Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. maí 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra á afmælisráðstefnu SORPU 2011

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ávarpaði gesti með eftirfarandi orðum á ráðstefnu sem haldin var í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu 20. maí 2011 í tilefni af 20 ára afmæli Sorpu bs.

Ráðstefnustjóri, starfsfólk og stjórn Sorpu, ágætu ráðstefnugestir,

Það er mér sértök ánægja að fá að ávarpa ykkur hér í dag á þessari afmælisráðstefnu sem haldin er í tilefni af 20 ára afmæli SORPU bs.

Á vorin útskrifast mörg tvítug ungmenni og horfa fram á veginn, mótuð af reynslu uppvaxtarára sinna. Þau er samt svo ung, full eftirvæntingar, hugmyndarík, og eru tilbúin að takast á við ný og spennandi verkefni. Já þau líta eflaust mörg fram á veginn en hugsa um leið til baka yfir farinn veg. Ég get ímyndað mér að líkt sé ástatt hjá Sorpu sem fyrir tveimur áratugum tók sín fyrstu skref en hefur síðan þá dafnað og þroskast, verið virk í að móta þann málaflokk sem fyrirtækið starfar að og verið meira en tilbúin að hrinda nýjum og ferskum hugmyndum í framkvæmd.

Tilkoma Sorpeyðingar höfuðborgarsvæðisins á sínum tíma hefur átt mikinn þátt í því að stuðla að breyttri meðhöndlun úrgangs og auka endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs hér á landi um leið og fyrirtækið hefur stuðlað að aukinni samvinnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem og annars staðar á landinu.

Frá því að umhverfisráðuneytið var stofnað árið 1990 og á starfstíma Sorpu bs. hafa átt sér stað stórstíga framfarir í meðhöndlun úrgangs hér á landi. Fyrir árið 1990 voru ekki gerðar sérstakar kröfur til staðsetningar, reksturs eða frágangs urðunarstaða. Markvissar upplýsingar um magn og gerð úrgangs verða ekki til fyrr en Sorpa tekur til starfa og í framhald af því hófu önnur sveitarfélög að vigta og skrá úrgang. Umhverfisráðuneytið hóf strax í upphafi að vinna að úrgangsmálum og setja reglur á því sviði og var starfsleyfi Sorpu fyrir móttökustöð í Gufunesi og urðunarstað í Álfsnesi fyrsta „nútíma“ starfsleyfið á þessu sviði. Þó enn sé verk að vinna ber að fagna þeim árangri sem náðst hefur í úrgangsmálum hér á landi sl. tvo áratugi. Mikil aukning hefur átt sér stað í endurnýtingu úrgangs og má sem dæmi nefna að á árinu 1995 var um 12% úrgangs endurnýttur, um 25% árið 2002 og árið 2008 var hlutfallið komið í rúm 60%.

Sveitarfélög bera ábyrgð á framkvæmd úrgangsmála og skal hver sveitarstjórn ákveða fyrirkomulag söfnunar og flutnings á heimilis- og rekstrarúrgangi í sínu sveitarfélagi, auk þess að sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir þann úrgang sem til fellur. Þá skulu sveitarstjórnir semja og staðfesta áætlun um meðhöndlun úrgangs. Góð samvinna hefur tekist milli sveitarfélaga í þessum efnum og má sem dæmi nefna samvinnu fjögurra sorpsamlaga, þ.á.m. Sorpu bs., um gerð svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs sem nær yfir starfssvæðið frá Gilsfjarðarbotni í vestri og að Markarfljóti í austri.

Að undanförnu hefur mikil umræða farið fram um framkvæmd úrgangsmála, m.a. í kjölfar mengunar frá eldri

sorpbrennslustöðvum. Í janúar sl. óskaði ég eftir því við Ríkisendurskoðun að hún gerði úttekt á forsendum, skilyrðum og eftirfylgni aðlögunar frá tilskipun EB um brennslu úrgangs sem Ísland fékk fyrir starfandi sorpbrennslur hér á landi árið 2003. Skýrsla Ríkisendurskoðunar um málið var birt í liðinni viku og er skýrslan þýðingarmikið innlegg í vaxandi umræðu um meðferð úrgangs og mengunar hér á landi en síðast en ekki síst er hún mikilvæg áminning til okkar allra sem eru kjörnir fulltrúar sem og þeirra sem starfa í umboði almennings að ávallt þurfa hagsmunir heildarinnar að vera í fyrirrúmi í okkar störfum og ákvarðanatöku.

Í skýrslunni koma fram mikilvægar ábendingar til umhverfisráðuneytisins m.a. um það sem betur hefði mátt fara í eftirfylgni með mengunareftirliti Umhverfisstofnunar með starfsemi sorpbrennslustöðva, um nauðsyn þess að styðja við faglegt starf Umhverfisstofnunar, um stefnumörkun í úrgangsmálum og um eftirfylgni ráðuneytisins þegar kom að endurskoðun aðlögunarinnar.

Ráðuneytið tekur ábendingar Ríkisendurskoðunar alvarlega og mun vinna úr þeim auk þess að fylgja því eftir að ábendingar sem fram koma í skýrslunni nái fram að ganga. Umhverfisráðuneytið hefur þegar óskaði eftir upplýsingum frá Umhverfisstofnun um hvernig einstök fyrirtæki hafa uppfyllt starfsleyfisskilyrði sín fyrir mengandi starfsemi. Þá mun ráðuneytið fara með Umhverfisstofnun yfir þvingunarúrræði sem hún hefur í því skyni að styrkja framkvæmd mengunarvarnalöggjafarinnar og skoða leiðir til að styrkja lagagrunn eftirlitsins svo sem með upptöku stjórnvaldssekta vegna mengunarbrota.

Eftirlit með mengandi starfsemi, umhverfisvöktun og upplýsingagjöf þarf að nálgast með nýrri hugsun og mikilvægt er að styrkja vöktun umhverfisins.

Vaxtarbroddar í íslensku atvinnulífi tengjast margir ímynd hreinleika og umhverfisverndar. Þessi ímynd verður að vera byggð á staðreyndum. Framkvæmd úrgangsmála þarf að vera trúverðug og almenningur þarf að eiga aðgang að upplýsingum um þessi mál. Almenningur verður að geta treyst því að stjórnmálamenn, stofnanir og fyrirtæki sem starfa annað hvort í umboði almennings eða byggja afkomu sína á þjónustu við almenning hafi ávallt hagsmuni þeirra þ.e. heildarinnar að leiðarljósi.

Í endurskoðaðri landsáætlun um meðhöndlun úrgangs sem mun líta dagsins ljós síðar á þessu ári mun ráðuneytið leggja áherslu á trausta framkvæmd úrgangsmála þannig að leikreglur verði skýrari og meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfi og heilsu, jafnframt því að draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu hans. Í þessu sambandi má nefna að hafinn er undirbúningur í ráðuneytinu að endurskoðun laga og reglna um meðhöndlun úrgangs. Ráðuneytið mun m.a. leita eftir samráði og samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga við þá vinnu.

Það er mikilvægt að draga úr myndun úrgangs og auka endurnýtingu þess úrgangs sem myndast. Úrgangur er hráefni sem á að nýta.

Markmið okkar allra hlýtur að beinast að því að gera jörðina okkar betri og umgangast hana í anda sjálfbærrar þróunar. Við berum ábyrgð gagnvart hvert öðru og við berum ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum. Allar athafnir okkar hafa áhrif á umhverfið og úrgangur mun fylgja okkur um ókomna tíð.
Hver og einn hefur áhrif og ber ábyrgð. Ríki, sveitarfélög og stofnanir þeirra og fyrirtæki geta haft mikil áhrif á umhverfið. Það er því ánægjulegt að geta sagt frá því að frá upphafi hefur Sorpa lagt áherslu á upplýsingar og fræðslu, m.a. með lifandi heimasíðu, fræðsluefni fyrir börn og unglinga og tekið á móti nemendum og öðrum hópum til að kynna þeim starfsemi sína og hvað hver og einn getur gert til að draga úr mengun frá útgangi.

Til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum er árangursríkt að stýra stofnunum og fyrirtækjum í átt að vistvænni innkaupum og taka upp gæða- og umhverfisstefnu.

Innleiðing á vistvænni innkaupastefnu ríkisins hófst árið 2010. Hún fer þannig fram að innkaupastjórar stofnana fá ráðgjöf um það hvernig sé hægt að stunda vistvæn innkaup. Stofnanir eru hvattar til að setja sér mælanleg markmið og gera vistvæn innkaup að hluta af venjulegum hversdagsinnkaupum.

Það er samt ekki nóg að einn einstaklingur á hverjum vinnustað fái fræðslu eða stuðning. Við breytum ekki viðteknum venjum nema allir starfsmenn, þ.e. hver og einn, átti sig á af hverju breytingarnar eru mikilvægar og sjái tilganginn með þeim. Þess vegna er öllum starfsmönnum stofnana boðið upp á stutt örnámskeið um mikilvægi umhverfismála í tengslum við innkaup og neyslu. Þetta hefur gefist vel og ljóst er að stofnanir eru afar áhugasamar um umhverfismál almennt og þakklátar fyrir veittan stuðning. Æskilegt er að nota svipaða nálgun við að draga úr myndun úrgangs, auka flokkun og stuðla að endurnýtingu. Það er því mjög ánægjulegt að Sorpa hafi náð þeim árangri að fá viðurkenningu fyrir vottað gæðastjórnunarkerfi, viðurkenningu sem verður afhent hér á eftir auk þess sem Sorpa stefnir að því að taka upp vottað umhverfisstjórnunarkerfi.

Góðir gestir.

Það eru fjölmargar áskoranir sem bíða okkar á næstunni við að bæta árangur í söfnun, flokkun og endurvinnslu úrgangs. Vissulega eru oft skiptar skoðanir um hvaða leiðir er best að fara og misjöfn sýn manna á það hvernig farsælast er að leysa þessi verkefni af hólmi. Það er ljóst að leiðirnar eru margar. Það þarf að skoða þessi mál í samhengi og hafa í huga aðstæður hér á landi við val þeirra leiða sem við förum.

Umhverfisráðuneytið mun hér eftir sem hingað til leitast við að hafa sem best samráð við þá aðila sem hagsmuni eiga að gæta og besta þekkingu hafa á þeim málum sem verið er að vinna með í ráðuneytinu á hverjum tíma. Þannig tekst okkur að feta okkur áfram þær leiðir sem best munu gagnast okkur öllum

Nú er Sorpa orðin fullorðin. Æskusporin eru að baki og mikið vænst af afmælisbarninu. Ég er sannfærð um að stjórnendur og starfsfólk Sorpu munu hér eftir sem hingað til leggja mikinn metnað í vinnu á sviði sorphirðumála hér á höfuðborgarsvæðinu.

Ég óska, stjórn Sorpu og starfsfólki, svo og þeim sveitarfélögum sem að byggðasamlaginu standa hjartanlega til hamingju með tvítugs afmælið og óska ykkur farsældar í störfum ykkar í framtíðinni.

Góðar stundir.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta