Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. september 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp á ráðstefnunni Umhverfisvottað Vesturland

Andrés Ingi Jónsson aðstoðarmaður umhverfisráðherra flutti ávarp fyrir hönd ráðherra á ráðstefnunni Umhverfisvottað Vesturland sem haldin var í Borgarnesi 22. september 2011.

Fundarstjóri, góðir ráðstefnugestir

 Ég vil fyrir hönd umhverfisráðherra þakka kærlega að vera boðið að ávarpa ykkur hér í dag. Færi ég ykkur bestu kveðjur frá Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra sem því miður hafði ekki færi á að vera með okkur hér í dag. Hún sendir hins vegar sínar bestu árnaðaróskir um gagnlega og fræðandi ráðstefnu um efni sem henni eru afar hugleikin.  

Góðir gestir,

Það er sannarlega áhugaverð og metnaðarfull dagskrá sem hér er framundan. Þið hittið algerlega naglann á höfuðið með yfirskrift þessa fyrsta hluta ráðstefnunnar:

Umhverfismál, mál málanna!

Umhverfismál eru nefnilega mál málanna sem verða að fá vaxandi áherslu og þunga í samfélaginu. Það er einfaldlega þannig að allt líf á jörðinni og þar með okkar tilvera og velsæld til lengri og skemmri tíma byggir á því að við göngum um umhverfi okkar af ábyrgð, virðingu og vitund um kynslóðir framtíðarinnar. Okkur ber samkvæmt öllum skynsamlegum rökum að ganga þannig um umhverfi okkar og auðlindir það spillist ekki heldur færist áfram til komandi kynslóða. Jafnframt þurfum að nýta alla okkar þekkingu og getu til að bæta fyrir þann ágang á umhverfið, sem orðið hefur undanfarna áratugi – ef ekki aldir. Umhverfið er sameign okkar allra – ekki okkar sem lifum hér í dag heldur jafnframt komandi kynslóða – og umgengni hvers og eins þarf að miðast við það. Umhverfismál eru sannarlega mál málanna eins og þið segið og eitt mest krefjandi viðfangsefni samtímans. Því vil ég ítreka þakkir til ykkar - skipuleggjenda þessarar ráðstefnu og annarra sem þátt taka - fyrir að leggja lóð á vogaskálar aukinnar umræðu og meðvitundar um umhverfismál.      

Ráðstefnan hér í dag er með áherslu á mikilvægan og ört vaxandi þátt umhverfismála – umhverfisvottanir. Slíkar vottanir voru lengi fyrirferðarlitlar á Íslandi, en nú síðustu ár hefur þar orðið mikil breyting í jákvæða átt. Hins vegar er mikið enn óunnið á því sviði og því nauðsynlegt að efla umræðu um styrkleika og veikleika þessara vottana sem innleiddar hafa verið hér á landi, efla þetta starf og ýta við fleirum til að gera betur.  

Vil ég víkja stuttlega að nokkrum helstu umhverfisvottunum sem hér eru notaðar.  

Norræna umhverfismerkið Svanurinn er rekið sameiginlega af norrænu ríkjunum fimm í gegnum Norrænu ráðherranefndina. Svanurinn telst opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og með því eru bæði vara og þjónusta vottuð. Hefur merkið unnið sér afar sterka stöðu bæði meðal framleiðenda og neytenda.

Að undanförnu hefur umhverfisyfirvöld lagt mikla áherslu á að efla Svansstarfið, bæði með virkir þátttöku í stefnumótun og styrkingu merkisins á norrænum vettvangi og eins hefur Umhverfisstofnum, sem fer með merkið hér á landi, eflt mjög sitt starf. Þetta hefur skilað sér í verulegri fjölgun Svansleyfa og aukinni meðvitund neytenda um merkið. Það er ríkur vilji umhverfisráðuneytisins að efla Svansstarfið áfram á komandi árum og taka virkan þátt í þróun þess á norrænum vettvangi. Jafnframt hefur Umhverfisstofnun unnið að metnaðarfullri stefnumörkun fyrir eflingu Svansins á næstu árum, sem umhverfisráðherra styður heilshugar. Er hægt að hafa töluverðar væntingar til þess að það skili miklu – bæði styrki atvinnulíf, auki umhverfisvitund neytenda og bæti þar með okkar sameiginlega umhverfi.

Jafnframt ber íslenskum stjórnvöldum að innleiða evrópska umhverfismerkið – Blómið – á grunni EES samningsins. Það merki er mun minna þróað og stendur á flestum sviðum aftar en hinn vel lukkaði norræni Svanur. Ísland hefur því, eins og hin norrænu ríkin, lagt mun minni áherslu á uppbyggingu þess. Hins vegar munu umhverfisyfirvöld fylgjast vel með þróun evrópska blómsins á komandi árum og sjá hver þróun þess verður.

Þá hefur verið eftirtektarvert hversu vel tekist til við umhverfisvottunina Grænfánann – sem veitt er skólum fyrir góðan árangur í umhverfismálum. Samtökin Landvernd annast vottunina hér á landi – og hafa þar sýnt mikið og jákvætt frumkvæði, þannig að skólum með Grænfánum hefur fjölgað jafnt og þétt.     

Náskyld umhverfisvottunum eru vottuð umhverfisstjórnunarkerfi fyrirtækja og stofnana. Þeim fyrirtækjum og stofnunum sem innleiða vottuð umhverfisstjórnunarkerfi – sérstaklega ISO 14001 staðalinn – verið að fjölga. Það er virkilega jákvæð þróun sem sprettur upp úr áhuga atvinnulífsins og stofananna sjálfs. Því má svo velta hér upp til umhugsunar hvernig stjórnvöld  geti hvatt þá þróun best áfram. Það má nefna að unnið er að innleiðingu slíks í rekstri umhverfisráðuneytisins.

Að síðustu eru þær vottanir sem við ætlum helst að fjalla um hér í dag - vottanir sveitarfélaga. Þar hafa rutt brautina af miklum metnaði sveitarfélögin á Snæfellsnesi, sem fyrst tóku upp Green globe vottunina, sem nú kallast Earth Check. Það er áhugaverður vinkill á umræðu okkar hér í dag, hvernig önnur sveitarfélög geti nýtt sér reynslu Snæfellingana á þessu sviði með það að markmiði að fjölga þeim sveitarfélögum sem taka upp þessa vottun.  Hvað þarf til að önnur sveitarfélög á Vesturlandi geti fetað í sömu fótspor – og eins sveitarfélög á Vestfjörðum – er spurningin sem vonandi fæst að einhverju leyti svarað hér í dag.     

Góðir gestir,

Ég nefndi hér til sögunnar nokkur af þeim helstu umhverfisvottunar- og umhverfisstjórnunarkerfum sem hér eru notuð.

Ég hef væntingar til að umræður og niðurstöður þessara ráðstefnu gefi upplýsingar sem geti nýst til eflingar þessa starfs á Íslandi. Ég held einnig að umhverfisvottanir séu dæmigert viðfangsefni þar sem viljinn og áhuginn spretta úr sverðinum - verða að koma “neðanfrá” eins og sagt er. Stjórnvöld þvinga ekki slík kerfi í gegn “ofanfrá” – heldur þurfa að styðja og hvetja, þannig að neytendur þekki vottanirnar og hvað þær standa fyrir – búa svo um hnútana að atvinnulíf og stofnanir nýti þær til að efla og styrkja stöðu sína -- en sýna jafnframt ábyrga afstöðu með umhverfinu.

Að lokum góðir gestir,

Páll Óskar kenndi okkur að það geti ekki allir verið gordíjös. Þetta er heimspeki sem á víða við í lífinu - og m.a. á þetta ágætlega við um umhverfisvottanir. Það munu ekki öll fyrirtæki eða allar stofnanir geta verið “gordíjös” með umhverfisvottun – og raunar er innbyggt í þessi kerfi að fyrirtæki þurfi að keppast við og bæta árangur sinn á sviði umhverfismála jafnt og þétt. Í Svaninum er t.d. lagt upp með þá reglu að hann skuli veittur þeim 30% sem skara framúr. En það er sannarlega eitthvað fyrir fyrirtæki og stofnanir að stefna að – að vera “gordíjös” og taka upp viðurkennda umhverfisvottun. Ég er sannfærður um að þessi ráðstefna verður til að efla stöðu umhverfisvottunar í landinu og hlakka til umræðunnar hér í dag.

Takk fyrir.

 

 

 

 

  

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta