Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. september 2011 Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra - Afhending fjölmiðlaverðlauna 2011

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp við afhendingu fjölmiðlaverðlauna umhverfisráðuneytisins 2011 á hátíðarsamkomu sem haldin var í dag 16. september 2011 á Degi íslenskrar náttúru. 

Ágætu hátíðargestir – gleðilega hátíð!

Í aldanna rás hefur íslensk náttúra gefið okkur kraft og veitt innblástur. Þetta endurspeglast vel í kvæði Jónasar Hallgrímssonar sem Kór Menntaskólans við Hamrahlíð flutti okkur svo fallega hér í upphafi.

Náttúra landsins gegnir lykilhlutverki í sjálfsmynd okkar sem þjóðar, í menningu okkar, efnahags- og atvinnulífi, ferðamennsku og afþreyingu. Það er mér því sérstök ánægja að bjóða ykkur velkomin á þessa hátíðarsamkomu þegar Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn.

Íslenska þjóðin hefur frá örófi alda nýtt efnisleg gæði náttúrunnar og þannig lifað af í harðbýlu landi. Það er ekki síst á þessum árstíma sem náttúran er hvað örlátust á þessi gæði og það rennur upp fyrir okkur hvílíkt forðabúr hún er þar sem við röltum um skóga og móa til að viða að okkur sveppum og berjum fyrir veturinn. Við uppskerum líka grænmeti, tökum upp kartöflur og göngum frá veiði sumarsins á sama tíma og bændur safna fé af fjalli. Þetta hafa formæður og –feður okkar gert í aldanna rás, rétt eins og við gerum nú. Þetta sýnir okkur í hnotskurn hversu lífsnauðsynlegu hlutverki náttúran gegnir fyrir okkur öll.

En náttúran hefur svo miklu meira að bjóða. Íslendingar eru stoltir af því að sýna gestum einstaka náttúru landsins. Í því felst einnig mikilvæg tekjulind en sú staðreynd hefur orðið æ fyrirferðarmeiri á undanförnum árum með stórauknum fjölda ferðamanna sem sækja okkur heim. Um leið leggur slík nýting náttúrunnar enn ríkari skyldur á herðar okkur við að vernda hana og varðveita.

Með því að tileinka íslenskri náttúru sérstakan heiðursdag er mikilvægi hennar undirstrikað um leið og við erum minnt á hversu mikils virði hún er okkur Íslendingum sem þjóð. Áminning af því tagi er okkur nauðsynleg og holl, enda hefur afstaða manna til náttúrunnar löngum borið sterkan keim af því siðfræðilega viðhorfi sem kennt er við mannhyggju. Sú sýn leiðir af sér að náttúran og afurðir hennar séu fyrst og fremst metnar út frá rétti og hagsmunum mannsins.

Í seinni tíð hefur það viðhorf fengið aukið vægi að náttúran eigi sjálfstæðan rétt og hafi sjálfstæða stöðu, óháð tengslum við manninn og umhverfi hans. Þetta viðhorf er ekki aðeins rökrétt heldur virðist augljóst þegar við höfum í huga að náttúran getur lifað án mannsins en maðurinn ekki án náttúrunnar. Slík auðmýkt í nálgun okkar að náttúrunni er nauðsynleg eigum við að bera gæfu til að ganga ekki á möguleika komandi kynslóða til að njóta hennar á sama hátt og við höfum fengið að gera.

Aukinn þungi í umræðu um umhverfis- og náttúruverndarmál á Íslandi sýnir að Íslendingar eru smám saman að opna augun fyrir þessu. Hreint loft, ósnortin víðerni, mjúkur mosi, hvítir jöklar og fallandi fossar eru ekki sjálfgefin gæði. Sem betur fer erum við smám saman að átta okkur á því að við þurfum að standa vörð um náttúruna og ganga um hana með varkárni og virðingu.

Dagur íslenskrar náttúru ber upp á fæðingardag Ómars Ragnarssonar. Sem frétta- og þáttagerðarmaður hefur hann verið óþreytandi við að opna augu almennings fyrir þeim auðæfum sem felast í náttúru landsins og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita. Stundum hefur Ómar þurft að synda á móti straumnum í þeirri vegferð eins og svo margir sem hafa í gegnum tíðina tekið stöðu með náttúrunni. Það er ósk mín að Dagur íslenskrar náttúru megi verða til þess að halda þeim kyndli á lofti og brýna okkur öll í þeirri afstöðu

Í dag fögnum við Degi íslenskrar náttúru í fyrsta sinn í sögunni. Ég vona að þessi dagur fái sérstakan heiðurssess í huga þjóðarinnar í framtíðinni. 16. september 2011 er fyrsti dagurinn sem sérstaklega er tileinkaður náttúru Íslands en um leið áminning um að við þurfum að standa vörð um hana alla daga og öll ár.

Innilega til hamingju með daginn!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta