Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. september 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á Degi íslenskrar náttúru

Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á hátíðarsamkomu á Árbæjarsafni á Degi íslenskrar náttúru, 16. september 2012.

Góðir gestir – gleðilega hátíð!

Litlir birkisprotar pota sér upp úr mölinni. Jökulsorfin klöpp er til vitnis um þá stórbrotnu krafta sem mótuðu landið fyrir þúsundum ára. Fugl á leið til vetrardvalar á hlýrri slóðum flýgur hjá.

Þótt við séum stödd í miðri höfuðborginni er náttúran, sem við fögnum í dag, altumlykjandi eins og þessi litli lundur – athvarf hátíðarsamkomunnar okkar – sannar. Steinsnar frá er svo Elliðaárdalurinn, náttúruperla Reykvíkinga. Jafnvel byggingarnar á Árbæjarsafni – mannanna verk -  eru okkur áminning um hversu gjöful náttúran er þar sem efniviðurinn – torf, grjót og tré – er sóttur beint í hennar fang.

Þannig hefur það verið, öld fram af öld, að íslenskar konur og menn hafa lifað af í okkar harðbýla landi vegna þeirra gæða sem náttúran hefur boðið þeim. Það er ekki erfitt að ímynda sér hvers vegna fyrstu ábúendur gamla Árbæjarins töldu það vænlegan kost að setjast hér að. Hér var nægur efniviður í hús og hlóðir og allt í kring draup smjör af hverju strái – spriklandi nýmeti var sótt í laxveiðiá við túnfótinn sem enn í dag er meðal þeirra eftirsóttustu á landinu. Hér nærðist búsmalinn á safaríkri töðu og einmitt á þessum árstíma voru allir sem vettlingi gátu valdið sendir út í móana í kring til að tína alls kyns ber og jurtir.

Hér var líka útsýni til allra átta svo menn gátu séð með góðum fyrirvara ef gest bar að garði. Þegar Reykjavík tók að byggjast upp urðu margir til að á hér og gista áður en haldið var í kaupstað.

Hér eins og svo víða annars staðar tók byggð að þéttast, hægt í fyrstu en svo af sífellt auknum þunga. Smám saman lögðu byggingar og hraðbrautir undir sig holt og hæðir – þar sem áður voru heiðalönd svo langt sem augað eygði blasir nú Breiðholtið við. Borgin breiddi úr sér og reisuleg híbýlin stóðu betur af sér veður og vinda en áður. Þær byggingar eru líka afurðir náttúrunnar, þótt það liggi ef til vill ekki eins mikið í augum uppi og í tilfelli gamla Árbæjarins – sandurinn í steypunni og járnið sem styrkir hana, glerið í gluggunum, tréverkið og tilbúin efni – allt er þetta sótt í auðlindir náttúrunnar.

Það er þörf áminning um samband manns og náttúru að rifja þetta upp því munurinn á torfbæjunum og járnbentu steypuhúsunum liggur þannig í raun ekki svo mikið í efniviðnum heldur miklu fremur í hugarfari mannsins sem sótti sér hann. Á meðan bóndinn var í beinum og áþreifanlegum tengslum við náttúruna sem gaf honum smíðaefnið er margur nútímamaðurinn býsna grunlaus um hvaðan það kemur enda kemst hann aldrei í snertingu við þær auðlindir sem hann nýtir. Auðvitað er það skiljanlegt - hann leggur einfaldlega inn pöntun í Bykó eða Bauhaus og fær vörurnar sendar heim!

Í þessu felst kannski stærsta ógnin sem steðjar að náttúrunni – að rof hefur orðið milli manns og móður Jarðar sem endurspeglast í því að menn sjá ekki lengur samhengi hlutanna. Þegar Árbæjarbóndinn gróf hnullung úr jörðu til að nota í vegg sá hann með eigin augum hvernig skordýrin sem áður áttu sér skjól undir steininum flæmdust í allar áttir í leit að nýjum samastað. Þegar hann risti sér torf í þakið blasti við honum moldarflag. Nútímamaður sem fær steypu til sín á byggingarstað ekur sjaldan eða aldrei fram hjá sárinu í fjallinu þaðan sem sandur í hræruna var numinn.

Það er brýnt náttúruverndarverkefni að endurreisa skilning okkar á orsök og afleiðingu í náttúrunni; á því að gögn og gæði sem við nýtum okkur í daglegu lífi eru sótt í gnægtarbrunna hennar og á því að náttúran er okkur lífsnauðsynlegri en allt annað. Náttúran getur hins vegar spjarað sig ágætlega án okkar allra. Það er hollt að hafa þetta í huga því þannig eykst skilningur okkar á mikilvægi þess að vernda hana og umgangast af virðingu, ekki bara fyrir okkur sjálf heldur komandi kynslóðir.

Góðir gestir.

Dagur íslenskrar náttúru er nú haldinn hátíðlegur öðru sinni. Það er mín von að hann verði lóð á vogarskálar skilnings og elsku þjóðarinnar á landinu sínu og náttúrunni. Það hefur verið einstaklega gleðilegt að sjá hversu myndarlega fólk um allt land fagnar á þessum degi – í öllum landshlutum hafa einstaklingar, félagasamtök, stofnanir, skólar og sveitarfélög skipulagt viðburði og uppákomur – landið bókstaflega iðar af Íslendingum í gönguferðum, ratleikjum, hjólatúrum og fjallgöngum á meðan aðrir sækja söfn og sýningar, njóta fyrirlestra eða fá ráðgjöf og fræðslu náttúrufræðinga og annarra sérfræðinga.

Fjölmiðlar hafa líka tekið daginn upp á sína arma, sem svo sannarlega er í anda afmælisbarns dagsins, Ómars Ragnarssonar – mannsins sem hefur fært okkur hvert náttúruundrið á fætur öðru alla leið heim í stofu. Afmælisdagur hans varð eins og menn muna kveikjan að því að íslensk náttúra eignaðist sinn eigin hátíðardag. Ómar – til hamingu með daginn! Það er ekkert grín þegar afmælisdagur manns er hertekinn með þessum hætti og eiginlega ætti maður að biðjast afsökunar – það er hætt við því að nú sé búið að ákveða afmælisprógrammið hjá þér næstu áratugina í það minnsta!

Þegar við í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu hófumst handa við undirbúning fyrstu hátíðarhalda Dags íslenskrar náttúru í fyrra kom fljótlega upp sú hugmynd að efna - í anda Ómars - til fjölmiðlaverðlauna. Verðlaununum er ætlað að hvetja til hverskyns umfjöllunar um íslenska náttúru, hvort heldur er í því skyni að vekja athygli á einstakri náttúru landsins eða benda á þær ógnir sem steðja að henni. Umfjöllun fjölmiðla um þessi mál er ómetanleg, því mikið ríður á að skapa skilning og sátt í samfélaginu um það mikilvæga verkefni að verja og vernda íslenska náttúru. Í því gegna fjölmiðlar lykilhlutverki því með vandaðri umfjöllun geta þeir komið mikilvægum skilaboðum um ástand landins okkar fljótt og örugglega til almennings.

Það eru þó fleiri en fjölmiðlar og fjölmiðlafólk sem eru mikilvægir þegar kemur að náttúruvernd. Íslensk náttúra væri svo miklu fátækari ef ekki væri fyrir eldhuga sem hafa margir hverjir lagt allt í sölurnar fyrir hana. Einn slíkur eldhugi var Sigríður Tómasdóttir í Brattholti, sem lagði á sig mikið erfiði í baráttu gegn virkjun Gullfoss. Hér á eftir verður veitt í þriðja sinn viðurkenning sem efnt var til á 20 ára afmæli umhverfisráðuneytisins til heiðurs henni og öðrum eldhugum í náttúruvernd.

Góðir gestir.

Á dögunum kvöddum við Guðmund Pál Ólafsson, náttúrufræðing og rithöfund. Fyrst og síðast var hann þó eldhugi og ómetanlegur baráttumaður fyrir íslenska náttúru.  Þar fór maður sem átti ekki í vandræðum með að sjá orsök og afleiðingu í náttúrunni – hans vettvangur var stóra samhengið: lífið allt, lífríkið, vatnið, loftið og jörðin þar sem ekkert getur án annars verið. Kjarninn í boðskap Guðmundar Páls var sá að maðurinn væri hluti náttúrunnar en ekki drottnari hennar. Ævistarf hans var gríðarlegt og framlag hans til náttúruverndar ómetanlegt. Fyrir það erum við þakklát. Þakklæti okkar sýnum við best í verki, með því að virða náttúruna, vernda hana, elska og berjast fyrir henni þegar ógnir steðja að.

Í minningu Guðmundar Páls Ólafssonar hef ég ákveðið að fjárframlag sem munar um renni í náttúrusjóðinn Auðlind, en Guðmundur Páll var hvatamaður að stofnun þess sjóðs sem er ætlað að styrkja og vernda íslenska náttúru.

Íslensk náttúra gefur okkur á hverjum degi tilefni til að sækja okkur nýjan baráttukraft og gleðjast – hvort sem það er yfir hreinu lofti, síkviku ljósi, broti í öldu, steinvölu við fót, fjallasýn, kraftmiklum fossum, hvítum jöklum, mjúkum mosa, svölum andvara, krækilyngi í móa eða ósnortum víðernum. Í dag gerum við okkur dagamun um allt land, fögnum þeim óendanlegu auðæfum sem búa í íslenskri náttúru og þökkum fyrir þau forréttindi að fá að njóta hennar. Megi svo verða áfram um ókomna tíð.

Innilega til hamingju með daginn!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta