Ávarp umhverfisráðherra á málþingi um Svein Pálsson
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ávarpaði gesti á málþingi um líf og störf Sveins Pálssonar náttúrufræðings sem haldið var í tilefni 250 ára fæðingarafmælis hans þann 24. apríl 2012.
Góðir gestir.
Fyrir fjórtán árum ákvað ríkisstjórnin að tilnefna Dag umhverfisins sem skyldi verða „hvatning til skólafólks og almennings að kynna sér betur samskipti manns og náttúru og [...] tækifæri fyrir stjórnvöld, félagasamtök og fjölmiðla til að efla opinbera umræðu um umhverfismál.“
Þegar kom að því að velja dagsetningu fyrir Dag umhverfisins varð fæðingardagur Sveins Pálssonar fyrir valinu. Veigamikil rök lágu þar að baki – Sveinn var fyrsti íslenski náttúrufræðingurinn og þótt víðar væri leitað, frumkvöðull í rannsóknum á náttúrunni, hvort heldur var á eldfjöllum, jöklum, skógum eða öðrum náttúrufyrirbærum.
Hann var einnig sá maður íslenskur sem ef til vill fyrstur vakti máls á þeirri hugsun sem nú gengur undir heitinu „sjálfbær þróun“, þegar hann benti á að slæm meðferð skóga skaðaði hag komandi kynslóða.
Sem læknir, vísindamaður, ferðalangur, bóndi og rithöfundur stóð Sveinn þó fyrir miklu meiru. Það er því sérstök ánægja að efnt er til þessa málþings um líf hans og störf á 250 ára fæðingarafmæli hans – af nógu er að taka þegar kemur að því að fræðast um afrek Sveins á hinum ólíkustu sviðum.
Sveinn Pálsson var afsprengi mikilla umbrotatíma þar sem stórfelld þróun átti sér stað í því hvernig maðurinn leit á náttúruna - heilu hugmyndakerfin voru á fleygiferð. Í nafni vísindanna lét hann fátt stöðva sig í því að afla nýrrar vitneskju um íslenska náttúru og móður jörð, og sú staðfesta skilaði afburða árangri. Hann varð fyrstur manna til að lýsa legu eldfjallabeltisins undir Íslandi og skýra hreyfingu skriðjökla. Til að afla slíkra upplýsinga varð hann fyrstur manna til að ganga á Öræfajökul og upp að Lakagígum, aðeins tíu árum eftir hin örlagaríku eldsumbrot þar. Það er nánast óraunverulegt að ímynda sér það úthald sem hefur þurft fyrir fjallabrölt og ferðir yfir beljandi stórfljót eins og þær sem Sveinn tók sér á hendur, og það fyrir tíma vélknúinna ökutækja, stálsleginna mannbrodda, vatnsvarins hlífðarfatnaðar og gps staðsetningartækja.
Í dag byggjum við þekkingu okkar á náttúru og umhverfi á vinnu manna eins og Sveins Pálssonar. Þær voru grunnurinn að starfi vísindamanna sem héldu áfram þar sem Sveinn og aðrir frumkvöðlar slepptu. Þeir hafa aftur opnað augu okkar fyrir þeim hættum sem steðja að umhverfinu og mikilvægi þess að standa vörð um náttúruna - til að tryggja afkomu okkar sjálfra og afkomenda okkar um ókomna tíð. Það er vegna slíkra rannsókna sem áhugi og umræða um umhverfismál eru komin jafn langt og raun ber vitni í dag – að við yfirhöfuð sjáum mikilvægi þess að umhverfi okkar sé tileinkaður sérstakur dagur. Og fyrir þetta frumkvöðlastarf ber að þakka.
Það er meðal annars gert með því að halda minningu slíkra manna á lofti. Á morgun verður afhjúpaður minnisvarði um Svein Pálsson í Vík í Mýrdal þar sem hann bjó og starfaði lengst af. Einnig hafa verið gerðar úrbætur á legstað hans í gamla kirkjugarðinum á Reyni sem og á umhverfi og aðkomu garðsins sjálfs. Það er Mýrdalshreppur, Katla Jarðvangur, Kirkjumálaráð og Landgræðslan sem eiga veg og vanda að þessum framkvæmdum en þannig minnast heimamenn þessa merka sveitunga síns á 250 ára fæðingarafmæli hans, og það með miklum sóma.
Góðir gestir.
Í fyrirlestrunum hér á eftir verður sagt frá þeim tíðaranda sem ríkti á tímum Sveins, ferðum hans og störfum á sviði vísinda og lækninga. Í anda hans sjálfs má búast við fróðleik og upplýsingum um mikinn frumkvöðul og hans ómetanlega framlag til vísindanna. Okkar er að njóta.