Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. apríl 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra á málstofu um leiðina til Ríó+20

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ávarpaði gesti á málþingi um leiðina til Ríó+20, sem haldið var 16. apríl 2012, með eftirfarandi orðum.

Ágætu gestir,

Það er mér ánægja að fá að ávarpa ykkur við upphaf þessa fundar um leiðina til Ríó, sjálfbæra þróun og tækifæri græns hagkerfis. Framundan er áhugaverð dagskrá og vonandi fjörugar umræður um málefni sem skiptir miklu – nokkuð sem má segja að sé mesta áskorun stjórnmálanna um þessar mundir. Það er, hvernig við náum að stilla hegðun núlifandi kynslóða af, þannig að þær komi ekki í veg fyrir að komandi kynslóðir geti séð sér sómasamlega farborða hér á henni Jörð.

OECD-fundurinn

Á dögunum sótti ég fund umhverfisráðherra OECD, sem haldinn var til að stilla saman strengi fyrir Ríó+20. Eitt aðalumfjöllunarefnið var ný skýrsla OECD sem ber yfirskriftina: „OECD Environmental Outlook to 2050: The Consequences of Inaction.“ Undirtitillinn lýsir inntakinu nokkuð vel: „Afleiðingarnar af aðgerðarleysi.“ Þarna er sett fram spá um þróun mannfjölda og efnahagsmála næstu fjóra áratugina og reiknað út hverjar afleiðingarnar verða ef mannkynið heldur áfram „business as usual“ – í hvaða ógöngum börnin okkar munu lenda ef við grípum ekki til metnaðarfullra ráðstafana í umhverfismálum.

Skýrslan fjallar sérstaklega um fjóra meginþætti: 1) loftslagsbreytingar, 2) líffræðilegan fjölbreytileika, 3) vatn og 4) áhrif mengunar á heilsu manna. Í sem stystu máli er sýnt fram á að aðgerðarleysi muni hafa geigvænlegar afleiðingar fyrir stóran hluta mannkyns, auk þess sem óhjákvæmilegur kostnaður muni aukast eftir því sem lengra líður án þess að gripið sé til aðgerða. Sumir fulltrúar á fundi OECD kváðu svo fast að orði, að heimurinn sé við það að fara fram af bjargbrúninni á mörgum sviðum. Þessi skýrsla, sem ég mæli með að þið nálgist á heimasíðu OECD, sýnir svart á hvítu að leið sjálfbærrar þróunar er ekki ein af leiðunum fram á veginn – sjálfbær þróun er eina leiðin sem mannkynið getur leyft sér að fara.

Þetta er líklega helsta áskorun ráðstefnunnar í Ríó nú í sumar. Hvernig ná ríki heims að stilla saman strengi, svo hægt sé að grípa til þeirra bráðu aðgerða sem nauðsynlegar eru, bæði fyrir umhverfið og mannkynið?

Hugarfarsbreyting undanfarinna 20 ára

Oft er óþægilega auðvelt að vera svartsýnn þegar ríki heims koma saman til að ná sameiginlegri niðurstöðu, enda er slíkum fundum hætt við að skila smærri skrefum en vænst var. Við getum til dæmis rifjað upp andvarpið sem heyrðist fyrir tveimur árum, þegar ljóst varð að loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn stóð ekki undir þeim væntingum sem til hennar voru gerðar. Litlu skrefin eru hins vegar oft mikilvægari en virðist við fyrstu sýn.

Ráðstefnan í Ríó fyrir 20 árum sáði nokkrum fræjum sem náðu að spíra og vaxa – og hafa á undanförnum árum náð að dafna. Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna er eitt af þeim fræjum, Kaupmannahafnarráðstefnan sýndi vel hvernig það fræ dafnar. Við megum nefnilega ekki gleyma því, að fyrstu árin eftir Ríó-ráðstefnuna þótti fullboðlegt að efast um að loftslagsbreytingar af mannavöldum væru yfir höfuð staðreynd. Gríðarlega mikið púður fór í að vinda ofan af röngum skilaboðum. Í Kaupmannahöfn strandaði hins vegar ekki á því grundvallaratriði, heldur ýmsum útfærslum á aðgerðum – efasemdarraddirnar voru þagnaðar - hugarfarsbreyting hafði greinilega átt sér stað.

Sama má segja um sjálfbæra þróun, sem sett var á dagskrá stjórnmálanna fyrir 20 árum. Hugtakið kom reyndar fram fyrir um fjörutíu árum en var skilgreint í fyrsta skipti í skýrslu Brundtland nefndarinnar kom út á vegum Sameinuðu þjóðanna árið 1987. Hugtakið er skilgreint sem „...þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum.“ Á síðustu árum hefur sjálfbær þróun náð að skipa þann sess í umræðunni sem henni ber.

Hér á eftir verður skýrsla Alþingis um græna hagkerfið kynnt. Hún er ein birtingarmynd þeirrar hugarfarsbreytingar sem hefur átt sér stað. Mikil samstaða var á þingi um þetta málefni – og það þvert á flokka - sem þykir jafnvel í frásögur færandi. Grænar áherslur í hagvexti eru ekki bara draumsýn náttúruverndarsinna, heldur forsenda þess að við náum að afstýra þeirri þróun sem lýst er í skýrslu OECD sem ég nefndi hér áðan – forsendur þess að mannkynið þrífist til framtíðar - liggur mér við að segja.

Hugmyndir um grænt hagkerfi hefðu tæpast getað orðið til – og um þær hefði aldrei ríkt svo mikil sátt – ef ekki væri fyrir fræin sem sáð var á fundinum í Ríó 1992 og þá miklu hugarfarsbreytingu sem hefur orðið síðan þá.

Framundan

Grænt hagkerfi er bara eitt af þeim verkfærum sem við þurfum að beita til að koma atferli og neyslu mannkynsins á réttan kjöl. Það er von mín að ein af niðurstöðum Ríó+20 verði sú að láta okkur fleiri verkfæri í té. Sjálfbærni verður nefnilega tæpast náð með því einu að bæta grænum áherslum í það hagkerfi sem fyrir er, heldur þurfum við á næstu árum að finna leiðir til að bylta hagkerfinu, að umbylta neyslu- og framleiðsluvenjum okkar. Og þegar ég segi „okkar“ meina ég að við lítum í eigin barm - Íslendingar, Vesturlandabúar og íbúar annarra auðugra ríkja - og áttum okkur á því að neysla okkar er stór hluti þess vanda sem steðjar að jörðinni.

Áskorunin við þetta felst í því að finna leiðir til að auka og viðhalda velsæld mannkyns, án þess að ganga stöðugt á auðlindir og valda spjöllum á náttúrunni. Í grófum dráttum snýst hin hefðbundna sýn á hagvöxt um þetta – en hagvaxtardrifinn vöxtur hefur um áratuga skeið verið ráðandi hugmyndafræði og svo er enn. Þjóðarleiðtogar víða um heim eru þó smám saman að vakna til vitundar um að þetta gangi ekki til frambúðar og í pólitískri umræðu heyrast æ oftar hugtök á borð við „beyond GDP“ – framtíð þar sem við erum ekki háð hagvexti, heldur mælum framþróun og velmegun með öðrum mælistikum.

Áherslur Íslands

Í aðdraganda Ríó ráðstefnunnar gefst aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna tækifæri til að leggja fram áherslur sínar áður en eiginlegar samingaviðræður um yfirlýsingu ráðstefnunnar hefjast. Ríkisstjórn Íslands samþykkti síðastliðið haust að beina sjónum einkum að fjórum málefnum. Þau voru valin öðrum fremur annars vegar vegna þess að þar er um að ræða atriði sem eru Íslandi sérstaklega mikilvæg, en hins vegar vegna þess að þarna teljum við okkur hafa eitthvað fram að færa. Mun ég nú stuttlega reifa þau.

Hafið

Íslendingum dylst ekki hversu mikilvægt hafið er. Auðlindir sjávar eru undirstaða einnar stærstu útflutningsgreinar landsins og mikilvæg uppspretta fæðu. Vegna þessa hafa Íslendingar lengi beitt sér fyrir ábyrgri umgengni við hafið, m.a. með því að vinna gegn mengun og fyrir ábyrgri nýtingarstefnu. Á síðustu árum hefur komið æ betur í ljós hversu stóru hlutverki hafið gegnir í loftslagsbreytingum. Hafið tekur við miklu af þeim gróðurhúsalofttegundum sem losna á landi og hefur þannig temprandi áhrif á loftslagsbreytingar. En sá galli er á gjöf Njarðar, að samhliða þessu breytist sýrustig sjávar. Þessi súrnun gæti dregið mjög úr líffræðilegum fjölbreytileika og þar eru ekki litlir hagsmunir í húfi, ekki síst þegar litið er til þess að um 1/6 af fæðu mannkyns kemur úr sjónum.

Endurnýjanleg orka

Endurnýjanleg orka er nú 19% af orkuneyslu heimsins. Ísland nýtur þeirrar sérstöðu að nær öll orka til húshitunar og rafmagnsframleiðslu er framleidd úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Enn er það svo að um 1.3 milljarður íbúa jarðarinnar hafa ekki aðgang að orku og 2.7 milljarðar búa við óviðunandi orku til eldamennsku (aðallega viðarkol). Aðgangur að orku er lykillinn að útrýmingu fátæktar, það þekkja Íslendingar sem í upphafi 20. aldarinnar voru ein fátækasta þjóðin í Evrópu.

Því er afar brýnt að auka aðgengi fólks að orku og mikilvægt að beina sjónum að endurnýjanlegum orkulindum í því skyni að auka lífsgæði og bæta heilsufar í fátækum löndum. Á hverju ári deyja um það bil 2.4 milljónir vegna ófullnægjandi loftgæða innanhúss sem stafa af eldamennsku á viðarkolum. Að mestu leyti er þar um að ræða konur og börn.

Sjálfbær nýting lands

Hér á landi hefur lengi verið unnið að því að vinna gegn landeyðingu og bæta þann skaða sem varð á landinu á öldum áður. Landgræðsla ríkisins er ekki aðeins öflug stofnun á íslenskan mælikvarða, heldur leiðandi í verndun gróðurs og jarðvegs á heimsvísu. Sú þjónusta sem vistkerfi veita mannkyninu verður varla metin til fjár, mjög víða er það mikið hagsmunamál að stöðva hnignun vistkerfa. Ég nefni sem dæmi verðmætin sem felast í því að safna vatni og hreinsa það, svo það verði drykkjarhæft. Heilbrigð vistkerfi eru undirstaða fæðuöryggis og gegna mikilvægu hlutverki við útrýmingu fátæktar, svo og í loftslagsmálum og við viðhald líffræðilegrar fjölbreytni. Öflug vistkerfi eru víða forsenda þess að fólk geti lifað í sátt og samlyndi enda ýmis dæmi um deilur og styrjaldir þar sem barist hefur verið um ræktanlegt land.

Jafnrétti

Ísland hefur lagt mikla áherslu á jafnrétti kynjanna í loftslagsviðræðum og mun halda þeim kyndli áfram á lofti í Ríó. Fyrir þremur árum lögðu fulltrúar Íslands til að vísað yrði til jafnréttis kynjanna í viðræðum um loftslagsmál. Þá var engin slík tilvísun í samningstextum – og takmarkaður skilningur á nauðsyn þess. Með harðfylgi hefur tekist að fá samþykkt ákvæði um kynjasjónarmið inn í samningstexta og nú er slík áhersla almennt viðurkennd. Þessi áhersla skiptir máli því loftslagsbreytingar munu líklega hafa meiri áhrif á konur en karla, ekki síst í fátækari ríkjum heims. Einnig er almennt viðurkennt að konur búi yfir mikilvægu afli til breytinga – og séu í raun lykillinn að nauðsynlegum breytingum.

Í viðræðum um kyn og loftslagsmál sýndi sig að oft munar um eina rödd, þó hún komi frá litlu ríki sem Íslandi. Það skiptir því máli að halda kynjasjónarmiðum til haga í umræðunni um að eflinga græna hagkerfið - að tryggja að bæði kynin séu með í leiðangrinum í átt til sjálfbærrar þróunar.

Þróunarsamvinna

Þessi fjögur áhersluatriði eiga það sameiginlegt að vera stólpar þróunarsamvinnu Íslands – og þar með í raun þau atriði sem við höfum með í farteskinu þegar við viljum láta gott af okkur leiða. Til marks um það starfa hér á landi þrír skólar innan vébanda Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Jarðhitaskóli, Sjávarútvegsskóli og Landgræðsluskóli – og tengjast þannig fyrstu þremur áhersluatriðunum. Innan Háskóla Íslands starfar Jafnréttisskóli, sem tengist fjórða áhersluatriðinu og er að því stefnt að hann verði einnig deild í Háskóla Sameinuðu þjóðanna í náinni framtíð.

Niðurlag

Á liðnum árum hefur verið einkar ánægjulegt að skynja vaxandi áhuga og vitund fyrirtækja á Íslandi um mikilvægi umhverfismála. Þetta má m.a. sjá á sívaxandi áhuga á umhverfismerkinu Svaninum, en einnig þeirri grósku sem er í nýsköpun og umhverfistækni af ýmsu tagi, eins og við munum eflaust fræðast nánar um í erindi forstjóra Marorku hér á eftir. Þá er það einnig eftirtektarvert að fyrirtæki og stofnanir huga í síauknum mæli að samfélagslegri ábyrgð í starfsemi sinni.

Sjálfbær þróun er vítt hugtak og getur sýnst flókið. Hvað sem því líður er mikilvægt að við öll - hvert og eitt - lítum í eigin barm og hugsum: „Hvað get ég lagt af mörkum fyrir umhverfið og samfélagið?“ Í því tilliti er mikilvægt að hafa í huga að lítil og einföld skref geta haft mikla þýðingu í hinu stærra samhengi. Nauðsynlegum breytingum verður aldrei hrint í framkvæmd af stjórnvöldum einum og sér. Leiðin til sjálfbærrar þróunar er verkefni alls samfélagsins. Á þeirri leið gegna atvinnulíf og félagasamtök lykilhlutverki. En síðast en ekki síst er afar mikilvægt að hver og einn einstaklingur breyti einhverju til góðs. Einkunnarorð Vistverndar í verki eiga einkar vel við í þessu sambandi: „Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað.“

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta