Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. apríl 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands árið 2013

Svandís Svavarsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpaði ársfund Náttúrufræðistofnunar Íslands þann 12. apríl 2013 með eftirfarandi orðum:


Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar, góðir fundargestir,

Fyrir fjórum árum ávarpaði ég ársfund Náttúrufræðistofnunar Íslands á tíunda degi mínum í stóli umhverfisráðherra. Í dag erum við stödd hinum megin í hringrásinni, rétt rúmar tvær vikur til kosninga. Það fer ekki illa á því að ramma þetta viðburðaríka kjörtímabil inn með því að mæta á fund við þessa lykilstofnun rannsókna og vöktunar á íslenskri náttúru og vil ég þakka boðið að fá að ávarpa ykkur hér í upphafi ársfundar stofnunarinnar.

Í lífi stjórnmálamanna eru kosningar mikil tímamót, auk þess sem þær geta haft áhrif á starfsumhverfi ráðuneyta og stofnana. Það er því við hæfi að líta um öxl og rifja upp hvaða sporum við stóðum í þegar ég hitti ykkur vorið 2009, þá nýbakaður umhverfisráðherra. Þjóðin hafði upplifað meira samfélagslegt og efnahagslegt umrót en dæmi voru fyrir. Þann 10. maí varð ég þriðji umhverfisráðherra ársins.

Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar tók við gríðarlega erfiðu búi og fyrirséð var að geigvænlegar skuldir myndu sníða opinberum rekstri þröngan stakk. Stofnanir og ráðuneyti bjuggu sig undir niðurskurð með tillögum um sparnað, hagræðingu og forgangsröðun.  Það duldist engum að erfiðir og krefjandi tímar væru framundan, en þar voru ekki síður skapandi tækifæri. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er að finna ítarlegan kafla um umhverfi og auðlindir, sem er metnaðarfyllsta stefnumörkun íslenskrar ríkisstjórnar á því sviði. Loksins kom að því að umhverfismálin öðluðust þann sess sem þessum mikilvæga málaflokki ber!

Náttúrufræðistofnun hefur líkt og aðrar stofnanir fundið fyrir niðurskurði, en jafnframt verið framarlega í forgangsröðinni þegar auknir fjármunir hafa verið til ráðstöfunar. Ég er gríðarlega stolt af þeim árangri sem náðst hefur á liðnum fjórum árum í umhverfis- og náttúruverndarmálum – og munar þar heldur betur um framlag Náttúrufræðistofnunar til ýmissa stærstu verkefna kjörtímabilsins.

Þrátt fyrir að stefna ríkisstjórnarinnar hafi verið óvenju metnaðarfull á óvenjulegum tímum, þá hefur náðst mikill árangur; þau markmið í umhverfis- og auðlindamálum sem rötuðu á blað vorið 2009 hafa meira og minna náðst. Þann mikla árangur má þakka þrotlausri vinnu ótal fólks, starfsmönnum Náttúrufræðistofnunar Íslands færi ég þakkir fyrir ykkar hlut.
Að loknu viðburðarríku kjörtímabili er margt sem mætti nefna, en mig langar hér að tæpa á nokkrum helstu áföngunum sem náðst hafa.

Einna hæst ber að endurskoðun laga um náttúruvernd er lokið, lögin voru samþykkt á Alþingi fyrir skömmu og munu taka gildi 1. apríl á næsta ári. Undirbúningur að endurskoðun laganna var ferli sem tekið hefur allt kjörtímabilið heil fjögur ár. Viðamikil Hvítbók var samin með aðkomu fjölda sérfræðinga, fjallað var um tillögurnar á umhverfisþingi, frumvarp samið og sett í opið umsagnarferli og að lokum tók Alþingi málið til rækilegrar skoðunar. Þetta er líklega einhver mesti undirbúningur að lagasmíð sem ráðist hefur verið í hér á landi. Þannig viljum við líka að sé unnið að heildarendurskoðun svo mikilvægra laga sem lög um náttúruvernd, mótunar- og samráðstími sem er nauðsynlegur og ætti kannski frekar að vera reglan en undantekningin.

Af sama meiði er vinna við mat á framkvæmd og endurskoðun laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum sem lauk í síðustu viku þegar nefndin afhenti mér drög að skýrslu og tillögur sínar upp á 400 blaðsíður þar sem finna má ítarlegar og greinargóðar tillögur um lagaumgjörð villtra dýra hér á landi. Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar hafa lagt af mörkum gríðarlega mikla vinnu í báðum þessum málum og vil ég  nota tækifærið og þakka stofnuninni fyrir framlag hennar og starfsmanna í þessum mikilvægu náttúruverndarmálum.

Við gildistöku nýju náttúruverndarlaganna verða töluverðar breytingar á verkefnum Náttúrufræðistofnunar. Stofnunin fær veigameira hlutverk við undirbúning náttúruminjaskrár og mun halda skrá yfir ýmis náttúrufyrirbæri sem njóta sérstakrar verndar. Sett verður á fót fagráð sem skal vera stofnuninni til ráðgjafar um gerð tillögu um minjar á náttúruminjaskrá. Markmið laganna er að vernda fjölbreytni náttúrunnar, bæði líffræðilega og jarðfræðilega auk fjölbreytni landslags. Markmiðið er jafnframt að endurheimta röskuð vistkerfi og auka þol vistkerfanna gegn náttúruhamförum og hnattrænum umhverfisbreytingum. Með þessum lögum nást fram mikilvægar breytingar á náttúruverndarlöggjöfinni og staðfestar eru ýmsar forsendur og grundvallarviðmið sem styrkja munu náttúruvernd í framtíðinni, þ.e. megin reglur og sjónarmið við ákvarðanatöku er varða náttúruvernd þ.á m. að ákvarðanir skulu byggjast á vísindalegri þekkingu og varúðarreglan er lögfest.

Veigamestu breytingarnar sem varða Náttúrufræðistofnun Íslands tengjast vöktun, mati á ástandi náttúrunnar, og undirbúningi og gerð tillagna um verndun landsvæða, vistkerfa, vistgerða og tegunda. Lögin innihalda ítarlegri ákvæði um friðlýsingar og verndarmarkmið þar sem sérstaklega er tekið á vistgerðum, vistkerfum og tegundum en jafnframt á jarðminjum, vatnasvæðum, landslagi og víðernum. Á því sviði gegnir Náttúrufræðistofnun lykilhlutverki í samvinnu við aðrar rannsókna- og vöktunarstofnanir, s.s. Hafrannsóknarstofnun,Veiðimálastofnun, Veðurstofuna, Landgræðsluna, Skógræktina og náttúrustofurnar. Uppbygging, skipulagning og samræming gagnagrunna og upplýsinga um náttúru landsins er grunnurinn að öflugri framkvæmd náttúruverndar og sjálfbærri nýtingu náttúrunnar. Ég tel mikilvægt að þau mál verði tekin föstum tökum og að gögn um náttúru landsins verði aðgengileg í samræmi við stefnu og framkvæmdaáætlun um líffræðilega fjölbreytni.

Kortlagning náttúru Íslands og skilgreining vistgerða á láglendi, í ferskvatni og grunnsævi er nú höfuðverkefni stofnunarinnar fram til 2015. Tímasetning þess fellur vel saman við ákvæði nýju náttúruverndarlaganna, því árið 2015 skal leggja fyrir Alþingi í fyrsta sinn tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun og í kjölfarið gefa í fyrsta sinn út náttúruminjaskrá. Það má því búast við að þessi fyrsta skrá verði byggð á traustum og ítarlegum upplýsingum um náttúru landsins og verði vel studd bestu fáanlegu vísindalegum gögnum og  verði þar með fræðilega vel undirbyggð og standist vísindalega gagnrýni. Í því sambandi er vert að huga að skuldbindingum okkar um líffræðilega fjölbreytni þar sem stefnt er að því að friðlýst svæði sem hafi sérstaka þýðingu fyrir verndun líffræðilegrar fjölbreytni þeki um 17% af þurrlendi og votlendi og um 10% hafsvæða.

Stór áfangi náðist í að skapa andrúmsloft sáttar og samvinnu um ráðstöfun landsvæða þegar rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða var samþykkt í byrjun árs 2013. Rammaáætlun var á annan áratug í undirbúningi með aðkomu fjölda stofnana og ótal sérfræðinga. Framlag sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar á öllum stigum vinnunnar var mikilvægur grunnur að því að endanleg tillaga byggði á bestu fáanlegu upplýsingum. Hafin er vinna við friðlýsingu þeirra 20 virkjunarhugmynda sem féllu í verndarflokk rammaáætlunar í samstarfi ráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar. Rammaáætlun er líklega eitt mikilvægasta skrefið í að sætta sjónarmið náttúruverndar og orkunýtingar sem hafa togast á allt frá sjöunda áratug síðustu aldar og undirstrikar hún þýðingu náttúruverndar á Íslandi, núlifandi og komandi kynslóðum til heilla.

Að mínu mati er mikilvægt að náttúruverndaráætlun og rammaáætlun spili vel saman og að svæði í verndarflokki rammaáætlunar og verndun þeirra nýtist sem best til verndar náttúru landsins, þ.m.t. líffræðilegri fjölbreytni, jarðfræði, landslagi og víðernum. Huga þarf að samlegðaráhrifum þeirra og hvernig verndarsvæði rammaáætlunar nýtist í uppbyggingu á neti verndarsvæða fyrir líffræðilega fjölbreytni.

Góðir gestir,

Að undanförnu höfum við verið að uppskera árangur langrar og stundum strangrar vinnu á mörgum sviðum. Fyrst vil ég nefna þrjú ný svæði sem voru tekin á skrá Ramsar-samningsins í síðust viku, þ.e. Guðlaugstungur, Eyjabakka og Snæfellssvæðið og Andakíl. Þetta er fagnaðarefni og hvatning um að huga að tilnefningu fleiri votlendissvæða á skrána.
Eftir áralanga umræðu og vangaveltur um aðild að samkomulagi um votlendisfarfugla Evrópu og Afríku er Ísland nú loksins orðið aðili að AEWA samningnum, mikilvægu samkomulagi um verndun farleiða og viðkomustaða þessara tegunda. Náttúrufræðistofnun hefur verið falin umsjón og framkvæmd samningsins hér á landi og er mikill fengur fyrir stofnunina að taka þátt í framkvæmd þess með formlegum og fullgildum hætti. Ísland hefur boðist til hýsa næsta fund aðildarríkjanna hér á landi árið 2015, en ákvörðun um það verður væntanlega tekin fljótlega.

Þriðja atriðið sem ég ætla að nefna er tillaga stofnunarinnar um heildstæða vöktunaráætlun fyrir fugla landsins. Það er mikill fengur að fá samantekt á ástandi og stöðu fuglastofna og tillögur um það hvernig standa skuli að vöktun á landsvísu með samræmdum, skipulegum og reglubundnum hætti. Þetta gefur okkur möguleika á að forgangsraða verkefnum og fjármunum og skipuleggja samvinnu allra þeirra sem stunda vöktun fugla til að ná yfir allt landið og þær tegundir sem mikilvægast er að vakta.
Náttúra landsins er grundvöllur og undirstaða afkomu þjóðarinnar og verndun og nýting hennar því okkar mikilvægasta verkefni. Endurskipulagning stjórnarráðsins, breytt verkaskipting milli ráðuneyta og stofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins verður vonandi til þess að okkur takist að efla náttúruvernd og bæta sjálfbæra nýtingu auðlinda.

Góðir gestir,

Efling ráðuneytisins, skipting í nýjar skrifstofur og breytingar á málaflokkum og verkefnum hafa miðað að því að bæta skilvirkni, vinnulag og árangur í umhverfis- og auðlindamálum. Við þurfum að halda áfram að skoða hvernig við getum bætt árangur í þeim tilgangi að gera kerfið skilvirkara og heildstæðara. Að mínu mati felast mikil tækifæri í þeim breytingum sem búið er að gera á stjórnkerfinu og þeim tillögum sem liggja á borðinu núna s.s. um breytingu á villidýralögunum, lögum um landgræðslu og skógrækt, og svo hugmyndum um umbætur á  stofnanakerfinu. Jafnframt er mikilvægt að skoða og meta þann árangur sem hefur náðst í verndun og sjálfbærri nýtingu auðlinda og meta hvernig best sé að skipa málum til þess að bæta árangur og ástand náttúrunnar.

Ágætu starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands  og aðrir gestir,

Ég vil hér að lokum nota tækifærið til að þakka ykkur fyrir gefandi samstarf undanfarin fjögur ár á ýmsum sviðum, en ekki síst við það mikilvæga verkefni að auka þekkingu okkar og skilning á gangverki náttúrunnar, eðli hennar og þýðingu fyrir samfélagið.  Okkur er falið það tímabundna verkefni að halda utan um náttúruna fyrir komandi kynslóðir og skila henni helst í betra ástandi en þegar við tókum við. Ég tel að sem betur fer sé skilningur á því að aukast og við séum á réttri leið. Grundvöllur þess að við tökum skynsamlegar ákvarðanir um vernd og nýtingu náttúrunnar er að við þekkjum hana. Til þess þarf rannsóknir og vöktun, lykilstofnun okkar á því sviði er sú sem heldur ársfund sinn hér í dag!

Góðir starfsmenn Náttúrufræðistofnunar, ég óska ykkur alls heilla í ykkar mikilvægu störfum.  Ykkar störf eru grundvöllur sjálfbærrar framtíðar í landinu,

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta