Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. júní 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra við opnun hliðs að austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra opnaði formlega nýtt hlið að austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs 21. júní 2011 og ávarpaði gesti af því tilefni með eftirfarandi orðum.

Stjórn og starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs, Vinir Vatnajökuls, heimamenn og gestir.

Það er mér mikil ánægja að vera með ykkur hér í dag til að opna með formlegum hætti þetta myndarlega hlið að austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Það á sérstaklega vel við að um er að ræða vörður, en frá fornu fari hafa vörður vísað ferðamanninum rétta leið á milli áfangastaða.

Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, stærsta þjóðgarðs í Evrópu, voru mörkuð ný spor í náttúruvernd þar sem um er að ræða eitt stærsta og metnaðarfyllsta átak í náttúruvernd á Íslandi.

Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs byggir fyrst og fremst á náttúru svæðisins sem er fjölbreytt og um margt afar sérstök. Sérstæðustu náttúrufyrirbærin tengjast með einum eða öðrum hætti samspili eldvirkni og jökla í tímans rás og eru þau einstök á heimsmælikvarða.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur bar á sínum tíma svæði þjóðgarðsins saman við sjö önnur hliðstæð svæði í heiminum og taldi hann svæði Vatnajökulsþjóðgarðs það fjölbreytilegasta og um leið það merkilegasta sem um getur.

Eftir því sem vitneskja um sérstöðu Vatnajökulsþjóðgarðs eykst má gera ráð fyrir því að heimsóknum í hann eigi eftir að fjölga verulega þegar fram líða stundir. Það bíður okkar því mikið verkefni að taka á móti og fræða gesti sem hingað munu koma í vaxandi mæli um náttúru svæðisins.

Áhugi Íslendinga hefur verið mikill á Vatnajökulsþjóðgarði og hefur þjóðgarðurinn notið stuðnings einstaklinga og félagasamtaka.

Ég vil sérstaklega nefna hollvinasamtökin Vini Vatnajökuls sem stofnuð voru þann 21. júní 2009 og hafa það að markmiði sínu að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslustarf er stuðli að því að sem flestir geti notið þeirrar náttúru og sögu sem þjóðgarðurinn hefur að geyma. Framlag Vina Vatnajökuls og annarra áhugamanna um þjóðgarðinn er ómetanlegur stuðningur við vernd náttúru- og menningarminja, fræðslu og kynningu á Vatnajökulsþjóðgarði.

Það er almennt viðurkennt að þar sem skipulag ferðaþjónustu og náttúruverndar fer saman og byggir á grunni sjálfbærrar nýtingar er unnt að viðhalda verndargildum verndarsvæða.

Skipulag Vatnajökulsþjóðgarðs tekur mið af slíku skipulagi eins og kynnt hefur verið í Stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs sem staðfest var 28. febrúar síðastliðinn.

Verndarsvæði eins og Vatnajökulsþjóðgarður er mikilvægur liður í byggðaþróun og uppbyggingu heima í héraði. Þar skapast störf t.d. í móttöku gesta, fræðslu, vöktun, rannsóknum og eftirliti. Einnig mun sjálfbær ferðaþjónusta skapa störf til framtíðar sem styrkir og eflir byggð á grenndarsvæðum þjóðgarðsins.

Brýnt er að verndargildi verði haft að leiðarljósi við allt skipulag þjóðgarðsins, enda er gildi verndarsvæða sem þjóðgarða afar mikilvægt bæði fyrir náttúru svæðisins og fólkið sem sækir svæðið heim. Á svæðum sem þessum gefst fólki tækifæri til að njóta útiveru í fögru og stórbrotnu umhverfi, reyna á krafta og þol eða njóta öræfakyrrðar eitt sér eða með fjölskyldu og vinum. Það er hlutverk okkar og skylda að vernda og viðhalda tegundum, vistgerðum, landslagi og jarðmyndunum fyrir íbúa og þá sem á eftir koma.

Góðir gestir

Það er mér mikil ánægja að upplýsa að þjóðgarðurinn stækkar verulega á næstunni þar sem Langisjór og nágrenni verður hluti þjóðgarðsins á vestursvæði, en nýlega náðist samkomulag við sveitarstjórn Skaftárhrepps þar að lútandi. Ný reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð verður því birt fljótlega. Á suðursvæði hefur sveitarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar óskað eftir samvinnu við umhverfisráðuneytið um stækkun og verður unnið að verkefninu í sumar.

Ég óska Vatnajökulsþjóðgarði og starfsfólki hans velfarnaðar í þeirri vinnu sem framundan er við að gera þjóðgarðinum kleift að sinna því mikilvæga hlutverki sem honum er ætlað.

Takk fyrir

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta