Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra við setningu ársfundar Eldvarnabandalagsins.
Ágætu ársfundargestir,
Eldvarnir þjóna þeim mikilvæga og ég leyfi mér að segja göfuga tilgangi að vernda líf, heilsu og eignir fólks. Á hverju ári látast að meðtali næstum tvær manneskjur í eldsvoðum. Fjöldi annarra verður fyrir líkamlegu og andlegu tjóni og veruleg verðmæti fara í súginn ár hvert. Engum skyldi því blandast hugur um mikilvægi þess að vel sé staðið að eldvörnum í landinu.
Það er mér því fagnaðarefni að þið sem standið að Eldvarnabandalaginu skulið hafa sameinað eldmóð ykkar, krafta, reynslu og þekkingu í því skyni að auka eldvarnir á heimilum og vinnustöðum.
Sú samvinna sem Mannvirkjastofnun vinnur að um fræðslu og eldvarnir er mikilvæg til að stuðla að eflingu eldvarna, ekki síst á heimilunum í landinu. Öflugt samstarf um fræðsluefni fyrir heimili og stofnanir með þeim sem hafa þekkingu, reynslu og vilja er miklu líklegra til að skila árangri en það sem hver baukar í sínu horni.
Við höfum mýmörg dæmi um hvernig samvinna í eldvörnum hefur borið ríkulegan ávöxt. Má þar nefna samvinnu Mannvirkjastofnunar, slökkviliða og Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélags Íslands um gerð gagnagrunna.
Þá hefur það sýnt sig að rannsóknir eru mikilvægur hlekkur í forvarnastarfi. Þær sýna að mörg heimili búa við góðar eldvarnir, en því miður er engu að síður pottur víða brotinn í þeim efnum.
Sérstaklega langar mig að nefna sláandi niðurstöður sem leiða í ljós að tveir hópar standa höllum fæti í eldvörnum og eru því berskjaldaðri fyrir eldsvoðum en aðrir. Hér er um að ræða ungt fólk og þá sem búa í leiguhúsnæði. Það er mikilvægt að draga fram staðreyndir af þessu tagi svo unnt sé að skilgreina áhersluverkefni í forvarnastarfi.
Við getum að vissu marki stuðlað að auknu öryggi fólks og eigna gagnvart eldsvoðum með ákvæðum um eldvarnir í lögum og reglugerðum. En þegar kemur að eldvörnum innan veggja heimilanna getur frumkvæði og ábyrgð íbúanna skilið milli feigs og ófeigs.
Sú vísa verður aldrei of oft kveðin að miklu skiptir að fyrir hendi sé virkur eldvarnabúnaður á borð við reykskynjara og slökkvitæki. En kannski er ekki síður mikilvægt að gera fólki grein fyrir áhættunni sem vissulega er fyrir hendi á hverju heimili. Áhættu sem hægt er að lágmarka með því að kenna sem flestum að bregðast við og draga úr hættu á að eldur komi upp. Ég er sannfærð um að þrotlaust forvarnastarf á vegum Eldvarnabandalagsins, slökkviliðanna og slökkviliðsmanna um allt land skili árangri hvað þetta snertir.
Það gleður hjarta sveitarstjórnarkonu eins og mín að sjá að sveitarfélög ganga nú á undan með góðu fordæmi við innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits í samvinnu við Eldvarnabandalagið, eins og fjallað verður um hér á eftir. Vel fer á því enda hafa fáir ef nokkrir jafn ríkar skyldur í eldvörnum og sveitarfélögin sem annast rekstur slökkviliða og eldvarnaeftirlit.
Von mín er sú að þau sveitarfélög sem nú veita ákveðna forystu í innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits og eldvarnafræðslu fyrir starfsmenn sína verði öðrum sveitarfélögum, fyrirtækjum og stofnunum fyrirmynd þegar fram líða stundir.
Góðir fundarmenn.Það er mér sönn ánægja að ávarpa ykkur hér í dag. Ég óska ykkur alls velfarnaðar í störfum ykkar að því að efla eldvarnir og þar með öryggi fólksins í landinu.