Ávarp umhverfisráðherra á vorráðstefnu NAUST
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp við setningu vorráðstefnu NAUST um náttúruvernd og skipulag og haldin var á Djúpavogi 4. júní 2011.
Ágæta náttúruverndarfólk,
Það er mér mikil ánægja að setja Vorráðstefnu Náttúruverndarsamtaka Austurlands hér á Djúpavogi.
Þann 10. febrúar síðastliðinn var ég á Djúpavogi í þeim erindum að staðfesta friðlýsingu búsvæðis tjarnaklukku sem er á Hálsum ofan við bæinn. Tjarnaklukkan er aðeins þekkt á þessum eina stað á landinu og er friðlýsing hennar sérstök þar sem þetta er í fyrsta skipti sem tekið er frá búsvæði smádýrs í þágu náttúruverndar.
Áður eða árið 1975 var Teigarhorn friðlýst vegna sérstakra jarðmyndana - geislasteina sem þar er að finna. Ófá sýni af geislasteinum frá Teigarhorni er að finna á helstu náttúrugripasöfnum í Evrópu og víðar. Á Teigarhorni er einnig hús Weyvadts kaupmanns sem byggt var á árunum 1880-1882 og er verndað, en þar hefur m.a. verið varðveitt skrifstofa kaupmannsins eins og hún var í hans tíð. Frá Teigarhorni var Nikoline Weyvadt fyrsti lærði kvenljósmyndari landsins en eftir hana liggur afar merkilegt ljósmyndasafn.
Hér á Vorráðstefnu NAUST verður lögð áhersla á náttúruvernd og skipulag og er það vel þar sem í aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 – 2020 er áhersla lögð á þá auðlind sem verndun getur haft fyrir samfélagið. Óhætt er að fullyrða að fá sveitarfélög hér á landi hafa jafn metnaðarfulla stefnu í umhverfis- og friðlýsingarmálum.
Vilji og áhugi sveitarfélagsins, eins og fram kemur í aðalskipulaginu, er mikill en þar er m.a. lagt til að vernda 15 svæði, 12 í dreifbýlinu og þrjú innan marka Djúpavogs. Meðal þess sem lagt er til að vernda eru berggangar og klettaborgir eins og Borgargarðsklettur, Rakkaberg og Sauðkambur. Einnig eru á listanum Tröllatjörn sem þykir mikið náttúruundur og Vígðilækur sem talið er að Guðmundur góði Arason hafi vígt. Þá er einnig rétt að benda á að í skipulaginu kemur fram að sveitarstjón Djúpavogshrepps hyggst leggja fram tillögu um að friðlýsa 36 svæði innan marka sveitarfélagsins á grunni þjóðminjalaga.
Ég hvet ykkur til að kynna ykkur þetta metnaðarfulla aðalskipulag Djúpavogshrepps.
Djúpivogur og næsta nágrenni er afar mikilvægt fuglasvæði og eru hér mörg mikilvæg búsvæði fugla og afar mikilvægur viðkomustaður margra fuglategunda. Farfuglarnir koma í stórum hópum að landinu á vorin og hefur verið mikill áhugi meðal heimamanna og fuglaáhugamanna á bættu aðgengi að fuglaskoðun. Til að auðvelda þeim fuglaskoðun á svæðinu hefur m.a. verið reist fuglaskoðunarhús við vötnin á Búlandsnesi en þar er afar fjölbreytt fuglalíf.
Fuglarnir, geislasteinarnir og tjarnaklukkan endurspegla náttúrufar, menningarminjar og sögu svæðisins í heild sem allt hefur aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Það er umhverfið með ríkum náttúru- og menningarminjum sem laðar að ferðamenn, ljósmyndara, fuglaskoðara og aðra áhugasama gesti til Djúpavogs og er afar ánægjulegt að sveitarfélagið lítur á náttúruverndina sem auðlind.
Góðir fundarmenn
Eins og mörgum er kunnugt um hefur verið í gangi vinna við endurskoðun laga um náttúruvernd og hefur sú vinna að meginefni til skipts í tvo þætti.
Í fyrsta lagi hefur nefndin lagt fram tillögu um frumvarp til laga um breytingar á náttúruverndarlögum sem ég mun mæla fyrir á Alþingi í september nk. Er um að ræða breytingu á 37. gr. laganna um sérstaka vernd og 17. grein um bann við akstri utan vega en þessi ákvæði hafa ekki verið nægilega afgerandi þegar á þau hefur reynt og þar af leiðandi hafa markmið með setningu þeirra ekki náð fram að ganga. Í öðru lagi hefur nefndin unnið að hvítbók sem hún mun skila mér í sumar. Í henni er fjallað um núgildandi náttúruverndarlöggjöf, hvernig hún hefur virkað í framkvæmd auk þess sem nefndin leggur fram tillögur um breytingar á henni. Þessi aðferð að vinna hvítbók sem undirbúning löggjafar er í samræmi við það sem þekkist á Norðurlöndum með svokölluðum SOU og NOU skýrslum og í samræmi við tillögu Rannsóknarnefndar Alþingis um að hugað verið betur að undirbúningi löggjafar.
Um áramótin síðustu tóku gildi ný skipulagslög og er þar fjöldi nýmæla. Markmið laganna er að auka skilvirkni, sveigjanleika og gæði við gerð skipulags ásamt því að gert er ráð fyrir aukinni þátttöku almennings við gerð skipulagsáætlana. Eitt af mikilvægum nýmælum í lögunum er gerð landsskipulagsstefnu þar sem stjórnvöldum er ætlað að móta heildstæða sýn í skipulagsmálum.
Skipulagslög og náttúruverndarlög gegna þýðingarmiklu hlutverki í allri ákvarðanatöku um ráðstöfun lands. Land er auðlind og við ráðstöfun lands þarf að horfa til þess hvaða auðlind við erum að ráðstafa og til hvers, þ.e. hverju erum við að fórna. Óhætt er að fullyrða að hagsmunir náttúru hafa ekki alltaf ráðið för í ákvarðanatöku um nýtingu lands. Ég tel þó að það sé að breytast og þar hjálpar vissulega til ný og betri löggjöf í til að mynda Skipulagsmálum. En breytingarnar hafa ekki síst orðið vegna ötullar baráttu náttúruverndarsinna sem hafa aldrei gefist upp heldur tekið afstöðu með náttúrunni, staðið vaktina fyrir hana, fyrir okkur öll og síðast en ekki síst komandi kynslóðir.
Ég óska Náttúruverndarsamtökum Austurlands og ráðstefnugestum góðrar og árangursríkrar ráðstefnu og ánægjulegrar dvalar hér á Djúpavogi.
Takk fyrir,