Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra við opnun norðurljósaspár
Svandís Svavarsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp við opnun norðurljósaspár Veðurstofu Íslands þann 10. október 2012.
Ágætu gestir,
Oft hefur verið sögð sagan af því þegar athafnaskáldið Einar Benediktsson reyndi að selja útlendingi norðurljósin. Þessi saga var lengst af sögð í gamansömum tóni, en undanfarið hafa viðskipti af því taginu orðið raunhæfur kostur og eru raunar ört vaxandi broddur í ferðamannabransanum. Um þetta vitna til dæmis fréttir frá liðinni helgi, þess efnis að fimmföldun hafi orðið á milli ára í fjölda þeirra ferðamanna sem koma gagngert hingað til lands til að skoða norðurljósin. Sú þjónusta sem hér er verið að hleypa af stokkunum mun skjóta enn styrkari stoðum undir þessa nýju tegund ferðamennsku.
Styttra er síðan skáldin í Ný danskri hvöttu okkur til að horfa til himins. „Myrkviðanna melur / mögnuð geymir skaut“ ortu þau – áttu þar sjálfsagt við hin mögnuðu himinskaut sem norðurljósin eru. Það er ekki ofsagt í laginu, að með því að snúa sér í átt til norðurljósa megi lækna hverskyns bresti innra með manni, jafnvel hina illvígu bölmóðssýki.
Það loðir nokkuð við þjóðarsálina að telja skammdegið til þeirra hluta sem torveldar lífið hér á norðurslóðum. Ásamt skapmiklu veðri má vissulega kenna ljósleysi um það hversu þungur róðurinn var landsmönnum öldum saman – hvort sem það var stuttur vaxtartími að sumri eða langt skammdegi að vetri. Umskiptin yfir í upplýst samfélag voru að sama skapi hröð þegar nútíminn hóf innreið sína. Öllu sem minnti á kulda, trekk og myrkur fyrri alda skyldi úthýst, en kannski var á köflum farið of geyst.
Íslensku sumrin eru heimsþekkt, miðnætursólin og birta út í eitt draga að ferðamenn til að dást að náttúrunni í sumarbirtunni. Þó vetur séu hér myrkir frá náttúrunnar hendi, þá er öðru nær þegar við lítum í kringum okkur dags daglega. Myrkurþjóðinni í norðri þykir vænt um ljósið og Íslendingar hafa gengið rösklega til verks við að úthýsa náttmyrkrinu. Hér um slóðir lýsum við þéttbýli upp af meiri krafti en þekkist víðast hvar.
Í lýsingunni felast að sjálfsögðu bæði öryggi og þægindi, en á seinustu árum hefur fólk vaknað til vitundar um að í þessum efnum sé hægt að ganga of langt. Í auknum mæli áttar fólk sig á því, að ljósmengun sé eitthvað sem stór hluti landsmanna býr við, nokkuð sem skerðir upplifun fólks af næturhimninum.
Einn af kyndilberum aukinnar vitundar um ljósmengun er þingmaðurinn Mörður Árnason, sem þrisvar sinnum hefur spurt jafn marga ráðherra umhverfismála hvort þeir hyggist beita sér fyrir því að athuguð verði ljósmengun á Íslandi og lagt á ráðin með varnir gegn slíkri mengun. Við Mörður ræddum þessi mál í ræðustól Alþingis síðastliðið haust, þar sem hann lagði til að í stað þess að ræða ljósmengun færum við að líta jákvæðum augum á myrkrið, sem ákveðin náttúrugæði, tiltekin verðmæti umhverfis okkur.
Í framhaldinu skipaði ég nefnd, með Mörð í forsvari, sem síðan hefur viðað að sér gögnum um stöðu mála hér á landi og í nágrannalöndunum – og vænti ég tillagna hennar á næstunni.
Myrkurgæðanefndin hefur sett sig í samband við fjölda aðila og víðast eru viðbrögðin á einn veg; hér sé mál sem þurfi að skoða, mögulegt vandamál til framtíðar sem rétt sé að forðast.
Fegurð íslenskrar náttúru og aðdráttarafl felst nefnilega oftar en ekki í þáttum sem eru afar viðkvæmir fyrir afskiptum mannsins. Öræfakyrrðin, víðáttur og óskert fjallasýn – allt eru þetta perlur, nánast einstakar í okkar þéttbýla heimshluta, sem sýna sérstöðu okkar sem fámennrar þjóðar í víðfeðmu landi. Náttúruvernd vill því oft verða línudans, þar sem við reynum að gera ferðamönnum kleift að njóta sérstæðrar náttúru, án þess að tilvist og ágangur þessara sömu ferðamanna gangi hreinlega á þá sérstöðu sem laðar þá á staðinn.
Mögulega verður ein af mikilvægustu niðurstöðum áðurnefndrar myrkurnefndar sú, að um sé að ræða sérstakan og skilgreindan anga náttúruverndar. Að mikilvægt sé að vernda tæra náttmyrkrið okkar, sem leyfi okkur að horfa til himins og njóta stjörnubjartra nátta, dást að dansandi norðurljósum.
Þó ljósagleði okkar mannfólksins geti spillt upplifun okkar af ljósaspili náttúrunnar á næturhimninum, þá er það umfram allt náttúrulegt fyrirbæri, háð þeim duttlungum sem því fylgja. Veðurstofa Íslands hefur áratuga reynslu af því að lesa í náttúruna og miðla áfram til landsmanna hvort von sé á rigningu á Austurlandi að Glettingi eða að hægfara og víðáttumikil lægð sé skammt suðaustur af Jan Mayen. Nú bætir Veðurstofan norðurljósaspá í verkfærakassann sinn, spá sem á að sýna með góðum fyrirvara hvar helst séu líkur á að sjá norðurljós á landinu – og ekki síður hvenær.
Við þessa spádóma nægir ekki að rýna í veðrahvolfið, þ.e. hvort sé þokkalega heiðskírt, heldur þarf einnig að meta hvort sé yfir höfuð nægjanlegt myrkur, m.a. út frá stöðu tunglsins. Þá þarf að líta til þess hversu virk sólin hefur verið, svo hægt sé að segja til um hversu líklegt sé að sólvindur nái að galdra fram ljós yst í lofthjúpi jarðar.
Að baki þessu liggur mikið brautryðjendastarf, en eftir því sem við best vitum, er hvergi annars staðar í heiminum birt spá af þessu tagi.
Ágætu gestir,
Ísland allt árið er mikilvægt átak í ferðaþjónustunni, ekki síst frá sjónarmiði náttúruverndar. Gríðarleg fjölgun ferðamanna undanfarin ár hefur leitt til þess að margir okkar fjölsóttustu ferðamannastaða eru komnir nálægt þolmörkum – og sjálfsagt langt yfir þau um háannatímann. Eigi að verða frekari fjölgun ferðamanna á næstu árum, þyrfti þrennt að koma til. Í fyrsta lagi verður að leggja enn meiri áherslu á uppbyggingu innviða á fjölsóttum ferðamannastöðum og viðkvæmum friðlýstum svæðum. Í öðru lagi væri æskilegt að dreifa ferðamönnum betur um landið, að „búa til“ nýja, vinsæla ferðamannastaði, liggur við að ég segi. Og í þriðja lagi, þá er afar mikilvægt að nýta sem best þá tólf mánuði sem við höfum í árinu, frekar en að einblína á örfáa sumarmánuði sem eina ferðamannatímabilið. Þar kemur norðurljósaspá ugglaust að notum, hjálpar gestum að skipuleggja heimsóknina til að ná sem mestum ljósadansi að vetri.
Himintunglin hafa frá örófi alda verið mannskepnunni uppspretta innblásturs – í myrkur og ljósaspil himingeimsins hafa verið sóttir neistar í ótal trúarbrögð og goðsögur, fjölda ljóða og sagna. Það er ánægjulegt að hleypa hér af stokkunum verkfæri sem gerir fólki kleift að upplifa einn af þessum neistum. Fósturjörðin okkar gerist varla fegurri en undir norðurljósa bjarmabandinu.