Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á Degi íslenskrar náttúru 2015
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfarandi ávarp í hátíðarathöfn sem haldin var í tilefni Dags íslenskrar náttúru þann 16. september 2015.
Góðir gestir – til hamingju með daginn!
Þessar fallegu vísur fann ég nýlega á servéttu.
Tjaldurinn svífur um sólríkan dag
svo sest hann í fjöru hjá nausti og bátum,
í töfrandi birtu hann trítlar um vor,
hann tístir og skrækir af fagnaðarlátum.
Svo fer hann um túnið, þar hefur hann hátt
en hlustar á daganna lífsglaða skvaldur.
Mót sumrinu teygir sinn glóandi gogg
minn glaðlegi vinur, hinn draumfagri tjaldur.
Í umræðu um íslenska náttúru er iðulega dregið fram hversu stórbrotin og tignarleg hún er. Við þekkjum öll hvernig þessir eiginleikar hafa dregið til sín erlenda gesti; ferðamenn og kvikmyndagerðafólk sem í æ ríkari mæli nýtir sér leiktjöld íslenskrar náttúru í kvikmyndir, sjónvarpsþætti og auglýsingar.
Íslensk náttúra er þó svo miklu meira því sennilega er leitun að jafn fjölskrúðugu og margbreytilegu náttúrufari og landslagi og hér er. Tjaldurinn með sinn glóandi gogg, er jafn mikill hluti íslenskrar náttúru og voldug fjöll og klettar. Fossar landsins eru margir hverjir stórbrotnir og kraftmiklir en iðulega safnast litlar lækjarsprænur saman til mynda þetta afl. Á úfnu hrauni sem myndaðist í eldsumbrotum vex viðkvæmur mosi. Og hrikalegir jöklar láta smám saman undan íslenskum hnúkaþey.
Öll eigum við okkar óskastaði og uppáhaldsfyrirbæri í íslenskri náttúru. Það getur verið tjörn í túnfætinum heima, fugl á borð við tjaldinn eða lóuna, lundur í íslenskum skógi, fjall sem býður einstakt útsýni, lambagras á heiði eða leynistaður sem geymir ljúfar minningar.
Sjálf á ég fleiri en einn uppáhalds stað í íslenskri náttúru enda er erfitt að bera saman staði á borð við Arnarfjörð þar sem ægifegurð hrikalegra fjalla umlykur allt og svo hinn gróðursæla og búsældarlega Svarfaðardal þar sem ég dvaldi sem barn, en margir telja hann með fegurstu sveitum landsins.
Þingvellir eiga sér líka sérstakan stað í hjarta mér – ekki bara vegna sinnar miklu og ríku sögu og náttúrufegurðar sem allir þekkja, heldur ekki síður vegna þess að þar giftist ég honum Páli mínum fyrir um aldarfjórðungi. Síðustu ár hef ég svo notið þess heiðurs að veita Þingvallanefnd formennsku sem mér hefur þótt ákaflega mikils virði.
Einn er sá staður sem ég sæki þó hvað mest í en það er unaðsreiturinn minn í Blöndudal þar sem ég nota hvert tækifæri til að gróðursetja og rækta upp tré sem og jarðarber.
Það er sennilega sá staður þar sem ég hef lagt hvað mest af mörkum til náttúrunnar og kannski er það einmitt þess vegna sem staðurinn verður mér æ mikilvægari, því það er eins og maður skilji eftir hluta af sjálfum sér í landinu sem maður ræktar – líkt og maður skjóti rótum með plöntunum sem maður stingur niður.
Það er fátt betra en að finna fyrir því að maður leggi sitt af mörkum til að hlúa að jörðinni og landinu sem við eigum öll saman. Það er enda siðferðisleg skylda okkar allra að ganga þannig um landið að komandi kynslóðir taki við því í jafngóðu eða betra ásigkomulagi en það var í þegar við fengum það til varðveislu.
Undirstaða alls gróðurs og lífs er að finna í því sem í daglegu tali nefnist moldin og Steinn Steinarr nefndi „Drottningu lífsins, móður og lífgjafa allra lifandi“. Jarðvegur á Íslandi er um margt einstakur og breytilegur. Það má til sanns vegar færa að moldin líkt og maðurinn mótast af umhverfi og atlæti.
Uppgræðsla hér á landi er saga um ótrúlega elju og eldmóð þeirra sem hafa starfað að vernd jarðvegs og gróðurs í meira en heila öld. Að þessu hafa bændur og vísindamenn unnið af mikilli natni og nákvæmni, leitað leiða til að hefta sandfok, lagað og grætt til að nýta landið á sjálfbæran og vistvænan hátt og skapað verðmæti í þágu samfélagsins alls. Það þekkir enginn betur landið en sá sem yrkir jörðina samkvæmt bestu mögulegu þekkingu og varðveitir auðlindina fyrir komandi kynslóðir.
Hér á eftir mun ég einmitt heiðra einstaklinga sem af mikilli eljusemi og með skýrri framtíðarsýn hafa lagt sig fram um að bæta landið með ræktun, oft á tíðum við ákaflega erfið skilyrði. Þessir einstaklingar hafa tekist á við landgræðslu og skógrækt við sorfnar strendur og á hrjóstrugum heiðum og sýnt þannig í verki að þeim er annt um þetta land – þeir hafa lagt hug og hönd í verkið án þess að berja sér á brjóst. Nú er komið að okkur að þakka fyrir.
Í ár er Dagur íslenskrar náttúru haldinn hátíðlegur í fimmta sinn og nú á sjötugasta og fimmta afmælisdegi Ómars Ragnarssonar. Vil ég nota þetta tækifæri og óska afmælisbarninu til hamingju sem og öllum landsmönnum á þessum fallega degi.
Góðir gestir,
Íslensk náttúra er sá jarðvegur sem við Íslendingar erum sprottnir af og rétt eins og náttúran á sér ólíkar hliðar höfum við ólíkar hugmyndir um hvað ber af í þessu margbrotna sköpunarverki.
Dagur íslenskrar náttúru gefur okkur gott tækifæri til að fagna fjölbreytileika landsins og benda á hvað það er sem hvert og eitt okkar kann mest og best að meta í náttúrunni. Þar gegna fjölmiðlar einnig lykilhlutverki og hér á eftir afhendi ég að venju Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins aðila sem hefur haldið íslenskri náttúru á lofti í umfjöllun sinni.
Íslensk náttúra hefur reyndar lag á að koma sér í fjölmiðla því reglulega minnir hún á sig með því að ræskja sig hressilega, til dæmis með jarðhræringum, ofsaveðrum, ofanflóðum, skriðuföllum og jökulhlaupum. Þá er ómetanlegt að hafa vaska sveit vaktmanna sem fylgjast dag og nótt með því sem þessi duttlungafulla náttúra tekur upp á hverju sinni.
Þannig er íslensk náttúra alltumlykjandi í starfi Veðurstofu Íslands og því vel við hæfi að fagna henni hér. Og ekki þykir mér verra að þessi lykilstofnun íslenskrar náttúru sé svo að segja í bakgarðinum hjá sjálfri mér – í öllu falli er traustvekjandi að sjá hana út um stofugluggann þegar Kári geisar eða jörð spúir eldi og brennisteini.
Að öllu gamni slepptu þá er íslensk náttúra svo sannarlega órjúfanlegur hluti okkar daglega lífs og lætur engan sem býr í þessu landi ósnortinn. Það er mín von að Dagur íslenskrar náttúru verði okkur öllum gleðiríkur og jákvæð áminning um þann fjölbreytta fjársjóð sem náttúra landsins okkar býr yfir. Um leið brýni hann okkur til góðra verka í að vernda hana og varðveita fyrir komandi kynslóðir.