetta land hér á Rangárvöllum úr klóm sandsins.

Ég óska Landgræðslunni og öllum aðstandendum þessarar glæsilegu aðstöðu hjartanlega til hamingju og lýsti hér með Sagnagarð Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti formlega opnaðan.

Takk fyrir,

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta