Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. mars 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra 2014-2017

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Veðurstofu Íslands 2015

Ágætu starfsmenn Veðurstofu Íslands og aðrir gestir,

Það er mér ánægja að fá að ávarpa þennan ársfund Veðurstofu Íslands. Ég hef gegnt starfi umhverfis- og auðlindaráðherra í aðeins tæpa þrjá mánuði og hafa verkefni Veðurstofunnar verið mjög í sviðsljósinu í þann stutta tíma. Mesta hraungosi á Íslandi í yfir tvær aldir er nýlokið, þótt enginn treysti sér til þess að segja hvort nú taki við hvíld í eldvirkni við Vatnajökul, eða hvort þetta sé bara stutt stund milli stríða. Við vorum að mörgu leyti heppin með þetta eldgos, ef þannig má að orði komast, því það kom upp fjarri byggðum og olli ekki búsifjum með öskufalli og vatnsflóðum, eins og hætt er við þegar gýs í Bárðarbungueldstöðinni.

Hins vegar skaut í gosinu upp kollinum vandamál sem við Íslendingar höfum ekki glímt við í manna minnum. Mengunarský lögðust tímabundið yfir byggðir í öllum landshlutum, oft með litlum fyrirvara og vöktu ugg manna.

Skemmst er frá því að segja að Veðurstofan brást fljótt og vel við þessum óvænta vanda og á þakkir skildar fyrir það, sem og Umhverfisstofnun. Gerðar voru spár um gasmengun og viðvaranir gefnar ef hún fór yfir þau mörk sem hættuleg mega teljast. Við goslok sendi Veðurstofustjóri starfsfólki verðskuldaðar þakkir fyrir mikil og góð störf og tók ég undir þau orð. Ég vil ítreka hrós mitt til starfsmanna og stjórnenda stofnunarinnar hér, því það er mikið verk fyrir litla stofnun á alþjóðlega vísu að fylgjast með jarðvá, sem hefur ekki einungis áhrif á Íslendinga, heldur getur ógnað alþjóðlegri flugumferð.

En verkefni Veðurstofunnar er auðvitað ekki síður að fylgjast með lofthjúpnum en jarðskorpunni. Veðrið hefur ekki verið til friðs þennan vetur hér á Íslandi, frekar en landið sjálft og öflin sem í því búa. Um veðurfarið að undanförnu er best að hafa sem fæst orð, því þau væru ekki endilega öll við hæfi að  á svona fínum fundi. Í endalausum umhleypingum er þó gott að vita af öflugri Veðurstofu. Oftar en einu sinni hefur verið ógn af völdum bylja, vatnavaxta og ofanflóða í vetur. Samgöngur og daglegt líf hafa raskast óvenju oft í ótíðinni. Spár og viðvaranir Veðurstofunnar eru brýn nauðsyn fyrir öryggi okkar Íslendinga og atvinnuvegi. Ég væri hins vegar alveg sátt við að lát verði á lægðaganginum nú, eins og eldgosinu, þótt ekki væri til annars en að starfsfólkið hér gæti örlítið slakað á eftir þennan býsnavetur.

Góðir gestir,

Ég sótti Veðurstofuna heim fljótlega eftir að ég tók embætti og var ánægð að sjá að hér er öflug stofnun búin góðum tækjakosti. Það er nauðsynlegt fyrir vísinda- og öryggisstofnun eins og Veðurstofuna að hafa öflugt tölvukerfi og mælitæki til að vakta loft, jörð og haf. Það er ánægjulegt að danska veðurstofan hyggst setja upp nýja ofurtölvu hér á landi í samvinnu við Veðurstofu Íslands. Þau nefna sem rök fyrir því m.a. að hér sé tölvan knúin rafmagni frá endurnýjanlegri orku. Einnig að staðsetningin sé nokkuð miðsvæðis fyrir veðureftirlitssvæði Danadrottningar, sem nær yfir Grænland ásamt Danmörku sjálfri. Það er þó ljóst að þessi ákvörðun hefði ekki verið tekin ef ekki hefði verið fyrir hendi mikið traust á Veðurstofunni og starfsfólki hennar. Það er ekki sjálfgefið að lítil stofnun á mælikvarða heimsins njóti svo mikils trausts. Þar kemur meðal annars til löng reynsla Veðurstofunnar af flugveðurþjónustu og góð frammistaða í Eyjafjallajökulsgosinu, þar sem stofnunin lenti allt í einu í miðpunkti ákvörðunartöku sem varðaði öryggi flugs í allri Evrópu.

Tölvurnar hér eru öflugar og tækin fín, en það er mannauðurinn sem skiptir mestu máli. Ég skynjaði mjög vel í heimsókn minni til ykkar að hér er öflugt og gott starfsfólk, sem vinnur af samviskusemi, áhuga og elju. Ég tel að Veðurstofan sé sterk stofnun og hún hefur staðist vel margvíslegt álag sem hefur dunið á okkur Íslendingum á undanförnum árum og hefur kallað meðal annars á mikið aðhald í ríkisrekstri. Við þurfum þó alltaf að horfa á tækifæri til að bæta rekstur og efla hagkvæmni í íslensku þjóðfélagi, því hér þurfa fáar hendur oft að vinna stór verk. Ég vil skoða möguleika á að samþætta vöktun og rannsóknir á íslenskri náttúru enn betur en nú er gert, þannig að kraftar sérfræðinga og stofnana nýtist sem best.

Það þarf líka að huga að því að miðla þeirri þekkingu sem hér er til staðar enn betur til almennings. Nær allir fylgjast með daglegum veðurspám og með upplýsingum frá stórviðburðum eins og eldgosum og jarðskjálftahrinum. Veðurstofan hefur einnig hlutverk varðandi loftslagsbreytingar og ég vil fela henni að leiða gerð nýrrar skýrslu um líkleg áhrif þeirra á Íslandi, sem myndi byggja á íslenskum rannsóknum og niðurstöðum Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC.

Góðir gestir,

Að lokum vil ég óska ykkur góðs fundar og hlakka til samstarfs við ykkur í framtíðinni.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta