Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. nóvember 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp ráðherra á ársfundi Úrvinnslusjóðs 2011

Andrés Ingi Jónsson aðstoðarmaður ráðherra flutti eftirfarandi ávarp f.h. ráðherra á ársfundi Úrvinnslusjóðs sem haldinn var á Grand Hóteli 22. nóvember 2011.

Stjórn og starfsmenn Úrvinnslusjóðs, aðrir ársfundargestir.

Það er mér ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á ársfundi Úrvinnslusjóðs.

Endurvinnsla og bætt nýting úrgangs eru málefni í vaxandi umfjöllun víða um heim. Takamarkalaus ágangur mannkyns í auðlindir jarðar á undanförnum áratugum hefur opnað augu okkar fyrir því að ekki verður mikið lengur gengið áfram á sömu braut. Hér á landi hefur umræðu af sama toga orðið vart að undanförnu m.a. varðandi flokkun heimilissorps, en flokkun sorps er forsenda þess að hægt sé að auka endurnýtingu úrgangs og bæta nýtingu hráefna. Auðlindir jarðarinnar eru takmarkaðar og því er bætt nýting hráefna ein af forsendum sjálfbærrar þróunar og viðvarandi hagvaxtar.

Á vegum Evrópusambandsins er til dæmis unnið að stórbættri nýtingu hráefna, sem lið í að tryggja sjálfbæra hagstjórn innan Evrópusambandsins fyrir árið 2050. Tilgangurinn er skýr: að tryggja að við notum minna af hráefnum til að framleiða meira. Þessari stefnu er ætlað bæði að létta álagi af auðlindum. en jafnframt að búa til ný störf, meðal annars í endurvinnsluiðnaði. Á Íslandi höfum við verk að vinna í þessum málaflokki, þó nokkur skref hafi verið tekin í þessa átt á undanförnum árum. Hér þurfum við að gera mikið betur og umhverfisráðuneytið hefur hug á því að gera það sem það getur til þess að svo megi verða. Mun ég víkja nokkrum orðum hér á eftir að málum sem nú eru í vinnslu í ráðuneytinu á þessu sviði.

Úrvinnslusjóður var á sínum tíma stofnaður í þeim tilgangi að draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu hér á landi og vissulega hefur margt jákvætt áunnist í þeim flokkum úrgangs sem Úrvinnslusjóður fer með. Ársfundur Úrvinnslusjóðs er vettvangur til að fara yfir farinn veg og hugleiða hvað megi betur gera til að auka enn frekar endurvinnslu hér á landi. Vænti ég góðs af þeirri umræðu hér í dag.

Samkvæmt lögum um úrvinnslugjald skipar ráðherra stjórn Úrvinnslusjóðs til fjögurra ára í senn. Með breytingu á lögunum nú í vor var bætt inn í stjórnina meðstjórnanda frá Félagi atvinnurekenda. Á sama tíma var hlutverk Úrvinnslusjóðs víkkað út; annars vegar var honum falið að sinna verkefnum sem tengjast raf- og rafeindatækjaúrgangi, hins vegar fékk sjóðurinn aukið hlutverk vegna framleiðendaábyrgðar á rafhlöðum og rafgeymum.

Í umhverfisráðuneytinu er þessa dagana unnið að útgáfu landsáætlunar um meðhöndlun úrgangs 2012-2023 og samhliða því innleiðingu á rammatilskipun Evrópusambandsins um úrgang (2008/98/EB) í íslenskan rétt. Tilskipunin setur m.a. viðmið um það hvenær úrgangur hættir að vera úrgangur og verður að hráefni. Hér er mikilvægt að staldra við og koma með nýja sýn þegar við innleiðum tilskipunina, til að við getum náð betur utan um þessa auðlind. Allt of oft lendir úrgangur á þeim villigötum að flokkast sem endapunktur að virðiskeðjunni lokinni, þegar ætti miklu frekar að líta á hann sem hluta af hringrás, grundvallarhugsun sem er nauðsynlegt að við temjum okkur, svo hægt sé að stefna til framtíðar undir merkjum sjálfbærrar þróunar.

Í tilskipuninni er mælt fyrir um hver forgangsröð við meðhöndlun á úrgangi skuli vera. Í fyrsta lagi skal koma í veg fyrir myndun úrgangs, í öðru lagi að undirbúa úrgang fyrir endurnotkun, í þriðja lagi að endurvinna úrganginn og í fjórða lagi að endurnýta hann. Síðasta skrefið – og það allra sísta – er að farga honum. Þannig er leitast við á öllum stigum að meðhöndla úrganginn til að koma í veg fyrir förgun.

Tilskipunin byggir á meginreglunum um mengunarbótarregluna og framleiðendaábyrgð. Þá kveður hún á um að gerð sé áætlun um meðhöndlun úrgangs og hvernig koma eigi í veg fyrir myndun hans.

Með breytingum á lögum um meðhöndlun úrgangs á liðnu þingi er það nú ráðherra, í stað Umhverfisstofnunar, sem gefur út landsáætlunina. Þannig getur áætlunin verið pólitískari og markað enn skýrari stefnu en verið hefur. Áætlunin mun geyma stefnu stjórnvalda í úrgangsmálum auk þess að tilgreina stöðu úrgangsmála í landinu.

Vinna við landsáætlun um úrgang er í fullum gangi. Ráðuneytið taldi mikilvægt að áætlunin og lagabreytingin yrðu sett í opið umsagnarferli þar sem almenningur, stjórnvöld og hagsmunaaðilar gætu komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Nauðsynlegt er að hafa náið samráð við þá aðila sem vinna við úrgangsmál og hafa því sérþekkingu á þeim. Frá því í lok september hefur því verið óskað eftir hugmyndum og fundað með þeim sem þess hafa sérstaklega óskað. Stefnt er að því að þessu opna umsagnarferli ljúki í lok þessa mánaðar, landsáætlun og frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs verði sent til umsagnar í byrjun næsta árs og að landsáætlun verði gefin út og frumvarp lagt fram í vor.

Í þessu ferli er ráðuneytið að leita að hugmyndum. Verkefnið er áhugavert og margar spurningar sem þarf að velta upp. Ljóst er að auka þarf flokkun til að unnt sé að auka endurvinnslu og endurnýtingu. Hvernig má koma því við, hvernig má auðvelda íbúum landsins flokkun? Hvort er árangursríkara að skila flokkuðum úrgangi í auknum mæli í tunnuna heima við, eða í næstu verslun – eða á að fjölga grenndarstöðum og auka þjónustu á endurvinnslustöðvum? Hvernig getum við aukið endurvinnslu og bætt nýtingu hráefna?

Það er ljóst að mikil tækifæri eru til nýsköpunar á þessu sviði – að finna leiðir til að bæta nýtingu hráefna – og það er atvinnuskapandi að þróa nýja tækni við endurvinnslu. Þarna liggja miklir möguleikar. Hvernig er hægt að efla lífsferilshugsun við vöruhönnun og tryggja að vara sé búin til úr efnum sem auðvelt er að endurvinna?

Annað grundvallaratriði er að koma þarf í veg fyrir myndun úrgangs í auknum mæli og skoða hvaða leiðir eigi að fara í því sambandi, t.d. að draga úr umbúðum og banna plastpoka. Er rétt að fara út í svo róttækar aðgerðir?

Svo er það hvernig best má ná því markmiði að takmarka förgun úrgangs. Mun aukin flokkun úrgangs og aukin endurvinnsla ein og sér draga nægilega úr förgun úrgangs, eða þarf eitthvað meira að koma til? Ef lagður yrði á hár urðunarskattur myndi það verða til þess að við fyndum nýjar leiðir til að auka endurvinnslu og bæta nýtingu hráefna?

Ráðuneytið vill fá hugmyndir frá sem flestum, þannig að ef þið lumið á hugmyndum og verkefnum á sviði úrgangsmála – sem mig grunar að þið gerið – endilega komið þeim á framfæri í gegnum heimasíðu ráðuneytisins. Hugmyndirnar munu nýtast okkur í landsáætlun um úrgang sem nú er unnið að.

Á undanförnum áratugum hefur mikið þokast í rétta átt varðandi úrgangsmál hér á landi. Frá árinu 1986 hefur verið kveðið á um það í lögum að þeim sem annast dreifingu og sölu á olíu sé skylt að taka við olíuúrgangi og tryggja viðunandi eyðingu. Frá árinu 1989 hefur verið sérstakur farvegur fyrir einnota drykkjarvöruumbúðir þegar sett voru sérstök lög utan um málaflokkinn. Lög um spilliefnagjald voru sett árið 1996 og í lok árs 2002 komu lög um úrvinnslugjald sem leystu spilliefnagjaldslögin af hólmi. Kerfi vegna raf- og rafeindatækjaúrgangs var komið á með lögum sem sett voru árið 2008. Öll þessi skref hafa verið til að tryggja farveg fyrir meðhöndlun úrgangs og í þá átt að gera atvinnulífið ábyrgara fyrir meðhöndlun úrgangs. Um nokkurt skeið hefur verið fyrirhugað að færa framkvæmd úrgangsmála í átt að aukinni framleiðendaábyrgð og jafnvel að samræma frekar þau kerfi sem eru við lýði í dag. Á að auka framleiðendaábyrgð og samræma útfærslu hennar sem mest? Hvert á hlutverk Úrvinnslusjóðs að vera varðandi aukna framleiðendaábyrgð? Á hann t.d. að bera ábyrgð á að söfnunarhlutföll úrgangs sem stjórnvöld gera kröfu um náist?

Hér á landi eru í grunninn þrjú mismunandi kerfi í gangi varðandi úrvinnslu úrgangs og ábyrgð framleiðenda. Mikil umræða hefur verið um þessi kerfi að undanförnu sem öll hafa stuðlað að framförum í úrgangsmálum. Með síðustu lagabreytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs var, eins og ég vék að hér áðan, Úrvinnslusjóði falið hlutverk stýrinefndar um raf- og raftækjaúrgang. Í nefndaráliti umhverfisnefndar Alþingis beindi meiri hluti nefndarinnar því til umhverfisráðherra að beita sér fyrir endurskoðun á kerfunum og benti jafnframt á að við endurskoðun laga og reglna á sviði úrgangsmála væri m.a. nauðsynlegt að skoða skipulag Úrvinnslusjóðs. Nefndin lagði áherslu á að nánar yrði skoðað við heildarendurskoðun á skipan mála hvað þyrfti að gera til að styrkja kerfið varðandi raf- og rafeindatækjaúrgang. Við í ráðuneytinu erum að undirbúa þessa vinnu með gerð landsáætlunar og í framhaldi af því endurskoðun á löggjöfinni.

Góðir gestir,

Það nægir ekki að líta aðeins á þann úrgang sem kemur út af heimilum og frá fyrirtækjum, heldur þarf að líta framar í keðjuna til að finna lausn til framtíðar. Því miður virðist óhóf vera fylgifiskur neyslusamfélagsins og nútímans. Einhverra hluta vegna hefur aukinn hagvöxtur haldist fast í hendur við mikla einkaneyslu, sem í tilfelli Íslands hefur skilað því að við mörkum dýpra vistspor á jörðina en flestar aðrar þjóðir. Allar daglegar venjur okkar hafa áhrif á umhverfið – og við höfum val og við höfum áhrif. Sem neytendur erum við valdamikil þegar kemur að innkaupum og neyslu. Þetta gildir bæði um almenna neytandann og atvinnulífið. Nánast hvert sem við snúum okkur erum við að velja vörur og þjónustu. Það skiptir því miklu máli að nota skynsemi við ákvarðanatökuna – stíga t.d. skrefið í átt að vistvænni innkaupum og velja umhverfismerkta vöru og þjónustu til að stuðla að því að draga úr myndun úrgangs. Hér má ekki gleyma ábyrgð stjórnvalda við að tryggja aðgang að góðum og öruggum upplýsingum, sem eru forsenda meðvitaðra innkaupa.

Mikilvægt er að fara heildstætt yfir málaflokkinn frá öllum hliðum. Er það von mín að væntanleg landsáætlun og endurskoðun á úrgangslöggjöfinni stuðli að því að meðhöndlun úrgangs verði metnaðarfyllri, að dregið verði úr myndun hans og endurnýting aukin.

Ég þakka starfsfólki og stjórn Úrvinnslusjóðs fyrir þeirra góða starf á liðnu ári, fyrir ykkar framlag til úrgangsmála og fyrir ánægjulega samvinnu.

Kærar þakkir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta