Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. ágúst 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra 2014-2017

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra við opnun sýningar um Surtarbrandsgil

 

Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp við opnun sýningar um Sutrarbrandsgil í prestsbústaðnum á Brjánslæk 12. ágúst 2016.

 

Góðir gestir, 

Það er afar ánægjulegt að fá tækifæri til að opna þessa áhugaverðu sýningu um náttúruvættið Surtabrandsgil á fallegum síðsumardegi, þegar haustið er handan hornsins með alla sína litadýrð
Það var framsýn ákvörðun árið 1975 að friðlýsa Surtarbrandsgil sem náttúruvætti. Tilgangur friðlýsingarinnar var að vernda stórmerkar náttúruminjar sem hér er að finna, bæði plöntuleifar, laufblöð, aldin, fræ og frjókorn sem hafa sest til í frekar grunnu stöðuvatni og grafist þar í botnsetið fyrir um 12 milljónum ára.

Plöntusteingervingar eins og er að finna hér í Surtabrandsgildi leiða okkur í sannleika um hvernig umhorfs var hér áður fyrr. Gróðurfar á Íslandi hefur sannarlega tekið miklum breytingum og stakkaskiptum ef marka má steingervinga og útdauðar plöntutegundir liðinna alda. Í dag er það líkara evrópskri flóru, en fyrir um 15 milljónum ára síðan líktist það austurhluta Norður –Ameríku. 

Fyrstu rannsóknirnar á Surtabrandsgili eru raktar aftur til ferða þeirra Eggerts Ólafsson og Bjarna Pálssonar sem skráðu náttúrufar hér á landi fyrir meira en 260 árum síðan. Talið er að lýsing þeirra á Surtarbrandsgili sé fyrsta ritaða heimildin um hið forna gróðurfar hér á landi. 

Surtarbrandsgil telst einn merkasti fundarstaður steingervinga á Íslandi og þar hafa verið greindar um 65 tegundir plantna, aðallega lauftré. 

Surtarbrandsgil hér við Brjánslæk er jafnframt þekkt víða utan landsteinanna og finna má steingervinga úr gilinu á náttúrugripasöfnum víða í Evrópu, m.a. Þýskalandi, Svíþjóð og Danmörku.

Ísland hefur löngum verið áhugaverður og kjörinn vettvangur náttúrurannsókna, en fjölmargir innlendir og erlendir vísindamenn hafa rannsakað steingervingalögin hér í Surtabrandsgili.

Það er áhugavert að sjá hér í gestastofunni á Brjánslæk hvernig jarðsaga svæðisins og sérstaklega steingervingaflóran er kynnt á lifandi hátt. Plöntuleifar úr setlögum benda til þess að fyrir 15 milljónum ára hafi loftslag verið mun hlýrra en það er í dag – þ.e. heittemprað, hlýtt og rakt. Síðan hafi tekið við kólnandi loftslag með stuttum og köldum sumrum. 

Þá er talið að tegundaríkasta flóran hér á landi sé að finna í setlögum sem tilheyra Brjánslækjar-Seljár setlagasyrpunni sem er um 12 milljón ára gömul og er Surtarbrandsgil ein besta opnan í setlagasyrpunni. 

Fram hefur komið að á liðnum árum hafa gestir svæðisins numið mikið af steingervingum á brott með sér – sjálfsagt af þekkingarleysi og var surtabrandur einnig nýttur árum áður til heimabrúks, en þótti frekar lélegt eldsneyti. Nú hefur tekist að koma í veg fyrir það að mestu með því að auka landvörslu og setja upp hlið og skilti ásamt því að vera með skipulagðar gönguferðir í gilið með landverði. 

Með sýningunni hér á Brjánslæk er leitast við að fræða almenning um jarðfræði svæðisins, mikilvægi þess að vernda steingervinga og eru skipulagðar gönguferðir í gilið liður í því.  

Það er trú mín að með aukinni fræðslu og leiðbeiningum takist okkur að vernda betur þær gersemar sem steingervingaflóran er – fyrir okkur og komandi kynslóðir og gefi vísindamönnum í dag og í framtíðinni tækifæri til rannsókna á jarðsögu landsins. 

Það er einnig von mín að sýningin komi til með að styrkja byggð á svæðinu og stuðli að því að fólk komi gagngert til að skoða þá merku sögu sem surtabrandurinn varðveitir.


Ágætu gestir,
Samhliða því að opna sýninguna, hér með formlega, vil ég óska öllum hlutaðeigandi sem lagt hafa hönd á plóg, til hamingju með þessa sýningu hér í prestsbústaðnum á Brjánslæk. 

Það er áhugavert og fagnaðarefni að sjá þetta góða samstarf sem hér hefur tekist milli Umhverfisstofnunar og heimaaðila hér á Brjánslæk.

 Ég hlakka jafnframt til að heyra erindin á eftir, fræðast meira um sýninguna og um áframhaldandi áform hér í prestsbústaðnum

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta