Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. mars 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra 2014-2017

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ráðstefnu um lífrænan úrgang

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfarandi ávarp á ráðstefnu um lífrænana úrgang sem haldin var í Gunnarsholti 20. mars 2015 undir yfirskriftinni „Sóun minna – nýtum meira“


Ágætu ráðstefnugestir,

Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur hér í Gunnarsholti á ráðstefnu um lífrænan úrgang.

Saga Gunnarsholts er merkileg og hefur staðurinn verið miðstöð landgræðslustarfs í 85 ár. Mikil fagþekking er til staðar hjá Landgræðslu ríkisins varðandi uppgræðslu landsins og mikilvægt að eiga gott samstarf við stofnunina þegar kemur að umfjöllun um nýtingu á lífrænum úrgangi. Ég vil einnig sérstaklega þakka Sveini Runólfssyni forstjóra Landgræðslu ríkisins fyrir þetta góða heimboð. Það á einkum vel við að halda ráðstefnu um lífrænan úrgang hér í Gunnarsholti þar sem ötullega er unnið að rannsóknum og þróun á sviði landgræðslu. Kærar þakkir.

Breyting á lögum um meðhöndlun úrgangs sl. vor hafði í för með sér að ýmsar lífbrjótanlegar afurðir teljast nú hráefni, sem hægt er að endurvinna, t.d. sláturúrgangur, fiskúrgangur, húsdýraskítur, seyra, timbur, pappír og pappi.

Við getum öll verið sammála um að það er sóun á auðlindum að nýta ekki lífrænt hráefni sem áburð og nota t.d. til landbóta og ræktunar. Það sparar gjaldeyri til lengri tíma og dregur úr urðun. Sveigjanlegri skilgreining var því orðin tímabær til að auka möguleikana á því að skila næringarefnunum aftur til náttúrunnar og loka hringrás næringarefnanna.

Fyrir nokkrum árum vakti Leiðbeiningarstöð heimilanna athygli á mikilvægi þess að gera safnhaug í görðum því mikið af því sorpi sem fellur til á heimilum er niðurbrjótanlegt. Húsmæður hafa alltaf þurft að vera hagsýnar og eru því meðvitaðar um mikilvægi auðlinda okkar og einnig ekki síst bændur sem hafa verið ötulir við uppgræðslustarf landinu til hagsbóta.

Það er ljóst að aukin markmið um notkun lífræns áburðar nást ekki í einni svipan og ýmsa þröskulda að yfirstíga. Má þar nefna óhagkvæman flutning lífræns hráefnis í okkar stóra og dreifbýla landi. Markmiðið er samt alltaf að draga úr sóun á öllum vígstöðvum og þurfum við fyrst og fremst að byrja á okkur sjálfum.

Einn angi þessa máls er matarsóun. Ég tel það afar mikilvægt að sporna gegn matarsóun. Í því skyni og til að fylgja eftir málþingi sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið stóð fyrir í apríl 2014 undir yfirskriftinni „Hættum að henda mat“, skipaði forveri minn starfshóp sem hefur það hlutverk að móta tillögur um hvernig draga megi úr sóun matvæla. Hópnum er ætlað að benda á hvetjandi leiðir til að nýta hráefni betur við vinnslu matvara sem og fullunnar matvörur eftir að þær eru komnar til neytenda, veitingastaða, framleiðenda og söluaðila. Þá skal hópurinn leggja fram tillögur um hvernig auka megi fræðslu um matarsóun, meðal annars um áhrif umbúða og skammtastærða. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum sínum nú í apríl.

Ein albesta sparnaðaraðferðin er að henda sem minnstu af mat. Ef afgangar eru borðaðir fljótt eða frystir til síðari nota, fer buddan innan skamms að finna fyrir muninum. Mín kynslóð ólst upp við það að henda ekki neinu, ekki einu sinni brauðskorpu. Hugsið ykkur.

Með breytingu á lögunum sl. vor er í fyrsta sinn hér á landi kveðið á um úrgangsforvarnir. Þó að þetta séu nýmæli í löggjöf og jafnvel hugsun og breytni nútímamannsins þá er þetta ekki nýtt af nálinni eins og ég gat um áðan. Aðferðarfræði úrgangsforvarna var svo sjálfsögð hjá kynslóðum afa okkar og ömmu þegar nýtni var höfð að leiðarsljós. Áður fyrr var nýtni og nægjusemi uppspretta að hugmyndum um hvernig hægt væri að nota hluti betur og á annan hátt þegar hefðbundnu hlutverki þeirra var lokið. Ég hef ákveðið að í almennri stefnu um úrgangsforvarnir sem verður gefin út fljótlega verði höfuðáhersla lögð á að draga úr og koma í veg fyrir sóun matvæla.

Við höfum verkefni að vinna að innræta komandi kynslóðum þessa miklu samfélagslegu ábyrgð. Þar þurfum við að koma inn nýrri og skapandi hugsun, sem um leið byggir á fortíðinni og reynslu fyrri kynslóða. Sóun er siðferðislegt vandamál og í því felst heilmikil áskorun að takast á við og breyta hversdagslegum venjum sem hafa orðið til á löngum tíma.

Stöðugt rekstrar- og lagaumhverfi þarf að vera til staðar á sviði úrgangsmála. Fyrir hendi þarf að vera langtímastefna með skýrum markmiðum þar sem málaflokkurinn er í mikilli þróun og kallar á, í sumum tilvikum, fjárfestingar til lengri tíma.

Móta þarf framtíðarstefnu í úrgangsmálum og úrgangsforvörnum í samstarfi við sveitarfélög, atvinnulífið og aðra hagsmunaaðila með það sameiginlega markmið að auka endurvinnslu og endurnýtingu þess úrgangs sem til fellur. Verklagi þarf að breyta við stefnumótunina og að einhverju leyti þurfum við að tileinka okkur nýtt hugarfar og eyða ákveðinni óvissu sem hefur ríkt í málaflokknum.

Spurt hefur verið hver eigi að draga vagninn í úrgangsmálum.

Samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs ákveða sveitarstjórnir fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu, bera ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Sveitarfélög gegna því lykilhlutverki í stefnumótun hvað úrgangsmál varðar sem endurspeglast meðal annars í svæðisáætlunum um meðhöndlun úrgangs. Atvinnulífið hefur þá lengi haft forgöngu á sviði úrgangsmála. Þar má nefna frumkvæði atvinnulífsins og hugmyndir sem urðu síðan að Úrvinnslusjóði, vinnu að bættri framleiðslutækni og nýtingu hráefnis og nýsköpun á ýmsum sviðum. Ljóst er að gott samstarf atvinnulífs, sveitarfélaga og ríkisins er forsenda þess að góður árangur náist í stjórn úrgangsmála.

Nefnd á vegum ráðuneytisins, svokallaður samráðsvettvangur um úrgangsmál, vinnur nú að hugmyndum um heildarendurskoðun laga um meðhöndlun úrgangs. Áhersla er lögð á að skýra ábyrgð þeirra aðila sem koma að úrgangsmálum, ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs, til að koma í veg fyrir ágreiningsmál og tryggja starfsfrið innan málaflokksins. Grundvallarþjónusta fyrir meðhöndlun úrgangs þarf ávallt að vera til staðar og er því mikilvægt að skýra ábyrgðar- og verkaskiptingu þeirra aðila sem koma að málaflokknum til að tryggja stöðugleika til framtíðar.

Svarið við því hver eigi að draga vagninn er því; við öll, saman, enda berum við öll ábyrgð á að skila jörðinni til komandi kynsslóða þannig að sómi sé að.

Ágætu ráðstefnugestir.

Heiti þessari ráðstefnu „Sóum minna – nýtum meira“ gefur von um breytt hugarfar og jákvæða tíma í úrgangsmálum, eða væri ekki réttara að segja málefnum auðlindanýtingar.

Að lokum vona ég að ráðstefnan verði fræðandi og uppbyggileg og hvatning til okkar allra til góðra verka á þessu sviði.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta