Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. september 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á Nordic Built

 
Svandís Svavarsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á kynningarfundinum Nordic Built sem haldinn var á vegum Norræna nýsköpunrsjóðsins 13. september 2012.
 
 

Ágætu fundargestir,

Það er mér sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag á kynningarfundi Norræna nýsköpunarsjóðsins um sjálfbærnisáttmála í mannvirkjagerð undir yfirskriftinni Nordic Built.

Mikilvægi vandaðra mannvirkja dylst engum. Þetta á eflaust sérstaklega við þau okkar sem búa á norðlægum breiddargráðum, sem stólum á þétt og góð hús til að verja okkur fyrir náttúruöflunum. Þessi sameiginlega upplifun af náttúru og veðurfari er einn af þeim sterku þráðum sem tengja Norðurlöndin saman.

Auk þess hvíla gríðarleg verðmæti í mannvirkjum. Þar gildir einu hvort litið er til fyrirtækja, sveitarfélaga eða hins opinbera – öll geyma þau mikinn hluta eigna sinna í mannvirkjum – nú, eða þess stóra hluta almennings sem geymir stærstan hluta af ævisparnaði sínum þar. Það er því deginum ljósara hversu mikilvægt er að standa dyggan vörð um gæði í mannvirkjagerð.

Nordic Built er hluti af átaki norrænu ráðherranefndarinnar til að móta grænni stefnu í iðnaðar- og nýsköpunarmálum. Þessi þróun í átt að grænu hagkerfi á sér stað um allan heim þessi misserin, var m.a. eitt af meginstefunum á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Ríó nú fyrr á árinu.

Hér á landi hefur Alþingi mótað metnaðarfulla, en jafnframt mjög raunhæfa, stefnu um eflingu græna hagkerfisins. Forsætisráðuneytið sér um að fylgja eftir stefnunni, sem kemur í raun til með að teygja sig inn í öll ráðuneyti og stofnanir ríkisins.

Stefna um eflingu græna hagkerfisins telur fimmtíu atriði, en mig langar að nefna þrennt sem snertir sérstaklega efni þessa fundar. Alþingi kom sér saman um:

- að setja á fót Grænan samkeppnissjóð innan Tækniþróunarsjóðs, sem styrki verkefni á sviði umhverfisvænnar nýsköpunar,

- að fela Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins að vinna að stofnun og rekstri Græns fjárfestingarsjóðs, sem fjárfesti í umhverfistækni og umhverfisvænni starfsemi, og

- að efla vistvæn innkaup ríkisins og flétta viðmið um umhverfisskilyrði sem víðast inn þar sem ríkið kemur fram sem kaupandi vöru og þjónustu.

Fyrri tvö atriðin kalla á frekari útfærslu í lögum og reglugerðum, en þarna hillir vonandi undir myndarlega sjóði sem koma til með að styrkja sjálfbæra þróun í mannvirkjagerð með ráðum og dáð. Þriðja atriðið sem ég nefndi er ekki síður mikilvægt. Ríkið er gríðarlega áhrifamikill neytandi á markaði, það kaupir vörur og þjónustu fyrir um 150 milljarða króna á ári. Með því að fara fram með góðu fordæmi, kaupa umhverfisvottaða vöru, setja umhverfisskilyrði í útboð og styðjast við sjálfbærnistaðla við mannvirkjagerð getur hið opinbera stutt við græna nýsköpun.

Skandinavísk hönnun er heimsþekkt. Það orð fer af henni að hún grundvallist á aldalangri hefð fyrir notkun vandaðra byggingarefna og samspili við náttúruna, bæði hvað varðar form og efnivið. Það þarf aðeins að nefna nöfn eins og Alvar Aalto og Arne Jacobsen, sem flestir þekkja í þessu samhengi. Norðurlöndin hafa hér, líkt og víða annars staðar, það orðspor að sýna náttúrunni virðingu – orðspor sem snýst um grundvallaratriði sjálfbærrar þróunar.

En erum við framarlega á sviði tæknilegra úrlausna? Erum við að nýta okkur nægilega vel þetta forskot og þá ímynd sem norrænn byggingarmarkaður hefur á heimsvísu?

Það felst áskorun í því að þróa og framleiða byggingarefni sem henta vel til notkunar á norðlægum slóðum, að nýta það mannvit og reynslu og þær auðlindir sem til staðar eru í hverju landi fyrir sig. Þarna eru sóknarfæri. Þátttaka í verkefni eins og Nordic Built er kjörinn vettvangur til þess að líta í reynslubanka hvers annars og sjá hvað gengur best í norrænu samhengi. Verkefni sem þetta opnar í raun norrænan byggingarmarkað, eykur samvinnu, gefur hönnuðum og verktökum tækifæri til þess að vinna þvert á greinar og landamæri í átt að nýjum og sjálfbærum lausnum.

Hér á Íslandi er til að mynda unnið að þróun vistvænnar steinsteypu og brátt fer grisjun úr íslenskum skógum að gefa okkur nýja möguleika í notkun á íslensku timbri til mannvirkjagerðar – nokkuð sem fæstir hefðu trúað fyrir nokkrum árum. Við Íslendingar getum án efa nýtt okkur enn betur það forskot sem við höfum hvað varðar notkun á jarðvarma til húshitunar. Forskot okkar í orkumálum snýr þó enn sem komið er fyrst og fremst að því hvernig við nýtum og virkjum endurnýjanlega orku til húshitunar. Af frændum okkar á Norðurlöndum getum við aftur á móti lært margt um leiðir til að draga úr óþarfri orkunotkun, enda er orkuverð þar víðast mun hærra en þekkist hér á landi og hvatinn til breytinga því lengst af sterkari.

Tilgangur þessa fundar er að kynna verkefnið Nordic Built og verður spennandi að heyra nánar um útfærslu þess og einstaka verkþætti sem ætlað er að endurbæta byggingar og gera þær vistvænni og þar með að auka gæði þeirra. Það er afar mikilvægt að þetta frumkvæði komi frá aðilum á byggingarmarkaði, sem átta sig á því að byggingar framtíðarinnar verða að uppfylla miklu strangari umhverfisskilyrði. Þetta er sumpart til að hægt sé að bjóða upp á vönduð mannvirki, sem endast vel og eru ódýrari í rekstri til lengri tíma litið. Þegar upp er staðið er verkefni þeirra sem standa að Nordic Built hluti af þeirri gríðarstóru og mikilvægu baráttu sem sívaxandi mannkyn stendur í: Hvernig hægt er að tryggja viðhald okkar hér á Jörð, án þess að gengið sé of nærri náttúrulegu jafnvægi hennar.

Svarið er raunar einfalt: Sjálfbær þróun.

Góðir gestir,

Mig langar að staldra við fyrsta markmið sjálfbærnisáttmálans, en inntak þess mætti útleggja sem: «Manngert umhverfi er umhverfi fyrir fólk, það er umhverfi sem er ætlað að tryggja lífsgæði.» (Made for people and promotes quality of life). Það vill oft gleymast við ákvörðunartöku, jafnt stóra sem smáa, að hafa í huga einstaklingana sem koma til með að finna fyrir afleiðingum ákvarðana á eigin skinni. Þegar um er að ræða mannvirki sem ætlað er að standa áratugum eða árhundruðum saman, þá skiptir enn meira máli að hafa þá í huga. Sjálfbær þróun er sá mælikvarði sem okkur ber að nota við mannvirkjagerð, líkt og annars staðar. Það þýðir að við megum aldrei gleyma þeirri sterku tímavídd sem er þetta fyrsta markmið sjálfbærnisáttmálans inniber. Manngert umhverfi þarf að gagnast fólki í dag, á morgun og eftir hundrað ár. Það þarf að tryggja lífsgæði þeirra sem nýta það í dag, án þess að skerða lífsgæði þeirra sem fylla herbergi þess og sali áratugum eftir að upphaflegir íbúar eru komnir undir græna torfu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta