Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. maí 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnu um erfðabreytta ræktun

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á ráðstefnum um erfðabreytta ræktun sem haldin var 15. maí 2012.

 

Fundarstjóri, fyrirlesarar og aðrir ráðstefnugestir.

Á undanförnum misserum hefur umræða um erfðabreyttar lífverur aukist nokkuð hér á landi en því fer þó fjarri að hún hafi verið jafnvíðtæk og t.d. hjá nágrönnum okkar í Evrópu, sem við eðlilega berum okkur helst saman við. Sem kunnugt er byggist íslensk löggjöf á þessu sviði á lögum Evrópusambandsins í samræmi við saminginn um evrópska efnahagssvæðið, sem tók gildi hér á landi 1. janúar 1994, en um er að ræða eina af meginstoðum samningsins, frjálst vöruflæði. Umræðan hér á landi hefur einkum verið tvíþætt, annars vegar um erfðabreytta ræktun, þ.e.a.s. sleppingu og dreifingu út í umhverfið, og hins vegar um erfðabreytt matvæli og fóður og merkingu þeirra. Fyrri þátturinn, erfðabreytt ræktun, verður umfjöllunarefni á þessari ráðstefnu sem umhverfisráðuneytið stendur fyrir, enda fellur sá þáttur undir verksvið ráðuneytisins – sem hvorki erfðabreytt matvæli og fóður né merkingar þeirra gera.

Umræðan um erfðabreytta ræktun hefur til þessa, að ég best fæ séð, skipst í nokkuð skarpa andstæðupóla. Hún hefur einkum tengst annars vegar sjónarmiðum þeirra sem telja slíka ræktun fyllilega ásættanlega og hins vegar þeirra sem eru algjörlega á móti henni. Inn í þetta hafa blandast nokkur mál sem lögð hafa verið fram á Alþingi að undanförnu en ekki náð fram að ganga. Almenningur hefur hins vegar lítið látið í sér heyra til þessa og er því fyllilega tímabært að breikka umræðuna. Tilgangur þessarar ráðstefnu er fyrst og fremst sá að reyna að varpa ljósi á stöðu mála varðandi erfðabreytta ræktun bæði hér á landi og í nágrannalöndunum – og þar með vonandi skapa betri jarðveg fyrir upplýsta umræðu um þessi mál hér á landi.

Skiptar skoðanir virðast ríkja um málefnið ef litið er til einstakra landa eða heimsálfa. Þannig hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í auknum mæli leitað eftir áliti almennings á erfðabreyttri ræktun og lagt fram tillögur um hvernig skuli brugðist við, m.a. í ljósi þess almenningsálits. Í könnun á viðhorfum almennings til erfabreyttrar ræktunar í ríkjum Evrópusambandsins sem birt var í október 2010 kom fram, að af þeim sem tóku afstöðu til málsins töldu 70% erfðabreytta ræktun skaðlega umhverfinu. Einnig komu fram áhyggjur – ef ekki uggur – á meðal bænda sem stunda hefðbundna ræktun.

Í samræmi við þetta hefur framkvæmdastjórn ESB lagt til breytingar á gildandi reglum þess efnis að hverju og einu ríki skuli í sjálfsvald sett hvort það takmarki eða hreinlega banni slíka ræktun á grundvelli umhverfislegra, heilsufarslegra, félags- og efnahaglegra sjónarmiða.

Ekki hefur tekist að afgreiða málið á vettvangi Evrópusambandsins en Danmörk sem fer með formennsku innan sambandsins á fyrra misseri þessa árs mun freista þess að hún liggi fyrir á miðju ári. Ole Kaae frá danska umhverfisráðuneytinu mun væntanlega gera okkur frekari grein fyrir því hér á eftir. Þrátt fyrir þetta og að fyrir liggur niðurstaða Evrópudómstólsins um að Evrópusambandslöndunum sé óheimilt að banna fortakslaust erfðabreytta ræktun innan eigin landamæra hafa Austurríki, Ungverjaland, Grikkland og Kýpur bannað erfðabreytta ræktun innan sinna landamæra. Á fundi sem ég átti með umhverfisráðherra Lettlands fyrir tæpum tveimur vikum kom fram m.a. að 95% sveitarfélaga landsins hefðu bannað erfðabreytta ræktun. Af þessu má sjá að það eru töluverðar sviptingar í þessum málaflokki innan Evrópusambandsins.

Ef litið er til annarra landa, sérstaklega Norður- og Suður - Ameríku og Indlands, þá virðast önnur viðhorf ríkja þar, en þar styðja stjórnvöld og hvetja jafnframt til aukinnar erfðabreyttrar ræktunar.

Hér á landi hefur ekki verið mótuð sérstök stefna um erfðabreytta ræktun umfram það sem fram kemur í lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur. Skv. lögunum þarf leyfi Umhverfisstofnunar til slíkrar ræktunar, að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands. Að auki leitar Umhverfisstofnun umsagnar sérstakrar ráðgjafanefndar um erfðabreytta ræktun, en nefndin er skipuð og starfar samkvæmt lögunum. Um þá þætti verður fjallað nánar hér á eftir. Með hliðsjón af því sem ég hef þegar sagt vaknar sú spurning hvort ekki sé æskilegt að mótuð verði ítarlegri stefna hér á landi um erfðabreytta ræktun. Við mótun slíkrar stefnu þarf m.a. að skoða hvort slík ræktun skuli sæta takmörkunum – og þá hvaða – eða hvort líta eigi til að banna hana og þá á hvaða forsendum. Eins og að lögum er búið og á meðan ekki hefur tekist samkomulag innan Evrópusambandsins um málið sem síðan það rataði inn í íslenskan rétt með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er álitamál hvort íslensk stjórnvöld gætu bannað erfðabreytta ræktun hér á landi.

Nái tillögur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hins vegar fram að ganga verður hverju og einu landi innan sambandsins heimilt að ákveða bann eða takmörkun og þá mun sú heimild einnig ná til Íslands á grundvelli EES-samningsins. Hver sem niðurstaðan verður á meginlandi Evrópu, þá tel ég æskilegt að setja í gang vinnu við stefnumótun á þessu sviði út frá þeim hagsmunum sem kunna að vera í húfi hér á landi. Skoðanir þeirra sem hagsmuna eiga að gæta, fræðimanna og frjálsra félagasamtaka skipta hér miklu máli, en ekki síður skoðanir almennings. Ég hef því í hyggju að ýta slíku starfi úr vör á næstunni. Ég vænti þess að þessi ráðstefna geti orðið fyrsta skrefið á þeirri leið.

Að þessum orðum sögðum lýsi ég því hér með yfir að ráðstefnan er sett um leið og ég hlakka mikið til að hlýða á þau mörgu og fjölbreytilegu erindi sem hér verða flutt og að draga saman helstu niðurstöður, eins og þær koma mér fyrir sjónir, í lok ráðstefnunnar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta